Sigurður B. Guðbrandsson fæddist á Smiðjuhóli í Álftaneshreppi á Mýrum 3. ágúst 1923. Hann lést á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi þriðjudaginn 15. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Guðbrandur Tómasson verkamaður, f. 23. júlí 1893, d. 1980 og Sigþrúður Sigurðardóttir húsmóðir, f. 12. maí 1896, d. 1953. Systkini Sigurðar eru Hjörtur Ragnar, f. 1921, d. 1965, Sigríður, f. 1926, d. 1998, Þorkell Gísli, f. 1928, Sigursteinn, f. 1929 og Tómas Birgir, f. 1931.

Sigurður kvæntist 15. maí 1948 Helgu Þorkelsdóttur, f. í Reykjavík 24. desember 1923, d. 7. október 2003. Foreldrar hennar voru hjónin Þorkell Helgason, f. 10. desember 1900, d. 1986 og Ástríður Ingibjörg Björnsdóttir, f. 10. janúar 1902, d. 1951. Dætur Sigurðar og Helgu eru: 1) Ásta, f. 11. febrúar 1949, gift Halldóri Brynjúlfssyni, f. 20. júní 1943, d. 18. október 2007. Synir þeirra eru Sigurður, f. 1970 og Brynjúlfur, f. 1974. 2) Sigþrúður, f. 9. október 1952, var gift Jóhannesi Gunnarssyni, f. 3. október 1949. Börn þeirra eru Erla Helga, f. 1971, Gunnar, f. 1977 og Elín Eir, f. 1979. 3) Sigríður Helga, f. 29. október 1957. Barnabarnabörn Sigurðar og Helgu eru ellefu.

Sigurður ólst upp við almenn sveitastörf hjá foreldrum og frændfólki á Mýrum. Að loknu barna- og unglinganámi lærði Sigurður skósmíðaiðn við Iðnskóla Akraness. Á yngri árum stundaði Sigurður ýmis störf eins og bifreiðaakstur og sjómennsku. Sigurður starfaði hjá Bifreiða- og trésmiðju Borgarness frá árinu 1947, en árið 1973 hóf hann starf sem sölumaður fóðurvörudeildar Kaupfélags Borgfirðinga og síðan sem skrifstofumaður á Bifreiðastöð KB til starfsaldursloka.

Sigurður sinnti mörgum félagsmálastörfum og sat í stjórnum fjölmargra félaga. Hann sat í stjórn Ungmennafélags Skallagríms, Ungmennasambands Borgarfjarðar, Verkalýðsfélags Borgarness, Sögufélags Borgarfjarðar og Félags eldri borgara. Einnig sat hann í stjórn Starfsmannafélags Kaupfélags Borgfirðinga og var fulltrúi starfsmanna í stjórn kaupfélagsins í fjögur ár. Sigurður tók virkan þátt í starfi Alþýðubandalagsins og sat í stjórn Alþýðubandalagsfélags Borgarness, kjördæmaráði Alþýðubandalagsins á Vesturlandi og var fulltrúi á fjölmörgum landsfundum Alþýðubandalagsins. Sigurður sat í yfirkjörstjórn Vesturlandskjördæmis um árabil.

Útför Sigurðar verður gerð frá Borgarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Þá er hann afi blessaður búinn að fá hvíldina. Ég trúi því að karlinn hafi verið hvíldinni feginn eftir erfið veikindi síðustu árin.

„Sæll nafni,“ þannig heilsaði afi mér alltaf. Sæll frændi bætti hann við ef Binni bróðir var með mér á ferð. Afi var þannig maður að hann vildi allt fyrir alla gera. Honum var mikið í mun að allir væru glaðir og sáttir. Því fór oft svo þegar ala þurfti barnabörnin upp, jafnvel með smá skömmum, að afi sansaði málin, sleikti úr okkur fýluna. Bauð svo upp á bíltúr og ís. Afi hugsaði ekki bara vel um börnin, hann hugsaði vel um alla. Mér er til efs að margir karlmenn af hans kynslóð hafi hugsað jafn vel um heimili og fjölskyldu eins og hann gerði í mörg ár. Þegar veikindi ömmu ágerðust þá sinnti afi heimilishaldi eins og herforingi. Hann eldaði mat og þreif af þeirri natni sem einkenndi hann og öll hans störf. Ekki þarf að minnast á þvottahúsið, þar var röð og regla og þvotturinn alltaf hreinn. Afi var talnaglöggur með afbrigðum. Símanúmer, viðskiptanúmer og kennitölur viðskiptamanna KB mundi hann flest og þurfti sjaldan að fletta þeim upp nema til að fullvissa sig um að rétt væri.

