Úkraínsk fegurðardís Kurylenko mun vafalaust heilla Bond upp úr skónum í Quantum of Solace.
Úkraínsk fegurðardís Kurylenko mun vafalaust heilla Bond upp úr skónum í Quantum of Solace.
Aðstandendur James Bond-myndaraðarinnar tilkynntu á formlegum blaðamannafundi í Pinewood-kvikmyndaverinu að næsta Bond-mynd hefði fengið hið sérstaka nafni Quantum of Solace.

Aðstandendur James Bond-myndaraðarinnar tilkynntu á formlegum blaðamannafundi í Pinewood-kvikmyndaverinu að næsta Bond-mynd hefði fengið hið sérstaka nafni Quantum of Solace. Nafnið á myndinni er ekki alveg úr lausu lofti gripið því það kemur frá smásagnasafninu For Your Eyes Only sem Ian Fleming, faðir James Bond-sagnanna, gaf út árið 1960 en í því var einmitt að finna smásögu sem bar sama heiti.

Söguþráður myndarinnar mun lítið tengjast söguþræði smásögunnar en hún mun halda áfram frá þeim tíma sem síðasta mynd endaði. Tökur hafa staðið yfir í Pinewood-kvikmyndaverinu síðan í nóvember en áætlað er að myndin verði frumsýnd í nóvember á þessu ári. Quantum of Solace verður 22. Bond-myndin og önnur myndin þar sem leikarinn Daniel Craig fer með hlutverk hins víðförla spæjara.

Á meðal annarra sem fara með hlutverk í myndinni eru Judy Dench sem leikur M, yfirmann bresku leyniþjónustunnar MI6, Gemma Arterton sem leikur útsendara MI6, Mathieu Amalric sem fer með hlutverk skúrksins og Olga Kurylenko sem fer með stórt hlutverk í myndinni.

Hin úkraínska Kurylenko, sem vakti mikla athygli í hinni annars lélegu Hitman-mynd, hefur enn ekki leikið í einu einasta atriði í myndinni en er um þessar mundir í stífum æfingabúðum.

„Ég er í vopnaþjálfun, þjálfun fyrir háloftaatriði og svo slagsmálaþjálfun. Dagarnir mínir eru langir og mjög erfiðir,“ sagði leikkonan í viðtali við BBC en enn sem komið er hefur lítið verið staðfest um persónu hennar í myndinni og er ekki vitað hvernig hún tengist sögunni. vij