Almenningur á fullan rétt á að mótmæla, efna til mótmælafunda, fara í kröfugöngur, hafa uppi mótmælaspjöld og yfirleitt að mótmæla hverju því, sem fólki sýnist. Slíkar mótmælaaðgerðir verða þó að vera innan ramma laga, reglna og hefða. Það er t.d.

Almenningur á fullan rétt á að mótmæla, efna til mótmælafunda, fara í kröfugöngur, hafa uppi mótmælaspjöld og yfirleitt að mótmæla hverju því, sem fólki sýnist. Slíkar mótmælaaðgerðir verða þó að vera innan ramma laga, reglna og hefða. Það er t.d. alveg ljóst að ákveðnir hópar mótmælenda fóru út fyrir þau mörk við mótmæli vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Fundir Alþingis og sveitarstjórna eru opnir öllum almenningi. Yfirleitt eru þessir fundir lítið sóttir af hinum almenna borgara en þegar hiti er í stjórnmálum fyllast áhorfendapallar bæði á Alþingi og í Ráðhúsi Reykjavíkur og á fundum sveitarstjórna annars staðar.

Grundvallaratriði er að fólk, sem sækir þessa opnu fundi sýni þessum vettvangi lýðræðislega kjörinna stjórnvalda fulla virðingu. Ef það er ekki gert og hróp og köll höfð uppi er þetta sama fólk að sýna lýðræðislegum stjórnarháttum okkar vanvirðu.

Í gær kallaði Samfylkingin fólk á áheyrendapalla Ráðhússins vegna kjörs nýs borgarstjóra á vegum nýs meirihluta í borgarstjórninni. Þeir áheyrendur, sem Samfylkingin kallaði til höfðu uppi hróp og köll og púuðu á nýjan borgarstjóra og aðra.

Framkoma sem þessi er ekkert annað en skrílslæti og furðulegt að næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli standa fyrir slíku. Það segir leiðinlega sögu um afstöðu forystumanna þess flokks til lýðræðisins.

Meirihluti borgarfulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lýðræðislegan rétt til að mynda nýjan meirihluta, sem tekur við af þeim, sem njóta ekki lengur trausts meirihluta borgarfulltrúa. Þeir sem missa völdin geta verið ósáttir við þessa breytingu en þeir eiga engan annan kost en að kyngja breytingunni og leitast svo við að snúa henni við í næstu borgarstjórnarkosningum, sem fram fara eftir rúmlega tvö ár.

Samfylkingin þolir bersýnilega ekki að missa völdin í borgarstjórn og bregst við með afar ógeðfelldum áróðri gegn Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra. Annars vegar með þeirri hrokafullu afstöðu til hins nýja borgarstjóra, sem lýsir sér í orðum bæði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingar, og Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra, og hins vegar með skipulögðu illu umtali um hinn nýja borgarstjóra, sem er svo skammarlegt að furðu gegnir að þetta fólk vilji leggja nafn sitt við.

Hið eðlilega svar borgarbúa er að gefa Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra, eðlilegt tækifæri til að móta embætti borgarstjóra með sínum hætti og kynna þau stefnumál, sem hann vill vinna að.

Forystumenn Samfylkingarinnar ættu að sjá sóma sinn í að stöðva það ómerkilega tal, sem berst nú út úr þeirra röðum.