Sigríður Sigurðardóttir fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 10. janúar 1968 en ólst upp á Fáskrúðsfirði. Hún lést á heimili sínu, Lindarbæ í Ölfusi, 14. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Sigurður Kristinsson, f. 18.1. 1916, d. 5.4. 2004, og Anna B. Stefánsdóttir, f. 23.3. 1939. Bróðir Sigríðar er Víðir, f. 14.8. 1960, maki Hlín Baldursdóttir, f. 27.1. 1962. Börn þeirra eru: Brynjar, f. 8.11. 1984, sambýliskona Kristín Erla Guðnadóttir, f. 11.11. 1982, dóttir Kristínar er Magnea Mjöll, f. 2.4. 2005, Sigurður, f. 9.4. 1987, og Berglind Anna, f. 3.6. 1992.

Sigríður giftist 18.5. 1991 Jónasi Vigni Grétarssyni garðyrkjufræðingi í Reykjavík, f. 25.9. 1968. Foreldrar hans eru Grétar Guðmundur Óskarsson, f. 16.10. 1938, og Guðrún Jakobína Jónasdóttir, f. 20.4. 1949, búsett í Reykjavík. Bróðir Jónasar er Óskar Már, f. 10.6. 1981, sambýliskona hans er Anna Dögg Rúnarsdóttir, f. 27.9. 1982. Börn Sigríðar og Jónasar eru Jón Grétar, f. 16.2. 1991, Katrín Ösp, f. 15.6. 1992, Sædís Ýr, f. 5.5. 1997, og Jakobína Björk, f. 25.7. 2006.

Sigríður bjó fyrst með fjölskyldu sinni á Hafranesi við Reyðarfjörð en flutti með henni fimm mánaða gömul til Fáskrúðsfjarðar. Þar stundaði hún nám við Grunnskólann á Búðum og hóf 10 ára að vinna við afgreiðslustörf í verslun sem foreldrar hennar ráku og vann þar öll sumur fram að tvítugu. Hún stundaði síðan nám við Fjölbrautaskólann í Ármúla í Reykjavík, og nám í skrifstofutækni hjá Nýherja. Hún vann einnig við afgreiðslustörf og á leikskóla í Reykjavík og ennfremur í fiskvinnu á Sauðárkróki eitt sumar. Hún var jafnframt dagmamma í Reykjavík um nokkurra ára skeið.

Sigríður og Jónas hófu sambúð í Reykjavík 1989, bjuggu í Hveragerði einn vetur, 1992-93, en fluttu aftur til Reykjavíkur. Síðan fluttu þau í Sólheima í Grímsnesi 1998. Þar vann Sigríður m.a. við rekstur skógræktarstöðvarinnar Ölurs ásamt Jónasi og einnig á leikskóla staðarins. Hún vann síðan á ýmsum vinnustofum fatlaðra á Sólheimum og var lengst af verkstjóri á vefstofu. Hún stundaði fjarnám í margmiðlunarhönnun við Borgarholtsskóla í Reykjavík og hafði lokið fjórum önnum af sex þegar hún veiktist. Fjölskyldan flutti í Lindarbæ í Ölfusi í septemberbyrjun 2007.

Sigríður tók virkan þátt í félagsstarfi á Sólheimum og vann mikið fyrir leikfélagið á staðnum, ásamt því að taka sjálf þátt í mörgum sýningum þess. Hún lék m.a. stór hlutverk í uppfærslum þess á Jesus Christ Superstar og Hárinu og lék Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur, stofnanda Sólheima, í leikritinu Í meðbyr og mótbyr, undir stjórn Eddu Björgvinsdóttur. Hún tók einnnig þátt í foreldrastarfi fimleikadeildar UMF Selfoss.

Sigríður verður jarðsungin frá Selfosskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Nú ert þú farin, ástin mín. Við áttum alltof stuttan tíma saman. Ég vil trúa því að þú vakir yfir okkur eins og þú sagðir sjálf, brosandi, við mig að þú myndir gera, stuttu fyrir andlát þitt. Þú misstir aldrei trúna á því að þú myndir sigrast á krabbameininu, þessum illvíga og lævísa sjúkdómi sem fer ekki í manngreinarálit.

Minningarnar um þig streyma fram í hugann, söknuðurinn er sár. Þú varst minn besti vinur og ráðgjafi, þú munt lifa í hjarta mínu um ókomna tíð.

Þinn elskandi eiginmaður

Jónas Vignir Grétarsson.

Elsku dóttir mín.

Nú ertu leidd, mín ljúfa,

lystigarð Drottins í,

þar áttu hvíld að hafa

hörmunga og rauna frí,

við Guð þú mátt nú mæla,

miklu fegri en sól

unan og eilíf sæla

er þín hjá lambsins stól.

Dóttir, í dýrðar hendi

Drottins, mín, sofðu vært,

hann, sem þér huggun sendi,

hann elskar þig svo kært.

Þú lifðir góðum Guði,

í Guði sofnaðir þú,

í eilífum andarfriði

ætíð sæl lifðu nú.

(Hallgrímur Pétursson)

Við burtför þína er sorgin sár.

Af söknuði hjörtun blæða.

En horft skal í gegnum tregatár

í tilbeiðslu á Drottin hæða.

Og fela honum um æviár

undina dýpstu að græða.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Far þú í friði. Friður Guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Mamma.

