<strong>Nakin mótmæli </strong>Ungar konur stilla sér upp við verslun Burberry í Tókýó og mótmæla loðfeldum.
Nakin mótmæli Ungar konur stilla sér upp við verslun Burberry í Tókýó og mótmæla loðfeldum. — AFP/Nordic Photos
Æ fleiri tískuhönnuðir kjósa að sniðganga ekta loðfeldi í hönnun sinni og nota þess í stað gerviloðfeldi eða sleppa öllum loðfeldum.

Æ fleiri tískuhönnuðir kjósa að sniðganga ekta loðfeldi í hönnun sinni og nota þess í stað gerviloðfeldi eða sleppa öllum loðfeldum. Þetta gera þeir vegna vaxandi andstöðu um allan heim við loðdýraræktun, en víða hefur sýnt sig að dýr, sem ræktuð eru í því skyni að nota feldina á þeim í flíkur og fylgihluti, sæta illri meðferð og eru á stundum aflífuð á ómannúðlegan hátt. Algengast er að notaðir séu feldir af minkum, refum og kanínum en einnig hafa komið upp tilfelli þar sem bjarnar-, kattar- og hundafeldir hafa verið notaðir til þess arna.

Dæmi um merki sem hafa tekið ákvörðun um að hætta allri notkun á loðfeldum eru Ralph Lauren, Tommy Hilfiger, Stella McCartney, American Eagle og Marc Bouwer ásamt fleirum. En það eru ekki bara hönnuðir sem sniðganga loðfeldi heldur einnig fyrirsætur á borð við Tyru Banks, leikarar á borð við Christinu Ricci, Leonardo DiCaprio, Natalie Portman, Jennifer Garner og Charlize Theron, tónlistarmenn eins og Missy Elliott, Pink, Tommy Lee og Avril Lavigne og partíljón á borð við Paris Hilton, Lindsay Lohan og Beckham-hjónin.

Umhverfis- og dýraverndunarsamtök hafa löngum haft horn í síðu loðdýraræktenda og tískuhönnuða sem nota loðfeldi í sinni framleiðslu og staðið fyrir mótmælum gegn þeim. Alþjóðlegu dýraverndunarsamtökin PETA fara þar fremst í flokki og hafa liðsmenn þeirra staðið fyrir fjölmörgum mótmælum víða um heim undir slagorðinu: „We'd rather go naked than wear fur“ eða „Við myndum frekar vera nakin en klæðast loðfeldum“ og eins og slagorðið gefur til kynna klæðist fólk jafnan adams- og evuklæðunum við slík mótmæli.