Morrissey Var hinn hógværasti þegar hvert nýtt lag var leikið og afsakaði sig heil ósköp.
Morrissey Var hinn hógværasti þegar hvert nýtt lag var leikið og afsakaði sig heil ósköp. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
There's a club if you'd like to go you could meet somebody who really loves you so you go, and you stand on your own and you leave on your own and you go home, and you cry and you want to die. Morrissey hóf leikinn á laginu „How Soon is Now?

There's a club if you'd like to go

you could meet somebody who really loves you

so you go, and you stand on your own

and you leave on your own

and you go home, and you cry

and you want to die.

Morrissey hóf leikinn á laginu „How Soon is Now?“ sem inniheldur eina dapurlegustu dæmisögu dægurtónlistarsögunnar. Umræddur leikur fór fram í Roundhouse-tónleikastaðnum í London síðastliðið mánudagskvöld og voru fyrstu tónleikar Morrissey af sex á þessum sögufræga stað þar sem Patti Smith og The Ramones stigu sín fyrstu skref í tónleikahaldi í Bretlandi. Tilefnið er væntanleg plata Morrissey sem er áætlað að komi út með haustinu.

Mikil eftirvænting var meðal viðstaddra áður en Morrissey steig á svið, enda hefur hann ekki haldið tónleika hér í landi síðan 2006 þegar talsvert færri komust að en vildu á tónleikaröð hans vegna útgáfu Ringleader of the Tormentors . Morrissey hélt einmitt tónleika í Laugardalshöllinni af sama tilefni.

En eftirvæntingin lá í loftinu, meira að segja áður en inn á tónleikastaðinn kom. Fjöldi fólks hafði dreift sér um svæðið í kring og bauðst til að kaupa miða á tónleikana. Einn félaginn sagðist „til í að gera hvað sem er í heiminum“ fengi hann miða á tónleikana.

Upphitunarsveitin hét Girl in a Coma. Það er ekki ólíklegt að sveitin hafi orðið fyrir valinu vegna nafngiftarinnar á sveitinni en lagið „Girlfriend in a Coma“ er sem kunnugt er gamalt Smiths-lag.

Morrissey er smekkmaður. Þegar tjaldið féll blasti við hljómsveit í stíl, allir íklæddir gallaskyrtum og yfir öllu trónaði Richard Burton en þrjár flennistórar myndir af leikaranum römmuðu inn sviðið.

Þegar Morrissey kynnti hljómsveitina til leiks gall við í einum grínara í námunda við mig „Bíddu er Johnny Marr ekki með í þetta sinn?“ en sé að marka sögur af ósætti þeirra fyrrum Smiths-liða telst harla ósennilegt að Marr hefði tekið í gítarinn í þessum félagsskap.

Tónleikarnir hófust sem fyrr sagði á gamla Smiths-slagaranum og Morrissey fór um víðan völl í kjölfarið. Hann lék nokkur lög af komandi plötu, „That's How People Grow Up“, „Mama Lay Softly on the Riverbed“, „All You Need is Me“ og „Something is Squeezing My Skull“. Hann var hinn hógværasti þegar hvert nýtt lag var leikið og afsakaði sig heil ósköp. Lögin voru góð, mjög í anda Morrissey og textarnir tragikómískir að vanda. Hörmungar í heiminum bornar saman við blæðandi hjartasár, allt eins og það á að vera.

Það var gaman að fylgjast með Morrissey á tónleikunum, hann var greinilega á heimaslóðum. Viðstaddir voru líka með á nótunum, sungu hástöfum með hverju lagi...nema kannski þessum nýju. Ungur maður sem stóð við hliðina á mér dansaði og söng af svo mikilli innlifun við „Life is a Pigsty“ að ég var viss um hann hefði sjálfur persónulega reynslu af því að lifa í svínastíu.

Þá er bara að bíða til haustsins eftir plötunni nýju. Það verður sú fyrsta sem Morrissey gefur út hjá Warner Music-útgáfunni eftir að hafa sagt upp samningi sínum við Sanctuary Records. Smáforskot á sæluna eru smáskífur af plötunni sem koma mun út á næstunni. Sú fyrsta, „That's How People Grow Up,“ kemur út hinn 4. febrúar næstkomandi. Hinn 11. sama mánaðar kemur svo út safnplata með ellefu lögum, níu gömlum og tveimur nýjum.

Birta Björnsdóttir (birta@mbl.is)

Höf.: Birta Björnsdóttir (birta@mbl.is)