Hvað ungur nemur gamall temur Yngri kynslóðin kennir þeirri eldri á tölvur í félagsmiðstöðinni í Hæðargarði.
Hvað ungur nemur gamall temur Yngri kynslóðin kennir þeirri eldri á tölvur í félagsmiðstöðinni í Hæðargarði. — Árvkaur/RAX
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is AUÐVELDARA er að brúa kynslóðabilið en margur heldur því ekki þarf annað en svolítinn tíma, nokkrar tölvur og jákvætt hugarfar til að svo megi verða.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

AUÐVELDARA er að brúa kynslóðabilið en margur heldur því ekki þarf annað en svolítinn tíma, nokkrar tölvur og jákvætt hugarfar til að svo megi verða. Í félagsmiðstöð eldri borgara í Hæðargarði fer fram tölvukennsla tvisvar í viku þar sem nemendur í 7. bekk Breiðagerðisskóla hitta eldri borgara og sýna þeim eitt og annað gagnlegt við tölvurnar. Það fer ekki milli mála að kennslustundirnar eru hin besta skemmtan fyrir nemendur og leiðbeinendur. Fyrirkomulagið er þannig að nokkrir 7. bekkingar mæta í hverja kennslustund sem er allt að tvær klukkustundir í senn. Eldri borgararnir vinna ýmist á sínar eigin tölvur eða vélar sem félagsmiðstöðin hefur yfir að ráða.

Ólöf Pétursdóttir er ein þeirra sem keyptu sér tölvu fyrir ári en fór reyndar ekki að nota hana fyrr en nú fyrir skemmstu. „Maður er seinni að læra þetta en unga fólkið – en þetta kemur,“ segir hún og hlær. „Ég keypti tölvuna fyrst og fremst til að geta farið inn á Íslendingabók og komast í ættfræðina. Ég var langspenntust fyrir því. Og unga fólkinu gengur ágætlega við kennsluna.“

Ólöf fór á tölvunámskeið ekki alls fyrir löngu og lærði þar að beita tölvumúsinni, leggja kapal og teikna. Nú er tekið stökk fram á við og Íslendingabók í öllu sínu veldi er að opnast henni. „Ég er vongóð um að þetta sé allt að koma og að maður geti haft gaman af þessu.“

Leiðbeinendur á vaktinni í gær voru Andrés Lars Kristjánsson og Erlendur Karl Grímsson, báðir úr Breiðagerðisskóla. Umsjónarmaður með námskeiðinu er Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur.

Að sögn Andrésar er hin besta tilbreyting fólgin í að leiðbeina fólki um ranghala tölvuheimanna. „Ég er að kenna þeim að skoða fréttir á vefnum og hvernig á að setja síður inn í „eftirlæti“ og slíkt,“ segir hann. „Sumir vilja gera eitthvað annað, t.d. skoða tölvupóst.“