SPARISJÓÐIR eiga stóra hluti í fjárfestingarfélaginu Exista og hafa því ekki farið varhluta af mikilli lækkun á gengi hlutabréfa félagsins.

SPARISJÓÐIR eiga stóra hluti í fjárfestingarfélaginu Exista og hafa því ekki farið varhluta af mikilli lækkun á gengi hlutabréfa félagsins. Gengið í Exista hækkaði í gær um rúm 3%, fór í 12,06, en engu að síður hafa milljarðar horfið úr eignasafni sparisjóðanna. Kista fjárfestingarfélag, sem er í eigu sparisjóðanna, er næststærsti hluthafi Exista með 8,9% hlut, miðað við hluthafalista frá 27. desember sl. SPRON á stærstan hlut í Kistu og á svo sjálfur 3,2% hlut í Exista, Icebank á 2,5% og SpKef 0,9%. Markaðsvirði bréfa þessara sparisjóða í Exista nam 35 milljörðum króna um áramót en er nú komið niður í um 21 milljarð króna, eða rýrnun um 14 milljarða króna.

Lækkun Byrsbréfa

Byr sparisjóður hefur að mestu losað sig við bréf í Exista. Viðskipti með stofnbréf Byrs hafa verið að glæðast síðustu daga, eftir rólega byrjun frá því að bréfin voru sett á markað. Stofnfé Byrs var sem kunnugt er aukið nýlega og var það allt selt í forkaupsréttarúboði til stofnfjáreigenda. Samkvæmt skilmálum útboðsins var gengi bréfanna 3,0 en miðað við síðustu viðskipti hafa þau lækkað töluvert. Flest viðskipti hafa verið á genginu 1,9 en hæsta verð verið 2,1 á eftirmarkaðnum.