Reiðufé Öryggisverðir mættu með töskur fullar af beinhörðum peningum sem Ástþór býðst til að leggja fram vegna forsetakosninganna í vor.
Reiðufé Öryggisverðir mættu með töskur fullar af beinhörðum peningum sem Ástþór býðst til að leggja fram vegna forsetakosninganna í vor. — Árvakur/Árni Sæberg
Ástþór Magnússon sagðist á blaðamannfundi í gær hafa sent dómsmálaráðherra tilboð um að greiða útlagðan kostnað ríkissjóðs við forsetakosningarnar 2008.

Ástþór Magnússon sagðist á blaðamannfundi í gær hafa sent dómsmálaráðherra tilboð um að greiða útlagðan kostnað ríkissjóðs við forsetakosningarnar 2008. Ástþór las upp yfirlýsingu um þetta þar sem segir: „Til marks um að þetta eru ekki orðin tóm sýni ég ykkur hér nægan fjölda tvöþúsundkalla til að standa við þetta tilboð,“ sagði hann. Öryggisverðir komu í sama mund með töskur fullar af seðlabúntum og röðuðu þeim á pallborð Ástþórs. Kvað hann þetta vera alls 40 milljónir króna í reiðufé. „Nú vantar bara góða frambjóðendur sem ég skora á frambjóðendur að finna,“ sagði Ástþór en svaraði ekki spurningum um hvort hann myndi bjóða sig fram sjálfur.

Í yfirlýsingunni segir að Ástþóri finnist það sárt og leitt að heyra glósur í sinn garð um að áralöng barátta til að fá áherslum hjá embætti forseta Íslands breytt til íslenskrar forystu í friðarmálum, sé misnotkun eða nauðgun á lýðræðinu. Sagði hann ýmsan árangur hafa náðst á þrettán árum Friðar 2000 og hugmyndir forsvarsmanna hans síast inn heima og erlendis. Þannig hafi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, stofnsett Friðarstofnun Reykjavíkur árið 2007, Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, undirritað samning um stofnun alþjóðlegs háskóla á Keflavíkurflugvelli sem m.a. mun starfa að friðarmálum. „Þá kom frú Yoko Ono með friðarsúluna í Viðey sem einnig þokar okkur í rétta átt sem leiðandi afl jarðarbúa í friðarmálum,“ sagði Ástþór.

Hann sagði að nú væri í þriðja sinn hafinn hræðsluáróður gegn forsetakosningunum. Atburðarásin hefði átt sér nokkurn aðdraganda. „Lúmskt bros stjórnmálafræðingsins sem skilur betur en allir hvernig má spila á lýðræðið og illa upplýstan almúga blasir nú við mér í hvert sinn sem keypt er í matinn eða bensín á bílinn,“ sagði hann.

Þurfa að axla ábyrgð

„Þeir sem ráða fjölmiðlum landsins þurfa að axla þá ábyrgð að misnota ekki valdið til að hygla einum fram yfir aðra eins og gerðist með svo afgerandi hætti í íslensku forsetakosningunum árið 2004 að erlendir fræðimenn líkja við Júgóslavíu undir einræði Slobodans Milosevic.“

Ástþór minntist þess að fyrir 13 árum á stofnfundi Friðar 2000 hefðu 500 manns komið í Háskólabíó en stofnendur hefðu verið 1.000 einstaklingar og félagasamtök.