Frá Reyni Vilhjálmssyni: "GUÐRÚN Guðlaugsdóttir skrifar grein í Morgunblaðið í dag (sunnudag 20.1.) í greinaflokknum Þjóðlífsþankar undir yfirskriftinni „Um skipan dómara“."

GUÐRÚN Guðlaugsdóttir skrifar grein í Morgunblaðið í dag (sunnudag 20.1.) í greinaflokknum Þjóðlífsþankar undir yfirskriftinni „Um skipan dómara“. Þessi grein er athyglisverð vegna þess að í henni koma fram mjög varasamar hugmyndir að mínu áliti.

Höfundur vitnar í dóm hæstaréttar þar sem ákærði var sýknaður af ákæru um að hafa misnotað dóttur sína. Greinarhöfundur segir að margt hafi komið fram sem virtist benda til þess að maðurinn væri sekur. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, það er ekki nóg að einhver virðist sekur og það er ekki nóg að einhver geti ekki ímyndað sér að stúlka saki föður sinn um misnotkun að ósekju. Það er grundvallarkrafa réttarríkis að hver maður telst saklaus uns sök hans hefur verið sönnuð án nokkurs vafa. Og það er líka grundvallarkrafa að ákærði njóti vafans ef hann er fyrir hendi. Það getur vel verið að sumum finnist réttlætiskennd sinni misboðið vegna dóms eins og þess sem um er rætt en það verður þá að hafa það. Mér skilst að lögfræðinemar læri það fyrst allra hluta að hugtökin réttlæti og réttur hafi mjög lítið hvort með annað að gera. Með lögum skal land byggja var sagt forðum. Það var ekki sagt: með réttlæti skal land byggja. Ástæðan er einföld, réttlæti er afar teygjanlegt hugtak og menn eru sjaldan sammála um hvað sé réttlátt. Í raun snúast langflestar þrætur einmitt um það hvað sé réttlæti. Lög og réttur verða hinsvegar að gilda jafnt fyrir alla og þar má siðferðishugarfarið ekki skipta of miklu máli. Það er meginframför í nútímaþjóðfélagi að tekist hefur að losa réttarfarið undan oki rétthugsunar sem oft hefur byggst á einhverskonar siðferðiskerfi. Um þetta má nefna fjölmörg dæmi. Galdraofsóknir endurreisnartímans byggðust á siðferðishugmyndum sem voru boðaðar af kirkjunni og mikill hluti almennings aðhylltist. Nasistar kröfðust þess að dómarar túlkuðu lögin í samræmi við þeirra hugmyndaheim. Kommúnistar litu á lög og rétt sem baráttutæki til að styrkja kommúnismann.

Þessi dæmi sýna hversu hættuleg sú hugmynd er að senda dómaraefni í persónuleikapróf áður en skipað væri í stöður endanlega. Mér er minnisstæð sú athugasemd sem einn af kennurum mínum við háskóla í Þýskalandi gerði þegar við ræddum um frumvarp að háskólalögum. Þar var gert ráð fyrir að háskólakennarar þyrftu sérstaka staðfestingu ráðherra eftir hæfnismat háskóla (svokallaða habilitation). Þessi staðfesting var skylda 1935 þegar hann varð háskólakennari. Ráðherra krafðist þess þá að kandidatar færu á sérstakt námskeið sem tók mánuð og átti einungis að tryggja að komandi háskólakennarar væru öruggir fylgismenn nasismans.

Allt mat á því hvort fólk er heilsteypt eða vandað að gerð býður misnotkun heim.

Við þurfum engin persónuleikapróf, þau eru af hinu illa.

REYNIR VILHJÁLMSSON,

eðlisfræðingur.

Frá Reyni Vilhjálmssyni

Höf.: Reyni Vilhjálmssyni