Kveðja frá tengdaforeldrum.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Guðrún og Grétar.

Hún litla systir mín er dáin. Horfin á braut, langt fyrir aldur fram, frá eiginmanni og fjórum börnum á aldrinum eins til sextán ára. Enn eitt fórnarlamb vágestsins mikla, krabbameinsins, sem stingur sér niður þar sem minnst varir og hrífur á brott fólk í blóma lífsins.

Hún Sigga var ekki há í loftinu þegar ljóst varð að hún vissi hvað hún vildi. Ákveðin og kraftmikil en jafnframt vinmörg og vinsæl, og það var stöðugt eitthvað í gangi. Allt þorpið á Fáskrúðsfirði, milli fjalls og fjöru, var hennar leikvöllur og það kom fyrir að leita þurfti að henni og félögunum þegar þau höfðu gleymt sér í einhverjum rannsóknarleiðangrinum. Á barnsárunum eignaðist hún vini fyrir lífstíð og það kom best í ljós í veikindunum hve góða hún átti að úr þeim hópi.

Átta ár skildu okkur systkinin að og því var ákveðin fjarlægð á milli okkar, ekki síst þar sem ég var langdvölum að heiman í námi þegar hún var að komast til vits og ára. En eftir að Sigga kom sjálf suður í skóla á unglingsárunum og tók síðan saman við hann Jónas sinn jafnaðist það smám saman út. Þau voru jafnan góðir félagar okkar Hlínar og samgangurinn mikill þótt hann yrði stopulli eftir að þau fluttu austur í Sólheima fyrir tíu árum.

Það var aldrei lognmolla í kringum hana systur mína. Sigga var baráttukona í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hvort sem það var fyrir hönd fjölskyldunnar, í leikhússtarfinu á Sólheimum, í margmiðlunarhönnuninni sem hún hóf nám í fyrir nokkrum árum og gekk svo ljómandi vel – hún tókst á við allt af bjartsýni og krafti. Setti undir sig hausinn þegar með þurfti, engar hindranir voru óyfirstíganlegar. Og af sömu ákefð og þrjósku réðst hún gegn krabbameininu sem hún greindist með vorið 2006, þá gengin fimm mánuði á leið með hana Jakobínu Björk. Bloggsíðan hennar magnaða segir þá sögu á ítarlegan hátt.

Þessi bjartsýni hennar og ákveðni í að vinna bug á meininu var smitandi því í mínum huga var aldrei annað á döfinni en að hún myndi ná sér. Allt þar til reiðarslagið dundi yfir nokkrum dögum fyrir jól þegar hún og fjölskyldan fengu fréttirnar sem enginn vill heyra. En jafnvel eftir það var engan bilbug á henni Siggu að finna. Hún var enn staðráðin í að sýna sérfræðingunum að þeir hefðu rangt fyrir sér, og að vissu leyti tókst henni það með því að eiga ótrúlega ánægjuleg jól og áramót með fjölskyldunni. Og enn frekar með því að halda veglega upp á fertugsafmælið sitt hinn 10. janúar. Þá sagði hún mér að óskalistinn sem hún samdi daginn sem slæmu tíðindin bárust væri enn ekki tæmdur, það væri verkum ólokið enn. Baráttuviljinn var sem sagt áfram til staðar en þá var hins vegar líkamlega þrekið að fjara út og fjórum dögum síðar sofnaði hún Sigga svefninum langa, í friðsæld og ró heima í Lindarbæ með alla fjölskylduna hjá sér. Í draumahúsinu sínu þar sem hún stjórnaði vel heppnaðri endurbyggingunni en fékk því miður ekki að njóta sjálf nema í nokkra mánuði.

Þau Sigga og Jónas voru ólík en samhent og náðu sérlega vel saman frá fyrstu stundu. Bættu hvort annað upp, eins og mágur minn orðaði það, og missir hans er meiri en orð fá lýst. Sem og barnanna þeirra fjögurra, þess yngsta aðeins 18 mánaða. Litla kraftaverksins, sem Sigga kallaði svo, en hafði alltof stutt kynni af móður sinni. Fleiri eiga um sárt að binda. Mamma sér á eftir sinni einu dóttur, barninu sem hún þurfti að hafa svo mikið fyrir að eignast á sínum tíma, og Jón föðurbróðir okkar ber til grafar kæra vinkonu sem á seinni árum endurgalt honum ríkulega hans dygga stuðning á æskuárunum.

En hún lifir áfram í minningu okkar allra og í börnunum sínum fjórum sem hafa gengið í gegnum erfiðan tíma á aðdáunarverðan hátt og þurfa svo sannarlega á hennar eiginleikum að halda í lífsbaráttunni. Við fjölskyldan vottum Jónasi, Jóni Grétari, Katrínu Ösp, Sædísi Ýri og Jakobínu Björk okkar dýpstu samúð.

Víðir Sigurðsson.

Ég kveð þig með söknuði, elsku Sigga mágkona, og þakka þér fyrir allar góðu stundirnar.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér.

Sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

(Hákon Aðalsteinsson)

Allar góðar vættir gefi Jónasi og börnunum ykkar styrk til að takast á við lífið án þín. Minning þín lifir.

Hlín Baldursdóttir.

Elsku Sigga frænka.

