Þá hefur heimsmeistarinn Bobby Fischer verið lagður til hinztu hvílu í íslenzka mold. Víkverji á eins og aðrir Íslendingar, sem upplifðu heimsmeistaraeinvígið í Laugardalshöll, Fischer mikið að þakka og vill geta þess hér við leiðarlok.

Þá hefur heimsmeistarinn Bobby Fischer verið lagður til hinztu hvílu í íslenzka mold. Víkverji á eins og aðrir Íslendingar, sem upplifðu heimsmeistaraeinvígið í Laugardalshöll, Fischer mikið að þakka og vill geta þess hér við leiðarlok. Endatafl þessa snillings var með hans hætti og kom í veg fyrir ys og þys út af jarðarför hans, sem Víkverji fékk satt að segja fyrir brjóstið af, þegar menn voru farnir að ræða um þjóðargrafreitinn á Þingvöllum sem lokin á langri og skrautlegri lífsferð Bobbys Fischers. En eins og vænta mátti var hann búinn að sjá bezta leikinn í stöðunni og hvílir nú þar sem hann hafði eignazt vini í varpa. Nú getum við sýnt minningu hans þann sóma sem hann á skilinn.

Meðal þess sem nýr velgerðarsjóður, Aurora, veitti fé til er Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit. Styrkurinn er veittur til þess að koma upp fullkominni sýningaraðstöðu með tilheyrandi búnaði í nýbyggingu safnsins á Ytri-Neslöndum í Mývatnssveit. Sigurgeir Stefánsson var mikill áhuga- og eljumaður í fugla- og eggjasöfnun. Þótt safnaðstaðan væri ekki beysin, aðeins lítill skúr, var Sigurgeir stórhuga og tókst á skammri ævi að safna yfir 300 fuglum af langt í 200 tegundum og 100 tegundum eggja. Það hefur verið ævintýri líkast að koma í skúrinn og skoða fuglasafnið, en nú sér til þess að nýtt og fullkomið safnahús rísi; verðug umgjörð um söfnunarstarf Sigurgeirs Stefánssonar. Víkverji hlakkar til þess að skoða safnið í nýjum húsakynnum á bökkum Mývatns.

Þakkargjörð Vestmannaeyinga út af Heimaeyjargosinu fyrir 35 árum rifjaði upp fyrir Víkverja að hann kom til Vestmannaeyja meðan gosið stóð og kynntist þá aldeilis stórkostlegri staðfestu og hugrekki þeirra manna sem börðust þar við náttúruöflin. Ógleymanleg reynsla það!