— Reuter
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@24stundir.is Miðlarinn sem var valdur að 475 milljarða króna tapi franska bankans Société Générale, næststærsta banka Frakklands, var einn að verki. Það kemur erlendum sérfræðingum ekki á óvart.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@24stundir.is

Miðlarinn sem var valdur að 475 milljarða króna tapi franska bankans Société Générale, næststærsta banka Frakklands, var einn að verki. Það kemur erlendum sérfræðingum ekki á óvart. Peter Norberg, sem starfar við Viðskiptaháskólann í Stokkhólmi og rannsakar sérstaklega siðfræði, segir svindlarana yfirleitt vera eina þegar þeir missi raunveruleikaskynið. „Þetta eru slungnir náungar sem starfa í umhverfi þar sem milljarðar króna skipta um eigendur án þess þess að nokkur sjái peningana. Í slíkum tilfellum er auðvelt að hrífast með og missa raunveruleikaskynið,“ bendir Norberg meðal annars á í viðtali við sænsku fréttastofuna TT.

Viðskipti stöðvuð

Viðskipti með Société Générale voru stöðvuð í Kauphöllinni í París í gærmorgun eftir að bankinn greindi frá því að verðbréfamiðlari hefði verið valdur að fjársvikum sem kostuðu bankann 4,9 milljarða evra eða rúmlega 475 hundruð milljarða króna. Miðlarinn starfaði í fjárfestingardeild bankans og voru umsvif hans í fyrra og það sem af er þessu ári langt umfram verksvið hans. Vegna mikillar þekkingar á eftirlitskerfi bankans tókst honum að dylja verk sín með röngum færslum. Hagnaður Société Générale fyrir síðasta ár mun nema 600 til 800 milljónum evra þrátt fyrir tapið. Hagnaðurinn fyrir 2006 nam um 5 milljörðum evra, að því er greint er frá á fréttavef Le Figaro.

Kom Leeson ekki á óvart

Málið, sem uppgötvaðist um síðastliðna helgi, minnir á fjársvik breska bankamannsins Nicks Leeson sem var valdur að gjaldþroti Barings Bank, elsta fjárfestingarbanka Bretlands um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Tapið sem Leeson olli Barings Bank nam um 100 milljörðum króna.

Fjársvikin í franska bankanum komu Nick Leeson ekki á óvart. „Það hefur alltaf verið líklegt að slíkt myndi gerast,“ sagði Leeson í viðtali við erlenda fjölmiðla í gær.

Yfirskrift málþings á vegum Háskólans í Reykjavík og Icebank í haust var „Getur Barings-málið endurtekið sig?“ Greinilegt þykir að það hafi gerst og það í miklu meira umfangi.

Á málþinginu sagði Leeson að það hefði aldrei verið ætlun sín að hagnast sjálfur á athæfinu. Hann hafi hins vegar viljað komast hjá því að slök frammistaða sín kæmist upp. Hefði innra eftirlit bankans verið betra hefði fyrsta ranga færslan hans uppgötvast.

Í hnotskurn
Nick Leeson var árið 1995 dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi í Singapúr fyrir að hafa falið tap af viðskiptum í bókhaldi breska bankans Barings Bank. Leeson var látinn laus eftir rúmlega þriggja ára fangavist vegna góðrar hegðunar. Gerð hefur verið kvikmynd eftir sjálfsævisögu Leesons.