Þú varst alltaf svo hress, alltaf svo kát og glöð þegar við komum til ykkar og við fundum alltaf svo vel hve velkomin við vorum. Ég gleymi því aldrei hversu vel þú hugsaðir um mig og hjúkraðir mér þegar ég veiktist í einni heimsókninni til ykkar í Sólheima.

Það var líka alltaf sérstaklega skemmtilegt að fá þig og fjölskylduna í heimsókn, ekki síst þegar þið voruð hjá okkur á áramótum. Þá var svo sannarlega líf og fjör.

Nú ertu farin og ég sakna þín mikið. Elsku Jón Grétar, Katrín Ösp, Sædís Ýr, Jakobína Björk og Jónas, ykkur sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigga mín, takk fyrir allar ánægjustundirnar. Megir þú hvíla í friði.

Þín frænka

Berglind Anna Víðisdóttir.

Elsku Sigga.

Baráttunni er lokið en niðurstaðan er ekki sú sem við bjuggumst við. Það er erfitt að skilja það að þú sért farin frá okkur og sárt að vita til þess að við fáum aldrei að sjá þig framar. Þú ert sönn hetja og við sem eftir stöndum erum ríkari að hafa fengið að kynnast þér. Þú munt ávallt lifa í huga okkar og hjarta. Guð geymi þig vel og varðveiti fjölskyldu þína og hjálpi um ókomin ár.

Brynjar og Kristín Erla.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku Jón Grétar, Katrín, Sædís, Jakobína og Jónas. Innilegar samúðarkveðjur og megi minning Siggu lifa með ykkur alla tíð.

Sigurður Víðisson.

Þau ljós sem skærast lýsa,

þau ljós sem skína glaðast

þau bera mesta birtu

en brenna líka hraðast

og fyrr en okkur uggir

fer um þau harður bylur

er dauðans dómur fellur

og dóm þann enginn skilur.

En skinið loga skæra

sem skamma stund oss gladdi

það kveikti ást og yndi

með öllum sem það kvaddi.

Þótt burt úr heimi hörðum

nú hverfi ljósið bjarta

þá situr eftir ylur

í okkar mædda hjarta.

(Friðrik Guðni Þórleifsson)

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina vegna fráfalls Siggu.

Minning um góða frænku lifir.

Kolbrún, Hjalti, Haukur og Edda.

Vanmáttur er það sem ég finn til í öllum mínum beinum og öllum mínum orðum. Sigga okkar er farin en er þó í mínum huga sigurvegari. Hún hélt öllum sínum heilindum í gegnum veikindin öll. Hlæjandi og brosandi með gamalkunnan glampa í augunum. Alltaf jákvæð, æðrulaus og dugleg. Þakklát öllum.

Er ég minnist Siggu er af ótal minningum að taka. Morgunblaðið er á engan hátt nógu og þykkt til að greina frá þeim öllum. En Sigga var mjög skemmtileg. Sem börn skrifuðum við sögur og ljóð, teiknuðum dúkkulísur, smíðuðum fleka, stofnuðum hornsílafiskeldi, sungum og lékum Roy Rogers, rændum hreiður og villiköttum og átum brennt brimsaltað poppkorn. Já, það er svo sannarlega af mörgu að taka. En það sem stendur uppúr er hversu óeigingjörn Sigga var í öllum sínum gerðum og hversu góður vinur hún var. Hún tók af alhug þátt í lífi manns hvort sem það var í gleði eða sorg.

Sigga var afar heppin með fjölskyldu og á það bæði við um hennar fæðingarfjölskyldu og þá sem hún stofnaði síðar með eiginmanni sínum Jónasi. Hún var afar náin móður sinni alla daga lífs síns og stóðu hennar nánustu þétt saman í veikindum hennar. Börnin hennar voru hennar stolt og yndi, hvert öðru fallegra og hæfileikaríkara. Sigga hélt blogg síðasta árið, kom þá í ljós hversu frábær penni hún var. Hún deildi með okkur öllum af svo mikilli einlægni að við megum öll draga mikinn lærdóm af. Þegar við Sigga hittumst og heyrðumst var afar stutt í vitleysisgang og hlátur. Hún sendi mér t.d. sms frá sjúkrahúsinu þar sem hún dvaldi of oft síðasta árið, þar gerði hún stólpagrín að veikindum sínum og ástandi. Þá var lítið annað að gera en að brosa í gegnum tárin. Einnig hittumst við nokkrum sinnum á síðastliðnu ári þrátt fyrir að búa í sitt hvorum landshlutanum. Þá tíma svo og alla aðra sem ég hef eytt með Siggu þykir mér óendanlega vænt um og mun minnast þeirra um ókomna tíð.

Sigga var einstök manneskja sem verður sárt saknað. Það er því með tár í augum og trega í hjarta að ég kveð þessa góðu og heilsteyptu vinkonu mína. Ég bið algóðan Guð að styrkja hennar nánustu í þeirra sáru sorg og blessa minninguna um Siggu.

Ragna Kristinsdóttir

Það er einkennilegt, þetta líf. Nú, á dögum ótrúlegustu framfara í tækni og vísindum, stöndum við ráðþrota frammi fyrir örlögum ungrar konu í blóma lífsins.

Hugsanir þjóta um hugann og minningarnar streyma fram um góða vinkonu, aftur til æskuáranna þegar við ólumst upp á Fáskrúðsfirði í firðinum fagra.