Minningar um ótal bíltúra hrannast upp í kollinum núna þegar ég hugsa um þær góðu stundir sem ég átti með afa. Mýrahringir ótal margir, með viðkomu á Vogalæk, Brúarlandi, Akrafjöru og víðar. Oftar en ekki var nesti með og borðað á fallegum stað. Og þeir eru margir vestur á Mýrum eins og allir vita. Nýr lax var með því betra sem afi vissi til matar. Þegar von var á gestum var oftar en ekki keyptur lax á Bóndhól eða öðrum bæjum sem stunduðu laxveiði í sjó.

Ekki stóð á afa ef hann gat hjálpað barnabörnunum á einhvern hátt. Eftir að ég fékk bílpróf var afi alltaf fús að lána mér bílinn sinn. Áður en prófinu var náð var hann líka lipur að snúast með mig ef eitthvað var. Bækur átti hann margar um hugðarefni sín og lánaði bókaorminum nafna sínum allar sínar bækur ef óskað var eftir. Hirðusemin var engu lík og undir súð voru kassar og staflar af blöðum og tímaritum sem mátti laumast í ef gengið var vel um. Það var gaman.

Hafsjór af fróðleik var afi á flestum sviðum og miðlaði þeim sem leituðu eftir því af sinni natni og þolinmæði. Sérstaklega var hann ættfróður og get ég þakkað honum það sem ég veit um áa mína og uppruna. Afi naut þess að ferðast bæði innanlands og utan. Naut ég góðs af því og fór með í þó nokkrar ferðir. Þó held ég að Binni bróðir hafi farið með í enn fleiri. Það var sama hvert farið var alltaf gat afi frætt okkur um umhverfið og söguna. Af því lærðum við mikið. Afi var félagslyndur og virkur í ýmsu félagsstarfi, svo sem Alþýðubandalaginu, Verkalýðsfélagi Borgarness, Starfsmannafélagi KB og fleiri mætti nefna. Voru margar af áður nefndum ferðum á vegum þessara félaga.

Ég kveð elsku afa minn hinsta sinni. Sorgin er ljúfsár. Margs er að minnast og minningarnar um góðan afa ylja sálinni. Ég þakka guði fyrir að veita lúnum líkama hvíld og að taka til sín mikla og góða sál.

Sigurður Halldórsson.

Elsku hjartans afi. Ég vil þakka þér samfylgdina og fyrir alla þá hlýju og væntumþykju sem þú umvafðir mig alla tíð. Mér er það efst í huga hversu oft þú sagðist vera stoltur af mér, en það hefur verið mér hvatning í lífinu og ómetanlegur stuðningur. Það voru forréttindi að eiga þig og ömmu að og ég sakna ykkar sárt. Ykkar heimili var ætíð mitt og nú er það mitt hlutverk að passa vel upp á Borgarbraut 43. Það ætla ég mér svo sannarlega að gera.

Blessuð sé minning þín elsku afi, hafðu þökk fyrir allt.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Úr vísum Skáld-Rósu)

Þín

Erla Helga.

Leiðir okkar Sigurðar lágu löngum saman gegnum tíðina, sérlega á yngri árum og aftur á fullorðinsárum. Við áttum báðir heima í Borgarnesi á kreppuárunum 1930–1940, og það má segja að fyrstu minningar hafi verið tengdar því tímabili sem var mjög harðsótt hjá alþýðufólki. Eg hygg að foreldrar Sigurðar hafi flutt í Borgarnes á því tímabili meðan hreppsyfirvöld reru öllum árum að því að koma fátæku barnafólki burtu úr sveitarfélaginu. Mér er ekki kunnugt um að sveitarfélagið hafi þurft á nokkurn hátt að styrkja þetta fólk sem sýndi ótrúlega þrautseigju við langvarandi veikindi móður Sigurðar, sem eg veit að hann saknaði mjög þegar hún lést. Á þessu tímabili hafði fólkið kýr og kindur og jafnvel hross og heyjaði handa þeim, á ýmsum jörðum hér í nágrenni Borgarnes, frá Kárastöðum, Hamri og að Hvítárvöllum, stundum í hjáverkum, því vinnu sem að bauðst að sumrinu var trauðla hægt að hafna. Á þessum árum voru gripahús við hvert hús í Borgarnesi, allir háir og lágir höfðu drjúga hjálp af þeim arði sem kom af búfénu og má segja að þessi búskapur hafi skipt sköpum um afkomu þeirra tíma. Kaupmenn og embættismenn höfðu að vísu vinnufólk til að annast bústörfin og þetta tíðkaðist allt fram á „blessuð stríðsárin“ eins og einhver sagði en þá fyrst fór alþýða manna að sjá peninga með „Bretavinnunni“.

