Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi iben@mbl.

Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi

iben@mbl.is

„Okkur gekk svo sem vel í sókninni framan af leik og sennilega hefðum við verið í betri stöðu ef markvarslan og vörnin hefði verið með svipuðum hætti og gegn Ungverjum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, að leikslokum gegn Spánverjum í gær á Evrópumótinu í handknattleik. „Síðan lékum við seinni hálfleik mjög illa. Eftir slakan árangur á mótinu þá máttum við alls ekki við því lenda í þeim mótbyr sem við lentum í við upphaf síðari hálfleiks þegar hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn hjá okkur, flestar vegna tæknimistaka. Eftir slakt gengi á mótinu er liðið brothætt,“ sagði Snorri Steinn.

„Það þarf engan sérfræðing til þess að sjá að niðurstaða mótsins er gríðarlega vonbrigði, ekki síst fyrir okkur leikmennina. Einnig þá sem að liðinu standa. Við ætluðum okkur mikið meira en raun ber vitni um en því miður vorum við bara ekki betri en þetta að þessu sinni.“

Snorri sagði að nóg væri framundan hjá sér, alls ekkert frí. „Handknattleikurinn er mín atvinna. Í næsta mánuði þarf ég að spila tíu eða ellefu leiki og þótt mér hafi alls ekki gengið vel í mótinu að þessu sinni þá þýðir ekkert að leggja árar í bát. Fyrir mig var gott að ná sér aðeins á strik í tveimur síðustu leikjunum. Engu að síður er heildarniðurstaðan vonbrigðin. Stundum er það þannig í íþróttum að þegar maður ætlar sér mikið þá verður árangurinn á tíðum minnstur.“