Berglind Rós Karlsdóttir
Berglind Rós Karlsdóttir
Berglind Rós Karlsdóttir lýsir reynslu sinni af Pólverjum og heimalandi þeirra: "Pólland er óslípaður demantur sem mörg ykkar eiga vonandi eftir að uppgötva. Landið er risastórt, frá strandaparadís í norðri til draumaskíðasvæðis í suðri."

Í ALLRI þessari umræðu undanfarna mánuði um innflytjendur, og þá sérstaklega um innflytjendur frá Austur-Evrópu, aðstæður þeirra og áhrif á íslenskt samfélag, fann ég mig knúna til að segja mína sögu. Ég er í svolítið sérstökum sporum. Ég er gift Pólverja. Í gegnum hann hef ég fengið innsýn og kynnst þjóð sem ég hugsanlega hefði ekki annars fengið að kynnast. Ég segi ekki að þetta hafi alltaf verið auðvelt og ég hafi ekki þurft að glíma við fordóma, bæði mína eigin og frá samfélaginu. Það er auðvelt að gleyma sér í neikvæðri umræðu um ,,hina“, loka augunum og dæma allan hópinn í stað þess að sjá að þetta eru allt einstaklingar, jafnólíkir sín á milli og við Íslendingar erum. Ég meina, hvernig er annað hægt? Í Póllandi búa 38 milljónir!

Það er erfitt að viðurkenna sína eigin fordóma en við öll höfum þá. Maður áttar sig bara ekki alltaf á þeim fyrr en við rekum okkur á þá. Það var ekki fyrr en ég ferðaðist til Austur-Evrópu, kynntist fólkinu og sá að þar voru líka fallegir, gáfaðir einstaklingar að ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að það væri kannski ekki svo slæmt að vera með manni frá Póllandi. Hvers vegna hélt ég það í fyrsta lagi? Ég hafði rekið mig á eigin fordóma. Munurinn á okkur er eingöngu sá að ég fæddist í litlu og ríku samfélagi sem hefur fengið að sjá um sig sjálft í yfir 60 ár. Sá munur gerir mig ekki betri. Ójöfn lífsgæði segja ekkert um menninguna og einstaklingana sem prýða hana. Það lærði ég strax í fyrstu heimsókn minni til Póllands. Pólverjar eru nefnilega ein gestrisnasta þjóð sem ég hef nokkurn tímann kynnst. Ég gleymi aldrei þessari heimsókn minni. Tengdamóðir mín hafði staðið í eldhúsinu allan daginn til að elda mat handa gestinum sem var að koma alla leið frá Íslandi. Tengdapabbi dró mig inn í stofu og heimtaði að ég skálaði með honum í vodkastaupi til að fagna komu minni. Ættingjar og vinir mannsins míns heimtuðu að við kíktum við svo hægt væri að bjóða okkur eitthvað. Að afþakka var ekki hægt. Enda ekki ástæða til þess. Pólverjar eru snillingar í mat, sérstaklega í súpum og kjötréttum. Þrátt fyrir að margir eigi ekki krónu er það ávallt gleðiefni ef gest ber að garði og tilefni til að draga fram vodkaflöskuna úr frystinum og allan mat sem til er í húsinu. Svona er þetta ávallt þegar við förum til Póllands. Gera þarf bara ráð fyrir því að fara í góða megrun eftir að maður kemur heim.

Staðalímyndir geta verið misvísandi. Það eru þær fyrirframgefnu ímyndir sem maður hefur af viðkomandi stað. Áður en ég kom fyrst til Póllands var ég með ákveðna ímynd um Pólland. Ég sá fyrir mér hrörlegar byggingar, áberandi fátækt, grátt og drungalegt umhverfi. Það var vanþekking. Pólland er óslípaður demantur sem mörg ykkar eiga vonandi eftir að uppgötva. Landið er risastórt, frá strandaparadís í norðri til draumaskíðasvæðis í suðri. Menningin og þjóðin er margbrotin, strangtrúaðir kaþólikkar í innsveitum til frjálshyggjuhugsjóna borgarbúa. Minjar landsins eru einnig stórkostlegar; þar er ekki bara að finna hryllingsbúðir líkt og Auswitch og Treblinka, heldur einnig gríðarstóra kastala, saltnámur, drekahelli, aldagamlar kirkjur og sögufrægar borgir líkt og Krakow, Varsjá og Gdansk. Jafnvel þótt þjóðin sé enn að brjótast úr viðjum fátæktar, spillingar og kúgunar, sem haldið hefur þjóðinni niðri öldum saman, hefur margt gerst á stuttum tíma. Til dæmis Varsjá, sem var gjöreyðilögð af nasistum í seinni heimsstyrjöldinni, er í dag blómstrandi nútímaborg.

Vinnusemi Pólverja hefur sannað sig á íslenskum vinnumarkaði en þar eru Pólverjar vinsælastir til vinnu. Þeir eru upp til hópa vinnuþjarkar sem eru tilbúnir að vinna lengi og mikið, tilbúnir að fórna sér í vinnu til að halda uppi fjölskyldu sinni, jafnvel þótt það þýði að flytja til annars lands í óákveðinn tíma. Ímyndaðu þér að þurfa að vinna langt frá fjölskyldu þinni svo vikum skiptir. Það er erfitt. Tengdapabbi er farandverkamaður og hefur verið allt frá því að maðurinn minn man eftir sér. Í minningu hans var faðir hans eins og fjarskyldur ættingi sem kom í heimsókn á nokkurra mánaða fresti. Þetta hefur haft áhrif á samband þeirra feðga alla tíð.

Samkvæmt tölum hagstofunnar eru flestir sem hingað koma til að vinna 25 ára og eldri og langflestir koma einir án fjölskyldu. Staðreyndin er nefnilega sú að hver og einn er bara að reyna að byggja sér og/eða fjölskyldu sinni betra líf. Það jákvæða við þetta allt saman er að sumir sem hingað koma læra að elska landið líkt og við höfum gert og vilja setjast hér að til frambúðar. Það er jákvætt þegar slíkt gerist því maður hefði haldið að einfaldara, þægilegra og hagstæðara væri að flytjast til Danmerkur, Þýskalands eða annars staðar á meginlandi Evrópu heldur en kalda skerið okkar nyrst í Atlantshafi.

Við hérna heima þurfum tíma til að aðlagast þessum nýju tímum alveg eins og þeir sem hingað flytjast þurfa tíma til að aðlagast okkur. Af hverju gefum við ekki hvert öðru þennan tíma, þolinmæði og tækifæri til þess að aðlagast? Það kostar okkur ekkert en verðum við ekki ríkari fyrir vikið?

Höfundurinn er með BA í mannfræði.

Höf.: Berglind Rós Karlsdóttir lýsir reynslu sinni af Pólverjum, heimalandi þeirra