Vanheilög? Múslímar og gyðingar hafa illan bifur á svínum.
Vanheilög? Múslímar og gyðingar hafa illan bifur á svínum. — Árvakur/Árni Sæberg
Í SKÓLA einum í Vestur-Jórvíkurskíri á Englandi hafa allar barnabækur þar sem svín og grísir koma við sögu verið bannaðar.

Í SKÓLA einum í Vestur-Jórvíkurskíri á Englandi hafa allar barnabækur þar sem svín og grísir koma við sögu verið bannaðar. Er það gert til að móðga ekki múslímsku börnin en múslímar líta á svín sem vanheilagar skepnur og er neysla á svínakjöti bönnuð meðal þeirra og raunar gyðinga líka.

Barbara Harris, skólastjóri skólans, skipaði kennurunum að fjarlægja allar barnabækur þar sem svín lékju eitthvert hlutverk en þær verða þó áfram fáanlega í bókasafni skólans, þar á meðal bókin um grísina þrjá og úlfinn. Sagði hún, að taka yrði tillit til tilfinninga múslíma að þessu leyti en í skólanum eru 60% nemenda af pakistönskum og indverskum uppruna og 99% þeirra múslímar.

Grísabanni snúið við

Annað mál af þessu tagi hefur verið á döfinni í héraðinu en til stendur að halda tónlistarhátíð barna í Kirklee í júní næstkomandi. Þar átti meðal annars að setja upp söguna um Rauðhettu og um litlu grísina þrjá og úlfinn en aðstandendum hátíðarinnar hafði verið skipað að skipta út grísunum og þrjá litla hvolpa koma í staðinn. Hafði skipulagsnefndin komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri víst, að múslímskum börnum líkaði að syngja um svín.

Þegar hér var komið skarst hins vegar bæjarstjórnin í Kirklee í leikinn.

„Það er eitthvert óttalegt rugl í gangi,“ sagði Jim Dodds, talsmaður yfirvalda í menntamálum, þegar hann tilkynnti, að bannið við grísunum þremur hefði verið afturkallað. „Grísirnir þrír verða á sínum stað á hátíðinni.“