Framkvæmdir Heimir Ívarsson og Smári Björnsson takast í hendur eftir að sá síðarnefndi hafði tekið fyrstu skóflustunguna að nýrri gámastöð.
Framkvæmdir Heimir Ívarsson og Smári Björnsson takast í hendur eftir að sá síðarnefndi hafði tekið fyrstu skóflustunguna að nýrri gámastöð. — Morgunblaðið/Alfons
Eftir Alfons Finnsson Ólafsvík | Fyrsta skóflustungan að nýrri gámastöð var tekin í Ólafsvík á mánudag. Smári Björnsson, bæjartæknifræðingur Snæfellsbæjar, framkvæmdi verkið. Nýverið gerði Snæfellsbær sjö ára samning við Gámaþjónustuna hf.

Eftir Alfons Finnsson

Ólafsvík | Fyrsta skóflustungan að nýrri gámastöð var tekin í Ólafsvík á mánudag. Smári Björnsson, bæjartæknifræðingur Snæfellsbæjar, framkvæmdi verkið.

Nýverið gerði Snæfellsbær sjö ára samning við Gámaþjónustuna hf. um að fyrirtækið annist sorpmál sveitarfélagsins.

Losun innan dyra

Heimir Ívarsson, starfsmaður Gámaþjónustunnar, segir í samtali við Morgunblaðið að á síðasta ári hafi fyrirtækið keypt fiskvinnsluhús undir starfsemina á Ennisbraut 38 í Ólafsvík og nú verði farið í miklar framkvæmdir við að skipta um jarðveg, malbika og búa til rampa og er það til þess að auðvelda losun stærri hluta. Losun sorps fer að hluta til fram innandyra þar sem fólk getur losað sig við minni úrgang.

Smári Björnsson segir að gámastöðinni Snæfríði, sem er staðsett skammt frá Rifi, verði lokað þegar framkvæmdum við þessa nýju gámastöð ljúki en það er áætlað í lok sumars. Smári segir ennfremur að íbúar Snæfellsbæjar fái kort sem gildir fyrir 12 ferðir á ári í gámastöðina, eftir það verði greitt eftir vigt. Stöðin verði girt af og öflugt myndavélaeftirlit verði á staðnum.

Verktakafyrirtækið Fljótandi mun sjá um framkvæmdirnar við gámastöðina.