Eftir Þórð Snæ Júlíusson t hordur@24stundir.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

t hordur@24stundir.is

Sá sögulegi atburður átti sér stað í gær að stöðva þurfti borgarstjórnarfund vegna óláta fundargesta sem fjölmennt höfðu á palla Ráðhúss Reykjavíkur til að mótmæla myndun nýs meirihluta sjálfstæðismanna og F-lista í Reykjavík. Ekki síðan í Gúttóslagnum árið 1932 hefur borgarstjórnarfundur leyst upp með þessum hætti vegna óláta. Að sögn skipuleggjenda, sem voru ungliðahreyfingar núverandi minnihlutaflokka, voru hátt í þúsund mótmælendur samankomnir í og við Ráðhúsið um hádegisbilið í gær.

Hróp gerð að Vilhjálmi og Ólafi

Mannmergðin gerði hróp að borgarfulltrúum hins nýja meirihluta og þá sérstaklega Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og Ólafi F. Magnússyni, sem síðar um daginn var kjörinn borgarstjóri. Mótmælendur héldu áfram að syngja slagorð á borð við „Okkar Reykjavík, okkar Dagur í Reykjavík,“ „Hættið við! Hættið við!“ og „Villi farðu heim,“ eftir að fundurinn var settur.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, nýkjörinn forseti borgarstjórnar, reyndi ítrekað að stilla til friðar án árangurs og á endanum var gert hlé á fundinum til að hægt væri að rýma pallana. Fundurinn hófst þó á ný eftir að Ráðhúsið hafði verið rýmt. Mótmælendur fóru að lokum úr húsinu án þess að til átaka kæmi.

Engum til góðs

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, segist ekki muna eftir annarri eins uppákomu í borgarstjórn. „Ég held að þeir sem skipulögðu þessi mótmæli hafi ætlað að ná meiri árangri heldur en þeir náðu. En ég mæli ekki með því að ábyrgir stjórnmálamenn standi fyrir svona uppákomum. Ég held að þær séu ekki neinum til góðs.“

Á að taka ofan fyrir fólki

Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, segir atburðina endurspegla þá undiröldu óánægju sem sé á meðal íbúa Reykjavíkur. „Ég held að mörgum hafi liðið eins og mér og viljað hafa vald til þess að boða til kosninga í dag,“ segir Dagur. „Ég held að bæði þessar gríðarlega mörgu undirskriftir og þessi þunga undiralda sem er í samfélaginu sé vegna þess að sveitarstjórnarstigið býður ekki upp á þann kost að rjúfa þing og boða til kosninga. Þess vegna hafa almennir kjósendur, sem sýður á núna, sáralítil tök á því að láta skoðanir sínar í ljós nema með þessum hætti. Það er það sem gerðist. Í lýðræðissamfélagi á að taka ofan fyrir því þegar fólk lætur í sér heyra.“

Í hnotskurn
122. grein almennra hegningarlaga segir að „raski nokkur fundarfriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni með háreysti eða uppivöðslu, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.“ Í samþykktum borgarstjórnar Reykjavíkur segir að raski áheyrandi á borgarstjórnarfundi fundarfriði geti forseti látið vísa honum út.