Sigurður fann snemma hve harðsótt var lífið hjá alþýðu manna og tók því fljótlega stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar, til að berjast fyrir bættu kaupi og kjörum, svo og tryggingamálum. Hann varð mjög virkur í Verkalýðsfélagi Borgarness og ritari þess um árabil. Og þar með taldi hann og þeir yngri menn sem með honum voru sig hafa talsvert að sækja af reynslu til föður míns Olgeirs Friðfinnssonar sem var einn af stofnendum félagsins 1931 og virkur í starfi fram um 1980. Af honum lærðum við að ef alþýða manna er ekki tilbúin að halda uppi baráttu fyrir sínum kjörum þá gera það ekki aðrir.

Það voru oft ljósir punktar í tilverunni þegar við vorum ungir menn, mér er ofarlega í minni bjartur Alþingiskosningadagur kringum sumarsólstöður 1946. Sigurður átti þá vörubíl með Finnboga Guðlaugssyni, um kvöldið að kosningum loknum fórum við í þessum bíl upp í Hvítárvallaskála að hitta stúlkurnar þar. Á leiðinni upp Borgarhreppinn söng Alfreð Andrésson leikari í Útvarpinu á sinn einstaka hátt braginn um „MMM listann sem af öllum vorum framboðslistum ber“. Í Skálanum var þá meðal annarra stúlkna Helga sem varð tveimur árum seinna kona Sigurðar og fleiri stúlkur voru þarna einnig. Það var oft glatt á hjalla og mikið gert að gamni sínu í Skálanum við Hvítárbrú í þá gömlu og góðu daga.

Ég, kona mín og fjölskylda þökkum Sigurði og Helgu og þeirra fólki góð kynni á liðnum árum. Guð blessi minningu þeirra.

Ragnar Sveinn Olgeirsson.

Lífið er okkur öllum dýrmæt eign, en dauðinn getur einnig orðið kærkomin gjöf þegar sjúkleiki og hrörnun líkamans dæma fólk úr lífsins starfi og leik.

Það var mín fyrsta hugsun þegar ég frétti andlát vinar míns og samstarfsmanns til margra ára, Sigurðar B. Guðbrandssonar, sem lengi hafði búið við erfiða vanheilsu.

Leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir meira en hálfri öld, þegar við sátum í stjórn Ungmennasambands Borgarfjarðar. Verkefni voru margþætt og tímafrek en til starfa var ekki mörgum að dreifa öðrum en fimm stjórnarmönnum sem urðu að sinna þeim í tómstundum frá dagsins önn. Því reyndi á þrek þeirra og fórnfýsi. Þá var gott að hafa Sigurð í hópnum glaðan og reifan, verkfúsan, glöggan og úrræðagóðan í hverjum vanda.

Þetta verkefni tók enda en við deildum upp frá því vinarhug er fundum bar saman. Sigurður kom að félagsstarfi víðar; í Verkalýðsfélagi Borgarness, Starfsmannafélagi K.B, fulltrúi starfsmanna í stjórn Kaupfélagsins, hjá Alþýðubandalaginu í héraði og kjördæmi og Félagi eldri borgara. Alls staðar reyndist hann þarfur þegn, virkur og virtur samverkamaður.

Aftur mættumst við í stjórn Sögufélags Borgarfjarðar. Enn sýndi hann sama áhuga og dug og vann félaginu hið besta gagn við dreifingu bóka og annað er að hinu ytra starfi laut. En þarna naut sín annar þáttur áhugasviðs hans, hin mikla þekking á ættfræði og persónusögu héraðsins. Hann var fróður og hollur ráðgjafi þeirra er æviskrárnar rituðu, las handrit og kom á framfæri leiðréttingum og ítarlegri upplýsingum, að verkið yrði sem best úr garði gert. Áhugi hans á framgangi félagsins var sívakandi. Allt sem hann lagði til mála bar þess vott og eftir að veikindi hölluðu honum leik fylgdist hann með og gladdist þegar vel miðaði.

Fyrir það á félagið honum mikla þökk að gjalda sem er komið á framfæri með þessum orðum.

Enn áttum við samleið, í „söguklúbbnum“, sem hér starfaði nokkur ár.

Sigurður var minnugur, fróður um marga hluti og kunni vel að segja frá. Frásagnarmáti hans var hófstilltur og skýr, en stundum varð þess vart að réttlætiskennd hans og samúð með þeim er minna mega ydduðu dálítinn brodd á frásögnina. Gat hún þá stungið svo að undan sveið.

Sigurður B. Guðbrandsson var vakandi og einlægur umbótamaður, trúði á hugsjón mannúðar og réttlætis í samskiptum manna og þjóða og lagði í lífi sínu jafnan lóð á vogarskálar til liðsinnis þeim er höllum fæti standa og hins þögula fjölda sem allt of oft vill gleymast. Hann var ætíð hlýr og alúðlegur í viðmóti, glaður viðræðu og hafði mörgu að miðla, enda fjölfróður. Ég á góðar minningar um ánægjulegar stundir og notalegt samstarf sem ég þakka af heilum hug.

