Eftir Ægi Þór Eysteinsson aegir@24stundir.is Landsvirkjun hefur ákveðið að rifta samningi við verktakafyrirtækið Arnarfell, en fyrirtækið hefur unnið við byggingu Jökulsár- og Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar.

Eftir Ægi Þór Eysteinsson

aegir@24stundir.is

Landsvirkjun hefur ákveðið að rifta samningi við verktakafyrirtækið Arnarfell, en fyrirtækið hefur unnið við byggingu Jökulsár- og Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar.

Arnarfell hefur átt í viðræðum undanfarið við helstu lánadrottna sína, Landsbankann og Lýsingu, en þær skiluðu ekki árangri. Í ljósi þess ákvað Landsvirkjun að losa Arnarfell undan samningi þar sem fyrirtækið þótti ekki hafa fjárhagslega burði til að ljúka verkinu.

Samkvæmt yfirlýsingu sem barst frá Landsvirkjun í gær er virði samningsins um 6 milljarðar króna og er tveimur þriðju hlutum verksins lokið.

Landsvirkjun yfirtekur verkið

„Þetta er eins mjúk lending á þessu máli eins og hún getur verið. Landsvirkjun gerist sjálf verktaki í bili og yfirtekur græjur og birgðir fyrirtækisins á vinnusvæðinu og ræður til sín starfsfólk Arnarfells sem þarna vinnur, sem er ekki síst þýðingarmikið,“ segir Sigurður Arnalds, talsmaður Kárahnjúkavirkjunar.

„Tilgangurinn með þessu öllu saman er að tryggja að verkið stoppi ekki heldur haldi áfram. Svo munum við spýta í lófana í þeim verkþáttum þar sem mest liggur á með því að leita til annarra verktaka til þess að hjálpa okkur.“

Að sögn Sigurðar mun Landsvirkjun leita tilboða hjá þeim verktökum sem unnið hafa hjá fyrirtækinu við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, en verkið verði ekki boðið út með formlegum hætti.

„Þegar svona breyting verður kemur alltaf til einhver kostnaður, en hann liggur ekki fyrir að svo stöddu.“

Óvissuástand að baki

Björgvin Ómar Hrafnkelsson, trúnaðarmaður starfsmanna Arnarfells, segir gott hljóð í starfsfólki en tilfinningar séu blendnar. „Fólk hér kennir í brjósti um atvinnurekandann, enda reyndu þeir hvað þeir gátu til að halda hlutum hér gangandi.“

Björgvin Ómar segir að lítið hafi heyrst frá fyrirtækinu undanfarið. „Við höfum ekkert heyrt frá forsvarsmönnum fyrirtækisins frá því fyrir jól svo hér ríkti ákveðið óvissuástand sem er gott að sé nú að baki. Við höldum vinnunni og það er fyrir öllu og að verkið tefjist ekki meira en orðið er.“

Í hnotskurn
Arnarfell vann við Kárahnjúkavirkjun austan Snæfells vegna veitu Jökulsár í Fljótsdal og minni vatnsfalla þar austur af á svonefndum Hraunum samkvæmt fjórum verksamningum.