Benni Ætlaði að verða píanótónskáldstónlistarmaður. Ekki svo fjarri því en spilar á gítar.
Benni Ætlaði að verða píanótónskáldstónlistarmaður. Ekki svo fjarri því en spilar á gítar. — Morgunblaðið/G.Rúnar
Aðalsmaður vikunnar er Benedikt Hermann Hermannsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm. Hann semur tónlistina í leikritinu Höllu og Kára.
Lýstu eigin útliti.

Hippi.

Hvaðan ertu?

Ég er úr Norðurmýrinni.

Ertu búinn að sjá Brúðgumann? (Spurt af síðasta aðalsmanni, Ólafi Agli Egilssyni).

Já, og mér fannst hún mjög góð.

Hvað vantar þig helst í búið?

Baðkar, stærra eldhús og gítarherbergi og margt fleira.

Ertu í einhverjum samtökum?

Ég er í fjölmörgum samtökum. Kannski ber helst að nefna hagsmunasamtök sem eiga að vinna að því að gæta minna hagsmuna, eins og FÍH og FTT.

Hvað ætlaðirðu að verða þegar þú yrðir stór?

Tónlistarmaður. Píanótónskáldstónlistarmaður.

Hvaða bók lastu síðast?

Síðasta bók sem ég las er Hnífur Abrahams eftir Óttar M. Norðfjörð. Annars er ég líka í langtímalestri á mjög langri og ítarlegri ævisögu Elvis Presleys.

Á hvaða plötu hlustar þú mest þessa dagana?

The Best of Sam Cooke og After the Gold Rush með Neil Young.

Uppáhaldstónlistarmaður/hljómsveit?

Það er alveg svakalega erfitt að svara þessu en sá sem ég get alltaf hlustað á oghef aldrei fengið leið á er Bob Dylan.

Helstu áhugamál?

Ég held því miður að ég verði að segja tónlist. Svo finnst mér ótrúlega gaman að hafa tíma til að lesa góðar bækur og fara á góðar myndlistarsýningar.

Kajak eða kanó?

Nú kajak auðvitað!

Hvað finnst þér um yfirvofandi lokun á Sirkus?

Mér finnst það leiðinlegt að það eigi að byggja ljót hús í hverfinu mínu. Það er ástæðan fyrir því að það verður að loka Sirkus, og þess vegna finnst mér þetta allt saman hið versta mál.

Hvað uppgötvaðir þú síðast um sjálfan þig?

Mér var sagt nýlega að ég væri snyrtimenni. Ég vissi það ekki fyrr en mér var sagt það...

Er maðurinn það sem hann trúir að hann sé?

Er maðurinn það sem hann heldur að hann haldi að hann trúi?

Tekurðu mark á gagnrýni?

Já, auðvitað. Ég tek samt mismikið mark á gagnrýni eftir því hvaðan hún kemur.

Styðurðu nýjan meirihluta í borgarstjórn?

Nei – vegna þess að hann er ekki meirihluti. Þetta er allt mjög vandræðalegt og ég hlakka til þess að sjá eðlilegt ástand aftur í Reykjavík.

Uppáhaldsleikari?

Victor Sjöström er svakalegur í Fjalla-Eyvindi. Svo var ég að horfa á Næturvaktina í einum rykk og allir aðalleikararnir þar finnst mér ótrúlega góðir. Mér finnst Eggert Þorleifsson líka magnaður.

Uppáhaldsleikkona?

Vigdís María Hermannsdóttir.

Hvaða erlendu borg heldur þú mest upp á?

Tókýó er ennþá efst á listanum.

Skemmtilegustu tónleikar sem þú hefur spilað á?

Ég held að þeir hafi verið í Vínarborg vorið 2007. Svo var líka rosalega gaman í New York síðasta sumar.

Hver er frægasti vinur þinn í dag?

Biggi í Motion Boys og Árni Vill í FM Belfast. Já og Högni í Hjaltalín.

Hver er fyndnasti maður sem þú hefur hitt?

Friðrik Sólnes. Og Biggi í Motion Boys.

Hvers viltu spyrja næsta viðmælanda?

Manstu eftir pönkinu?