Með honum er genginn góður drengur sem margir mega sakna.

Í eigin nafni og stjórnar Sögufélagsins sendi ég dætrum hans og afkomendum öllum einlægar samúðarkveðjur og bið honum og minningu hans blessunar.

Snorri Þorsteinsson.

Þær eru margar minningarnar sem koma upp í hugann við andlát Sigurðar B. Guðbrandssonar.

Kynnin hófust eftir að Halldór bróðir giftist Ástu dóttur hans. Upp úr því áttu foreldrar mínir og við systkinin margar samverustundir með Sigga og Helgu konu hans. Vinátta þeirra hjóna og tryggð við foreldra mína, og ekki síst móður mína eftir andlát pabba, er mér þakklátlega minnisverð. Siggi Brands var vel gerður maður í flesta staði. Skarpgreindur og stálminnugur, víðlesinn og vel heima í mörgum málefnum og ljúfmenni hið mesta. Hann var vinnufús, verkhygginn og verklaginn og einstakt snyrtimenni, hvort heldur var á vinnustað eða á heimili. Siggi var mjög hjálpfús, og í heimsóknum þeirra Helgu að Brúarlandi tók hann oft þátt í ýmsum verkum, einkum þeim er lutu að fegrun og bættri ásýnd staðarins. Oft greip hann til orfsins og sló garðinn fyrir mömmu og eitt sumarið tók hann þátt í að mála nær öll hús á bænum að utan. Mér er minnisstætt eitt sinn er hann var að mála að hann gerði sér tíðförult að bíl sínum og virtist eiga eitthvert erindi í skottið. Mamma og Helga veittu þessu athygli og veltu fyrir sér hvað hann væri að bauka. Það kom svo í ljós er á daginn leið, er kaupstaðarlykt fór að finnast af karli. En það var eins með Sigga þegar hann bragðaði vín að hann var sama prúðmennið og í annan tíma.

Margar voru samverustundirnar sem við á Brúarlandi minnumst með gleði og þökk í huga. Í mörg ár þáðum við heimboð af Ástu og Dóra á gamlárskvöld. Þar voru Siggi og Helga að sjálfsögðu og margt var rætt og ígrundað, allt frá ættfræði til innlendra stjórnmála og heimspólitíkur og gott ef ekki var á stundum glímt við sjálfa lífsgátuna. Eitt af uppáhalds umræðuefnum Sigga og móður minnar var ættfræði. Þegar kom að ættum Mýramanna var Siggi hreint eins og alfræðiorðabók.

Einn af eðliskostum Sigga kom vel í ljós í langvarandi veikindum konu hans, sem voru þess eðlis að hún þarfnaðist mikillar aðstoðar í daglegu lífi. Siggi annaðist hana af kærleiksríkri umhyggju og nærgætni, svo eftir var tekið.

Siggi lagði gjörva hönd á margt á langri ævi. Hann tók þátt í margvíslegu félagsstarfi og hvarvetna þar sem hann lagði hönd á plóg í félagsmálum var hann valinn í framvarðarsveit. Við áttum samleið í pólitízku starfi innan Alþýðubandalagsins og síðar Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Mér er sérlega minnisstæður seinasti landsfundurinn sem við sátum, en þá var kosið á milli Steingríms Joð og Margrétar Frímanns í formannssæti flokksins. Þá greindi okkur á, sem ekki kom oft fyrir í pólitízku samstarfi okkar, en Siggi studdi Margréti, en ég Steingrím. Síðar þegar Alþýðubandalagið klofnaði í tvær fylkingar og önnur fylgdi Margréti inn í Samfylkinguna en hin Steingrími inn í VG, þá átti Siggi Brands allbágt eins og við fleiri. Þarna skildi pólitízkar leiðir fjölmargra samherja eftir áratuga samstarf og það er ekki sársaukalaust. En Sigurður gerði upp hug sinn og gekk til liðs við VG. Það kann að hafa haft einhver áhrif að Halldór tengdasonur hans fór í framboð fyrir VG til Alþingis. Ég er þó frekar á því að hann hafi borið saman stefnur og áherzlur flokkanna og á þeim grunni gert upp hug sinn.

Seinustu æviár Sigga voru honum erfið og hann dó saddur lífdaga og ég þykist vita að vistaskiptin voru honum kærkomin.

Við leiðarlok vil ég og fjölskylda mín votta dætrum hans og öðrum afkomendum og venslafólki innilega samúð okkar. Við minnumst Sigurðar B. Guðbrandssonar með virðingu og þökk.

Guðbrandur Brynjúlfsson.