Móðir skrifar: Hvernig stendur á því að í mesta velferðarríki í heimi skuli fjöldi veikra ungmenna vera á götunni? Getur það samræmst velferðarríki að hafa slíkt ástand viðvarandi? Hvað er til ráða? Þegar stórt er spurt verður fátt um svör.

Móðir skrifar:

Hvernig stendur á því að í mesta velferðarríki í heimi skuli fjöldi veikra ungmenna vera á götunni?

Getur það samræmst velferðarríki að hafa slíkt ástand viðvarandi? Hvað er til ráða?

Þegar stórt er spurt verður fátt um svör. Ég er þess fullviss að hægt er að ráða bót á þessum vanda, ef vilji stjórnvalda er fyrir hendi. Það kostar að sjálfsögðu mikla peninga en það kostar enn meiri peninga fyrir þjóðfélagið að hafa unga fíkla á götunni sem stunda afbrot til að kosta neysluna og enda oftar en ekki í fangelsi. Að ekki sé talað um sjúkrahúsvist, vinnutap og fleira. Ég er að tala um fíklana sem margir hverjir eiga við miklar geðraskanir að stríða og hafa ekki getu til að halda út hefðbundnar vímuefnameðferðir.

Vantar meðferðarstað

Ég tala af reynslu þar sem ég hef fylgst með syni mínum síðustu ár í stigvaxandi neyslu og með versnandi geðraskanir ár frá ári. Hann hefur prófað allar meðferðarstofnanir á landinu fyrir utan eina og ég verð að segja að Byrgið var sá staður þar sem hann fékk þá hjálp sem hentaði honum best, þó að sú meðferð væri alls ekki fullnægjandi. Það er ekki hægt annað en að hafa ákveðinn sveiganleika á meðferðarstöðum þar sem tekið er tillit til geðheilsu viðkomandi. Ef meðferð er í mjög þröngum ramma, þá gefast veikustu einstaklingarnir upp eða eru reknir úr meðferð ítrekað. Það var sorglegt að sjá hvernig fjölmiðlar gerðu sér mat úr þeim hörmungum sem áttu sér stað í Byrginu og það hafði gríðarlega neikvæð áhrif á þá veiku einstaklinga sem þar dvöldu. Sú ákvörðun að loka Byrginu var líka óskiljanleg. Það var vissulega þörf fyrir þennan stað og margir góðir menn sem þar unnu sem hefðu getað tekið við rekstrinum.

Í dag vantar tilfinnanlega meðferðarstað þar sem fíklar með geðraskanir fá að dvelja yfir lengri tíma. Ég tel að það vanti mest langtímameðferð með bæði heilbrigðismenntuðu starfsfólki og ekki síður með ráðgjöfum sem þekkja fíknisjúkdóma af eigin raun. Þar þyrfti að vera meðferð sem ekki einungis sinnir afeitrun heldur getur líka boðið upp á langtímaendurhæfingu, hugsanlega með tengingu við vinnumarkaðinn.

Samfélagslegt böl

Ég hef trú á að félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherrann okkar geti gert góða hluti og skora á þá að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að bæta úr þessum málum. Væri þetta ekki verðugt nýársheit að þeir taki höndum saman og finni lausn á þessum vanda. Fíkn er sjúkdómur sem snertir flestar fjölskyldur í landinu og þá er ekki farið í manngreinarálit. Börn frá alls kyns fjölskyldum geta lent í fíkniefnabölinu og mér virðist sem þetta vandamál sé orðið óhugnanlega algengt á Íslandi. Þetta er samfélagslegt böl sem við verðum að standa saman um að bæta.

Er ekki kominn tími til að setja manngildi ofar verðgildi? Ætti forgangsröðunin í mesta velferðarríki heimsins ekki að vera þannig?