Við lentum í ýmsum ævintýrum í þá daga og mikið var nú brallað. Sigga var þannig gerð að hún hló með mér á góðum degi og grét með mér á þeim slæma. Við urðum að unglingum og fluttum úr firðinum okkar og lá leiðin til Reykjavíkur í framhaldsskóla. Á þeim tíma bjuggum við saman og þá var nú oftar en ekki mikið fjör hjá okkur vinkonunum. Sigga var afar óeigingjörn og ekki var óalgengt þegar við fórum út vinkonurnar að við værum allar í fötum af henni. Þetta voru sannarlega góðir tímar. Seinna þegar ég hafði hafið sambúð með sambýlismanni mínum ákváðu hann og vinnufélagi hans Jónas að bjóða okkur vinkonunum í matarboð heim til foreldra Jónasar en þau voru að heiman þá helgi. Þetta var í fyrsta sinn sem Sigga og Jónas hittust og urðu þau óaðskiljanleg upp frá þessu. Þau hafa verið afar samstiga í sínu hjónabandi og hafa þeim auðnast fjögur dásamleg börn.

Sigga hafði þann hæfileika að koma auga á það jákvæða, jafnvel í hinum erfiðustu aðstæðum, sem kom henni vel í veikindum sínum. Hún smitaði jákvæðni og bjartsýni út frá sér og missti aldrei vonina þótt á móti blési. Það var ekki síður hún sem stappaði stálinu í fjölskyldu sína og vini en þeir í hana.

Minningin um Siggu er mér dýrmæt minning um einstaka, hæfileikaríka og góða konu sem elskaði lífið svo heitt og barðist af öllum mætti fyrir hverjum degi af hugrekki, bjartsýni og þrautseigju. Ég er og verð alltaf stolt af henni. Guð varðveiti elsku Siggu mína og blessi minninguna um hana.

Fjölskyldu hennar allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurrós Gísladóttir.

Mánudaginn 14. janúar bárust mér þær fréttir að hún Sigga væri dáin, hún sem var búin að berjast svo hetjulega við krabbameinið sem hún greindist með þegar hún gekk með litla kraftaverkið sitt, hana Jakobínu Björk. Tárin læddust niður kinnarnar og margar hugsanir komu upp í hugann. Mér fannst þetta mikið ranglæti að svona ung og góð kona væri hrifsuð frá okkur í blóma lífsins. Margar góðar minningar flugu um huga minn, t.d. hvað það var alltaf gott að koma heim til Siggu og Jónasar, alveg sama hvað langur tími leið milli þess að maður heyrði í henni eða hitti, það var alltaf eins og að koma heim. Að fylgjast með Siggu vinna við að endurbyggja Lindarbæ og heyra hana segja manni frá öllu sem átti að gera og var gert var alveg yndislegt, þarna var greinilega eitthvað sem átti hug hennar allan, enda útkoman glæsileg. Ég gæti talið upp svo ótalmargt sem við gerðum saman og alltaf var gleðin þar sem Sigga var, en orð eru svo fátækleg, en við höfum allar minningarnar, minninguna um glampann í augunum og fallega brosið. Ég mun alltaf minnast þess er ég hitti Siggu í seinasta skipti. Hún lá í rúminu sínu í Lindarbæ, ég lá og strauk á henni höndina og tár mín féllu á sængina, en hún brosti sínu fallega og smitandi brosi til mín og sagði svo falleg orð við mig. Að geta verið heima fram á seinasta dag var Siggu mikils virði, og yndislegt var að fylgjast með hvað allir önnuðust hana af mikilli alúð, hlýju og kærleik.

Hvíldu í friði elsku vinkona.

Elsku Jónas, Jón Grétar, Katrín Ösp, Sædís Ýr, Jakobína Björk, Anna, Jón, Gunna, Grétar, Óskar, Anna Dögg, Víðir og fjölskylda, mínar innilegustu samúðarkveðjur og guð styrki ykkur í sorg ykkar. En er frá líður og mesta sorgin dvín eigum við öll fallegar minningar um hana Siggu okkar.

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur

þá gleðin skín á vonarhýrri brá?

eins og á vori laufi skrýðist lundur

lifnar og glæðist hugarkætin þá;

og meðan þrúgna gullnu tárin glóa

og guðaveigar lífga sálaryl,

þá er það víst, að bestu blómin gróa

í brjóstum sem að geta fundið til.

Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi

því táradaggir falla stundum skjótt

og vinir berast burt á tímans straumi

og blómin fölna' á einni hélunótt –

því er oss best að forðast raup og reiði

og rjúfa hvörgi tryggð né vinarkoss;

en ef við sjáum sólskinsblett í heiði

að setjast allir þar og gleðja oss.

(Jónas Hallgrímsson)

Guðlaug Þóra Óskarsdóttir (Gulla).

Á svona stundu eru það minningarnar sem hugga og lifa. Og þakklæti fyrir þann tíma sem Sigga gaf okkur.

Margar minningar eru frá Fáskrúðsfirði þegar Sigga bjó í Dunhaga og ég á Hlíðargötu 16. Tíminn var endalaus nema þegar Anna birtist á tröppunum í Dunhaga á mínútunni 12 á hádegi og kallaði með sérstakri áherslu: „Sigga komdu að borða.“ Við krakkarnir sögðum oft í gríni að hægt væri að stilla klukkuna eftir Önnu, hún hugsaði vel um sína. Sigga var litla systir og Víðir stóri bróðir sem hún leit alltaf upp til. Og Jón frændi hennar var alltaf í huga Siggu.

