Erlendur Guðmundsson fæddist í Reykjavík 5. apríl 1923. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 12. janúar síðastliðinn og var jarðsunginn frá Digraneskirkju 21. janúar.

Elsku afi. Ég kynntist þér fyrir 15 árum, þegar við Erlendur hófum okkar samband. Það varð strax bæði sjálfsagt og eðlilegt að ég kallaði þig afa og þú varðst afi minn líka.

Ég sakna þín mikið. Það er óhugsandi að eiga ekki eftir að sjá þig aftur, sitja við eldhúsborðið, drekka kaffi og spjalla um þjóðfélagsmálin eða heyra þig segja sögur frá fyrri tíð. Ég minnist hjálpsemi þinnar, hvort sem það var við barnapössun eða við smíðar. Þau eru ófá handtökin sem þú vannst á heimilum okkar hjóna og það þurfti ekki að biðja um aðstoð eða ráðleggingar, þú varst mættur á staðinn, tilbúinn að hjálpa. Ég minnist þess hversu góður og þolinmóður þú varst við drengina okkar Helga og Guðmund og hvernig andlit þitt ljómaði alltaf þegar þú hittir þá.

Helgi og Guðmundur sakna þín líka mikið og hafa sínar leiðir til að takast á við þá erfiðu staðreynd að þú sért farinn. Guðmundur er með stórar áætlanir um að klæða sig upp í ofurhetjubúning, bjarga afa sínum og gefa honum flottan löggubíl. Helgi sér þig hinsvegar fyrir sér sem engil. Hann segir að þú getir séð okkur en við getum ekki séð þig, þannig verðir þú alltaf hjá okkur. Helgi hefur alveg rétt fyrir sér. Þú verður alltaf hjá okkur því það er svo margt sem þú hefur kennt okkur sem mun fylgja okkur. Ég mun líka ávallt búa að óvæntri kennslu og töluverðri innsýn í pípulagningar, rafvirkjun og flísalagningar.

Elsku afi, þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið okkur.

Auður.

Ég hef átt marga góða samferðamenn í gegnum lífið og einn þeirra var Erlendur Guðmundsson. Ég hef þekkt Ella frá því ég man fyrst eftir mér og samfylgdin við hann geymir bara góðar minningar. Hann Elli eins og við kölluðum hann var giftur henni Ingu móðursystur minni. Sjaldan var annað þeirra nefnt svo hitt fylgdi ekki með. Elli hennar Ingu eða Inga hans Ella.

Þau voru einstaklega samhent hjón og það var alltaf gaman að vera með þeim.

Ég var svo heppin sem barn að alast upp í Vesturbænum í túnfætinum hjá Ingu og Ella í Eyvík. Í minningunni var túnið á milli húsanna okkar stórt og þar var okkar leikvöllur. Oft var komið við í Eyvík til að hitta krakkana þar og alltaf var tekið vel á móti okkur. Elli hafði einstaklega góða nærveru og það skipti ekki máli hvort um börn eða fullorðna var að ræða, hann sýndi öllum jafna athygli og hlýju.

Svo fluttum við í Garðabæinn og þá fækkaði ferðum okkar í Eyvík en alltaf var gaman að koma þangað. Inga og Elli fluttu líka í Kópavoginn stuttu seinna og eftir að ég varð fullorðin og komin með börn, voru þau hjón alltaf boðin og búin til að passa stelpurnar okkar. Oft var komið við í Hjallabrekku 8 þar sem Inga og Elli áttu fallegt heimili. Það var alltaf gott að leita til þeirra og þau voru boðin og búin til að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda. Elli setti upp rólu fyrir börnin inni í eldhúsi og þar áttu mörg börnin skemmtilegar stundir. Það lék reyndar allt í höndunum á honum Ella. Hann var allt í senn, rafvirki, smiður, pípulagningamaður og múrari, var jafnvígur á allt handverk og hann var óspar á að hjálpa til hvenær sem hann gat.

Tíminn hefur liðið hratt og skyndilega erum við sem vorum börn að leika okkur á Eyvíkurtúninu orðin miðaldra fólk. Það var samt eins og Elli væri alltaf ungur, tíminn náði einhvern veginn ekki til hans. Nú er fjölskylda þeirra orðin stór, börn, barnabörn og barnabarnabörn sem öll minnast þessa góða manns, sem var svo stór hluti af þeirra lífi, með söknuði.

Ég vil að lokum þakka Ella samfylgdina og ég minnist hans með hlýhug og virðingu. Megi minning hans lifa.

Magnea Kristleifsdóttir.