Breytingar Á góðri stund í Jökulsárveitugöngum fyrir jól.
Breytingar Á góðri stund í Jökulsárveitugöngum fyrir jól. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is LANDSVIRKJUN mun yfirtaka samninga Arnarfells ehf. vegna framkvæmda við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar austan Snæfells. Arnarfell hefur átt í verulegum fjárhagserfiðleikum og gat m.a.

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

LANDSVIRKJUN mun yfirtaka samninga Arnarfells ehf. vegna framkvæmda við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar austan Snæfells. Arnarfell hefur átt í verulegum fjárhagserfiðleikum og gat m.a. ekki greitt starfsmönnum laun vegna desembermánaðar nema með ábyrgð frá Landsvirkjun.

Í fréttatilkynningu sem Landsvirkjun sendi frá sér í gær kemur fram að verktakafyrirtækið, sem unnið hefur að gerð veitu Jökulsár í Fljótsdal og minni vatnsfalla þar austur af á svonefndum Hraunum samkvæmt fjórum verksamningum, muni nú hverfa frá verkinu. Samningsupphæð við Arnarfell nemur um 6 milljörðum króna utan virðisaukaskatts. Tveimur þriðju hluta verksins er þegar lokið.

„Yfirtaka Landsvirkjunar á samningum Arnarfells þýðir að við gerumst sjálfir verktakar í bili og bjóðum því fólki sem starfaði fyrir Arnarfell að framkvæmdinni vinnu hjá okkur“ segir Sigurður Arnalds hjá Landsvirkjun. „Einnig yfirtökum við fleiri samninga eins og varðandi tækjaleigu, þannig að verkið geti haldið áfram. Til að byrja með munum við því reka verkið sjálfir og síðan leita til einhverra verktaka um að draga okkur að landi. Verkið í heild á ekki að tefjast svo neinu nemur.“ Sigurður segir að byrjað sé að ræða við aðra verktaka og leitað verði verðhugmynda hjá fleiri en einum. Einkum hafi Landsvirkjun í huga þau verktakafyrirtæki sem komið hafa að framkvæmdum við virkjunina og er Impregilo þar ekki undanskilið. Ekki verði farið í formleg útboð heldur farin samningaleið.

Þeim erlendu starfsmönnum Arnarfells sem unnu neðanjarðarvinnu við Hraunaveitu verður líklega boðin vinna áfram.

„Það eru okkur veruleg vonbrigði að Arnarfell skuli þurfa að hverfa frá verkinu. Fyrirtækið hefur staðið sig vel í þeim verkum sem það hefur unnið í Kárahnjúkavirkjun og í fyrri virkjunum. Með því að við yfirtökum samningana nú eru yfirmenn Arnarfells fyrst og fremst að hugsa um að þeirra starfsfólk haldi áfram vinnu. Það er beggja hagur að þessi yfirtaka gangi sem mjúklegast fyrir sig,“ segir Sigurður.

Hann telur óljóst hvenær farið verði af stað af fullum krafti á svæðinu, það taki væntanlega einhvern tíma að ganga frá pappírsmálum og fleiru. Einnig sé eftir að greiða Arnarfelli þá vinnu sem þegar hefur verið innt af hendi.