Á Dunhagaárunum voru leikirnir fjölbreyttir, við vorum m.a. í bílaleik í fjallinu og í fótbolta, einu sinni við þá iðju sagðist Sigga ætla að eignast heilt fótboltalið þegar hún yrði stór, þá hugsaði ég: „Aumingja hún, ætlar hún virkilega að eignast ellefu stráka!“ Við renndum okkur á snjóþotunum yfir Hlíðargötuna og einu sinni með þeim afleiðingum að Beggi bróðir fótbrotnaði á farkosti Siggu. Hún kom á hverjum degi með glaðning til Begga svo ég næstum öfundaði hann af því að vera fótbrotinn. Það var alltaf mikið að gerast í kringum Siggu og hún hafði meiri kjark en flest okkar krakkanna.

Þegar Sigga fékk bílpróf fórum við á Skódanum hennar Önnu um hverja helgi í héraðið. Fyrst var komið við í sjoppunni hjá Önnu og Sigga. Þetta voru sannarlega eftirminnilegar ferðir.

Eftir að Sigga flutti suður og í Eyjabakkann áttum við vinkonurnar alltaf athvarf hjá henni. Um helgar var oft fjör og allir velkomnir. Það var einmitt á þeim tíma sem við vinkonurnar kynntumst mönnum okkar. Eftir það hittumst við ekki lengi.

Þegar við Sigga tókum svo sambandið upp að nýju var eins og hún og Jónas hefðu alltaf þekkt okkur og þannig eru sannir vinir. Ég, Villi og Vigdís nutum góðs af frábærum félagsskap þeirra, til dæmis í ógleymanlegum veiðiferðum og nú síðast í haust. Allir fjölskyldumeðlimir voru hafðir með og frábært var að fylgjast með þeim.

Ferð okkar Siggu til Vestmannaeyja fyrir nokkrum árum með dætrum okkar var ógleymanleg. Sigga þá með gifs þar sem hún hafði fótbrotnað í „foreldrafimleikum“ eins og hún sagði. Sigga kvartaði ekki. Það gerði hún aldrei öll veikindin og í hvert skipti sem ég hitti hana undanfarið sagði hún alltaf „þetta er alveg að koma“.

Það var ómetanlegt að koma við í Lindarbæ þegar Sigga og Jónas voru að vinna að endurbótunum. Þrátt fyrir veikindin var Sigga alltaf á fullu í ýmsum verkefnum, t.d. að leggja parket.

Stutt er síðan mér varð ljóst af hverju nokkurra ára hlé varð á sambandi mínu og Siggu skömmu eftir að hún kynntist Jónasi. Þau voru svo ástfangin og upptekin hvort af öðru. Það sást greinilega þegar Jónas annaðist Siggu fram á síðustu stundu ásamt fjölskyldunni. Sigga lifir áfram í huganum og börnin hennar fjögur bera gott vitni um það góða sem hún skilur eftir sig. Góðrar vinkonu er sárt saknað, ég gleymi henni aldrei.

Elsku bestu vinir í Lindarbæ! Megi Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Innilegustu samúðarkveðjur til ykkar.

Sigurjóna Jónsdóttir (Jóna).

Eftir erfið veikindi er hún Sigga farin. Ég trúði því alltaf að hún ætti eftir að ná bata en það var ekki fyrr en í síðustu heimsókn minni til fjölskyldunnar í Lindarbæ, tveimur dögum fyrir andlát Siggu, að ég virkilega áttaði mig á því að hún væri að tapa baráttunni. Ég held að Sigga hefði ekki viljað að ég myndi staldra of lengi við að tala um veikindi hennar, heldur tel ég að hún hefði kosið að ég talaði um góðu tímana.

Fyrsta minni mitt af Siggu var þegar ég var um það bil fimm ára og hún kom og færði mér vasaljós af vinsælli gerð úr Siggasjoppunni. Það var alltaf vinsælt að fá Siggu í afmælið sitt, enda kom hún ætíð með bestu gjafirnar. Sigga var vinkona systra minna og nokkrum árum eldri en ég og er hún komst á unglingsár flutti hún suður og ég sá hana lítið mörg ár á eftir. Það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum að leiðir okkar lágu saman aftur fyrir tilviljun á Kanaríeyjum. Þar upplifðum við margar góðar og skemmtilegar stundir sem og þegar við fórum þangað aftur tveimur árum seinna. Ógleymanleg var verslunarferðin þegar ég og Jónas keyptum okkur jakkafötin sem Sigga skírði „foladressin“, okkur Jónasi til mikillar gleði. Þá er mér einnig sérlega minnisstætt er tvíhöfða gæsin var vegin á Sandhólnum. Það var mikið hlegið það kvöldið og Sigga ekki minnst og er það ein af þeim stundum sem ég myndi glaður vilja endurupplifa. Það var aldrei nein fýla í kringum Siggu, en áberandi mikil jákvæðni sem allir mættu taka sér til fyrirmyndar. Jákvæðni Siggu endurspeglaðist í hennar síðustu stundum. Hún lét aldrei bugast og var ákveðin í að njóta hverrar mínútu sem hún ætti eftir. Ekki leikur neinn vafi á því að hún gerði það.

Ljósi punkturinn í myrkrinu er að Sigga dó sátt við guð og menn. Hún átti góða að og skilur meðal annars eftir sig fjögur börn sem vafalaust eru mjög þakklát fyrir að hafa átt Siggu fyrir móður og eiginmann sem stóð eins og klettur við hlið hennar allt fram á síðustu stund. Harmur þeirra er mikill og vona ég að þau finni styrk til að takast á við þennan mikla missi. Það tel ég að þau geri enda eru þau búin að standa sig eins og hetjur í gegnum þennan erfiða tíma. Þau hafa staðið sig eins og sönn fjölskylda. Eins og allar fjölskyldur ættu að vera.

Elsku Sigga, við þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Minningin lifir.

Þórður Már Jónsson

og fjölskylda.

„Ég sagði við manninn, er stóð við inngang hins nýja árs: Ljá mér ljós, að ég geti gengið öruggur og óhultur inn í hið ókunna.“

Og hann svaraði: „Gakk út í myrkrið og legg hönd þína í hönd Guðs. Það skal reynast þér betra en ljós og öruggara en vel kunnur vegur.“

(Þýtt úr ensku)

Fyrir mörgum árum, þegar ég var á ferðalagi erlendis, gekk ég fram á gamalt leiði, sem hafði að geyma þessa grafskrift. Ég las hana hugfangin. Vissi þá ekki að hún átti sér merka sögu. Allar götur síðan hefur hún fylgt mér; verið ómetanlegur styrkur á erfiðum tímum.

Á þessari stundu finnst mér ég ekki geta sent ykkur nokkuð betra, kæra fjölskylda og vinir okkar elskuðu Siggu. Þið, sem studduð hana með ráðum og dáð í hennar erfiðu veikindum, og önnuðust hana með ást og umhyggju allt til hinstu stundar.

Engan veit ég, sem kunni að sýna þakklæti sitt betur en hún. Á sinn einstaka hátt gaf hún alltaf til baka. Svo góð heim að sækja; kunni þá list að láta öðrum líða vel. Skipti þá ekki máli hvort hún var heima eða á sjúkrahúsi.

Ógleymanleg er gleði hennar og tilhlökkun yfir heimferðinni á aðfangadag, til að eyða jólunum með fjölskyldunni sinni, sem hún unni svo heitt.

Já. Við hefðum öll kosið lengri samfylgd.

Það er sárara en nokkrum tárum taki, að svo skyldi ekki verða.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra, sem hafið misst svo mikið.

Elsa Jónasdóttir.

Elsku Sigga mín.

Það er ótrúlega erfitt að setjast niður og skrifa þessar línur. Ég trúði því alltaf staðfastlega að þú fengir lengri tíma með fólkinu þínu og öllum þeim mörgu sem syrgja þig nú.

Ég sá þig fyrst fyrir u.þ.b. 20 árum þegar þú komst inn í fjölskyldu mína sem konan hans Jónasar Vignis, frænda míns. Í einhverju fjölskyldusamkvæmi, ég man ekki hvar eða hvenær, sátum við lengi saman og spjölluðum, ég man ekki um hvað, en ég man að allt sem þú sagðir var svo skynsamlegt. Mér fannst það eftirtektarvert af svo ungri konu. Svo varstu líka svo hlý. Ég hugsaði: Mikið er hann heppinn, hann frændi minn. Ég man hvernig ljósið frá glugganum sem við sátum við lék í fallega, dökka, hrokkna hárinu þínu. Þú varst svo falleg og sú fegurð entist þér allt til hins síðasta því að hún var innri fegurð líka.

Við bjuggum um tíma í sama hverfi og þá var samgangur tíður milli heimila okkar. Það var alltaf svo gaman að fá þig í heimsókn og barnaafmælin sem þú stóðst fyrir voru einhvern veginn sérstök. Ég heimsótti þig nokkrum sinnum eftir að þú fluttist að Sólheimum og svo seinna í Lindarbæ. En ekki nógu oft. Það sé ég núna.

Oft ræddum við um börnin þín og barnabörnin mín. Það var greinilegt að börnin og fjölskyldan skiptu þig öllu. Það hefur komið í ljós núna síðustu mánuðina hve vel hefur verið vandað til uppeldis barnanna þinna og Jónasar Vignis. Ég veit, að þau verða nú styrkur föður síns eins og hann verður nú styrkur þeirra.

En þú hafðir fleira til brunns að bera, Sigga mín. Þú varst fjölhæf, hæfileikarík og mjög listræn og hefðir getað lært hvað sem var. Þú varst líka alltaf að mennta þig.

Ég trúi því, að þótt þú sért horfin sjónum okkar sem syrgjum þig nú þá lifir þú áfram, því að það er enginn dauði til. Eins og Leo Tolstoj skrifaði: Að deyja – það er að vakna.

Ég trúi því að við sem sjáum á eftir þér núna hittum þig aftur á góðum stað.

Vertu blessuð og Guði falin. Hjartans þakkir fyrir allt.

Þín

Kristín.

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur hug þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.

(Kahlil Gibran) Jónas, Jón Grétar, Katrín Ösp, Sædís Ýr, Jakobína Björk, Anna og aðrir aðstandendur, megi góður Guð styrkja ykkur í ykkar miklu sorg, minningin um Siggu mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Anna og Jens Dan.

Það er þyngra en tárum taki að þurfa að kveðja unga konu sem tekin hefur verið í burtu frá eiginmanni og fjórum ungum börnum. Siggu kynntist ég þegar ég byrjaði að vinna með Leikfélagi Sólheima fyrir sex árum. Leikstjórinn sem hafði leikstýrt þessum einstaka leikhópi árinu áður sagði við mig: „Láttu þér ekki detta í hug að vinna nokkra leiksýningu án Siggu og Stínu – þær eru potturinn og pannan á Sólheimum og redda öllu!“ Sem betur fer fengust þessar frábæru konur til að vinna fyrstu leiksýninguna með mér – svo og öll hin leikverkefnin eftir það.

Sigga var einn af þessum dýrgripum í leikhúsi sem eru alltaf búnir að öllu áður en maður nefnir hlutina. Búin að redda búningum, búin að gera drög að leikskrá, búin að útbúa diska með tónlist handa öllum, búin að gera salinn tilbúinn fyrir æfingar og sýningar – það þurfti aldrei að hafa áhyggjur af neinu þegar Sigga var annars vegar – hún hugsaði fyrir öllu og sá um allt. Sigga eyddi ekki einungis öllum sínum frítíma í þágu Leikfélags Sólheima heldur voru kraftar allra í fjölskyldunni nýttir til fulls – börnin hennar þrjú – það yngsta var ekki fætt – voru öll drifin upp á leiksvið og léku eins og englar með mömmu sinni í öllum þeim sýningum sem ég hafði tækifæri til að vinna með þessu dásamlega leikfélagi. Jónas maður Siggu var meira að segja drifinn úr trjáræktinni og látinn stjórna ljósum og hljóði eða var skellt í búning og drifinn upp á leiksvið. Sigga var sannkölluð prímadonna hvort heldur var uppi á leiksviði eða í lífinu sjálfu. Falleg og gefandi og alltaf til taks – alltaf jákvæð og drifkrafturinn í öllum verkefnum.

Ég þakka fyrir ógleymanlegar stundir með Siggu og fjölskyldu hennar í Hárinu, Latabæ, Sesseljuleikþættinum og Sumarleikhúsi Grænu könnunnar. Ég bið góðan guð að styrkja Jónas og börnin í þessari miklu sorg. Stjarnan þeirra hefur verið flutt af jörðinni og upp á himinhvelfinguna. Einstök stjarna.

Edda Björgvinsdóttir.

Elsku Sigga, það hefur verið alveg ótrúlegt að fylgjast með hetjulegri baráttu þinni við erfiðan sjúkdóm.

Þú og þín sterka, samheldna fjölskylda hafið svo sannarlega gefið öðrum styrk, von og gott fordæmi. Það er svo ótalmargt sem flýgur í gegnum hugann þegar maður kveður ástvin í blóma lífsins sem hafði svo margt að gefa og svo margt að lifa fyrir.

Á æskuárunum var alltaf gaman þegar við hittumst ýmist í sveitinni okkar í Hjaltadalnum eða fyrir austan þegar þú varst að slíta barnsskónum á Fáskrúðsfirði.

Þótt það væri langt á milli og samgöngur ekki góðar í þá daga þá var yfirleitt á hverju sumri gerð ferð, ýmist fórum við austur eða þið í Skagafjörðinn.

Það virðist svo ótrúlega stutt síðan þið fermdust saman frændsystkinin á Hólum, þú, Bergur og Haukur, og sumarið sem þú varst hjá okkur á Króknum, brúðkaupið þitt nú og svo allar góðu stundirnar okkar saman fyrir sunnan, norðan og austan eftir að við krakkarnir urðum foreldrar.

Á þinni ævi hefur þú áorkað svo miklu, stofnað glæsilegt heimili með honum Jónasi þínum, eignast fjögur heilbrigð og gullfalleg börn sem þú getur verið stolt af og nýlega flutt inn í draumahúsið ykkar, Lindarbæ, þar sem þú áttir þinn stóra þátt í að byggja upp þrátt fyrir veikindin.

Kæra frænka, við viljum þakka þér fyrir allar dýrmætu stundirnar, minning þín lifir í hörtum okkar.

Elsku Jónas, Jón Grétar, Katrín Ösp, Sædís Ýr, Jakobína Björk, Lilla, Víðir og fjölskylda, Guðrún og Grétar, megi Guð vaka yfir ykkur öllum á þessum erfiðu tímum.

Vært þú sefur vina mín

þér vægðarlaust var stríðið.

Svo ung og fögur, móðir blíð,

þú litum gæddir lífið.

Svo sárt það er að sakna þín

sárara en tárum tekur.

Skýr áfram, vermir minning þín

hún von hjá mörgum vekur.

Guð blessi blíðu börnin þín

og sorgir þeirra sefi.

Senn vorsins sólin skærar skín

þeim von og gleði gefi.

(S.H.)

Jóna, Björn, Bergur, Ragnar, Árni, Ingibjörg, Hólmfríður, makar og börn.

Það gerðist eitthvað þegar ég kom á Sólheima í fyrsta skipti, þá leiðsögumaður fyrir ferðamannahóp. Ég varð ástfangin af staðnum og fékk sterkt á tilfinninguna að hér myndi ég einhvern tímann búa. Síðar fékk ég að njóta þeirra forréttinda að búa ásamt dóttur minni, Ólavíu, á þessum dýrlega stað í fjögur ár og starfa sem menningar- og félagsmálafulltrúi. Þannig lágu leiðir okkar Siggu saman en hún, ásamt fjölskyldu sinni, var ein af máttarstólpum þessa einstaka litla þorps sem á engan sinn líka. Sjálfbært 100 manna þorp þar sem starfa saman fatlaðir og ófatlaðir með áherslu á lífræna ræktun, umhverfismál og listsköpun. Þar fer fram fjölbreytt menningar- og félagsstarf með um 50 viðburðum á ári.

Á slíkum stað eru það ótrúleg verðmæti að hafa á meðal íbúa eins fjölhæft og duglegt fólk og Sigríði Sigurðardóttur og fjölskyldu. Jónas var forstöðumaður lífrænu skógræktarstöðvarinnar Ölurs. Sigga, eins og hún var kölluð, var mjög listræn, hvort sem var á sviði leiklistar, hannyrða eða myndlistar. Þegar ég kom á staðinn stýrði hún vefstofu Sólheima. Síðar stýrði hún vinnustofu sem sérhæfði sig í framleiðslu fallegra umbúða utan um framleiðsluafurðir Sólheima. Sigga sýndi menningar- og félagsstarfi á Sólheimum einlægan áhuga. Var það ómetanlegt fyrir mig að geta leitað í hennar viskubrunn. Hún var ein af styrkustu stoðum Leikfélags Sólheima og tók þátt í nær öllum leikuppfærslum sem þar fóru fram. Leikfélag Sólheima (1931) er eitt af elstu og stærstu áhugamannaleikfélögum landsins. Þar starfa saman fatlaðir, ófatlaðir, fullorðnir og börn á jafnréttisgrundvelli.

Þorri íbúa á staðnum er í félaginu. Sigga lagði á sig mikið og óeigingjarnt starf í þágu leikfélagsins, á nóttu sem degi, gekk í öll störf, hvort sem um var að ræða búningagerð, tæknimál, halda utan um leikhópinn, æfa börnin, leikmyndagerð, leika, syngja eða dansa. Hún lagði íþróttastarfi mikið lið.

Sigga var elskuð af fötluðum íbúum Sólheima enda sýndi hún þeim einlægan áhuga, þolinmæði, kærleik og skilning. Sigga á miklar þakkir skilið fyrir sitt óeigingjarna starf í þágu samfélagsins á Sólheimum. Það var aðdáunarvert að fylgjast með Siggu sem móður. Hún var mjög stolt af börnunum sínum og hvatti þau óspart til góðra verka, til dæmis á sviði íþrótta og leiklistar. Enda hafa þau uppskorið glæsilegan árangur.

Elsku Jónas, Jón Grétar, Katrín Ösp, Sædís Ýr og litla Jakobína, missir ykkar er mikill. Vegir guðs eru órannsakanlegir. Það er manni óskiljanlegt þegar móður er svipt langt fyrir aldur fram frá eiginmanni og fjórum ungum börnum sem þarfnast hennar svo mikið. Það virðist mikið óréttlæti. Guð blessi ykkur og gefi ykkur styrk til að takast á við komandi tíma. Það er ég sannfærð um að Sigga mun halda áfram að vaka yfir ykkur sem verndarengill.

Eins og andblær kyssir kinn mun Sigga vera nálæg á öllum mikilvægustu stundum lífsins. Hún mun einnig lifa að eilífu í hjörtum okkar sem hana þekktum.

Blessuð sé minning Sigríðar Sigurðardóttur og góðu verkanna hennar.

Innilegar samúðarkveðjur,

Anna Margrét Bjarnadóttir.

mbl.is/minningar

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þótt svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Elsku Sigga okkar, þakka þér fyrir alla þína vináttu og hlýju sem þú gafst okkur. Við kveðjum þig með virðingu, söknuði og þökk.

Hjartans Jónas Vignir, Jón Grétar, Katrín Ösp, Sædís Ýr, Jakobína Björk og aðrir aðstandendur. Við vottum ykkur okkar innilegustu samúð.

Jónas Heiðar, Anna Björk

og börn.

Kveðja frá Sólheimum

Það er sérstakt að horfa á eftir fertugri manneskju falla frá. Manneskju sem á að vera í blóma lífsins, manneskju sem ætti að vera að njóta samvista við börn sín og maka.

Sigga bjó og starfaði með fjölskyldu sinni á Sólheimum í tæpan áratug. Sigga stóð sig vel í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur og vann verk sín vel. Sigga var um árabil ein helsta driffjöður Leikfélags Sólheima og þar gekk hún fram af miklum krafti. Gekk til allra verka og gætti vel að velferð leikfélagsins.

Sigga var ekki ein þegar kom að leikfélaginu því börnin hennar voru ávallt meðal helstu leikara og stóðu sig eftirminnilega vel. Sigga var þó í mínum huga ávallt hin umhyggjusama og góða móðir, sem ávallt var vakin og sofin yfir velferð barna sinna.

Langri baráttu er lokið, baráttu sem hægt var að fylgjast með á blogg-inu hennar Siggu. Þar gafst tækifæri á að fylgjast með baráttu og bjartsýni en umfram allt trú á lífið og vonina.

Fyrir hönd Sólheima þakka ég áralanga samveru og samvinnu. Ég votta ykkur Jónas, Jón Grétar, Kata, Sædís og Jakobína mína dýpstu samúð.

Guðmundur Ármann Pétursson