Halldór Kristjánsson Kjartansson fæddist í Reykjavík, 21. nóvember 1959. Hann andaðist á heimili sínu 12. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík 18. janúar.

Við brátt og ótímabært fráfall æskuvinar míns Halldórs Kristjánssonar setur mig hljóðan og minningar hrannast upp. Vinátta okkar Halldórs var mikil og náin um árabil, á tímabili þegar börn verða unglingar og brjótast síðan áfram til frekari þroska. Þó við héldum síðan hvor í sína áttina og samverustundum fækkaði með árunum, átti gagnkvæm væntumþykja ávallt sinn stað í hjörtum okkar. Það vissum við báðir.

Við Halldór og félagarnir brölluðum ýmislegt saman á þeim umbrota- og mótunarárum sem unglingsárin eru. Við þurftum að uppgötva sem mest og prófa sem flest. Við gengum saman í gegnum skellinöðru- og bílprófstímabilin þar sem hestöfl og hraði voru mælikvarðarnir. Við félagarnir unnum saman í Kók þar sem afköst og ástundun gátu þurft að víkja fyrir þreytu og svefnleysi. Íþróttir stunduðum við af kappi hjá KR og þar hafði félagsskapurinn ekki minna vægi en íþróttirnar. Við fórum saman í fyrstu keppnisferðina, á fyrstu útihátíðina, prufuðum sennilega saman fyrsta smókinn og gott ef ekki fyrsta sopann líka.

Æskuheimili Halldórs á Einimelnum var stórt og fullt af veraldlegum gæðum þess tíma. Þar eyddum við vinirnir ófáum stundum. Þau heiðurshjón Iðunn og Kristján, sem bæði eru fallin frá, stóðu þar í stafni. Yndisleg hjón sem sýndu okkur strákunum oft á tíðum mikla þolinmæði og traust en veittu okkur aðhald þegar þurfti. Góðar minningar búa með mér frá Einimelnum, þangað sem ég meðvitað eða ómeðvitað sótti styrk til foreldra Halldórs, á tímabili þegar fullur stöðugleiki var ekki á mínum högum.

Að loknum námsárunum tók við hjá Halldóri eins og öðrum, lífsins ganga í einkalífi og störfum. Það skal sagt sem er, að þar fann hann á stundum ekki fjölina sína sem skyldi. Það breytti ekki því að fyrir utan fjölskylduna átti Halldór góða vini og kunningja sem ætíð fylgdust með honum og báru til hans hlýjan hug. Það var sjálfgefið, því engum sem til hans þekkti duldist að þar fór drengur góður.

Við leiðarlok sitja eftir minningar um góða tíma og ógleymanlegar, stundum ærslafullar stundir. Fyrst og síðast þó minningin um góðan dreng. Megi góður Guð blessa minningu Halldórs Kristjánssonar og veita systkinum hans og öðrum ástvinum styrk.

Garðar Jóhannsson.

Það er ógaman að kveðja kæran vin sem fellur frá fyrir aldur fram. Þegar maður lítur til baka og rifjar upp liðnar stundir þá stendur það eftir að sem manneskja var Dóri einstakur. Hann gerði okkur óteljandi greiða og var ávallt boðinn og búinn hvenær sem leitað var til hans. Og aldrei ætlaðist hann til þess að velgjörðirnar væru endurgoldnar, þetta var hrein gæska. Dóri gerðum öllum sem hann gat gott og engum illt og það mun lifa í minningu ættingja hans og vina. Það skipti ekki máli hvort maður hitti hann oft eða sjaldan alltaf var viðmótið hið sama góða, og vináttan sönn.

Síðast þegar við hittumst í afmælisveislu Bjössa bróður hans núna í vetur þá var hann glaður að hitta vini og kunningja, spjalla, spyrja frétta og fá staðfest að allt væri í lagi hjá félögunum. Margvísleg áföll á síðustu árum urðu þess valdandi að Dóri dró sig út úr hringiðunni en hugurinn var ávallt sá sami að hjálpa og gera öðrum gott, og þegar öllu er lokið þá vildum við öll hafa lifað eftir þessum megingildum sem hann fylgdi svo staðfastlega. Við kveðjum tryggan vin og þökkum fyrir greiðana og góðu stundirnar.

Orri og Ásgeir.

Elsku Dóri, okkur langar að kveðja þig með þessu fallega ljóði, við eigum eftir að sakna þín.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Rúnar, Guðrún og

Tómas Nielsen.

Ljúfmenni er fallið frá. Ljúfmenni og KR-ingur.

Ég kynntist Dóra í gegnum sameiginlega vini fyrir tæpum þremur áratugum. Ég man hvar og hvenær. Það var verið að „steggja“ Viðar Pétursson vin okkar beggja og Dóri og fleiri höfðu leigt rútu bæði til þess að fara á KR-leik upp á Skaga og einnig til að ferðast með hópinn yfir daginn. Mér var snarlega kippt um borð og drakk þar m.a. bjór af krana löngu áður en slíkt varð leyfilegt hér á landi. Því hafði Dóri reddað. Leikurinn á Akranesi vannst 3-1 og voru menn gríðarlega sáttir. Ég sá að Dóri var í 50.000 fetum. Hann var alsæll. KR-sigur og hann innan um vini sína.

Það eru margar sameiginlegar minningar tengdar KR. Ekki tengjast þær allar sigrum. Ein skærasta minningin er frá öðrum KR-leik uppi á Skaga. Okkur nægði jafntefli í síðasta leik til þess að verða Íslandsmeistarar eftir 30 ára bið. Það var öllu til tjaldað. Við leigðum rútu, Dóri kom með snittur og kampavín og auðvitað flugelda. Titillinn kom ekki í hús þennan haustdag og það var mæddur mannskapur sem tíndist upp í rútuna. Sérstaklega er mér minnisstæður mæðusvipurinn á Dóra. Það tók nánast alla leiðina í bæinn að ná fram brosi.

Ingólfur bróðir minn hitti Dóra í Kringlunni milli jóla og nýars. Eftir stutt spjall spurði Dóri: „Ertu búinn að gera skyldu þína?“ Ingólfur kveikti ekki alveg strax svo Dóri bætti við. „Ertu búinn að fara út í KR að kaupa flugeldana eða áttu það eftir?“

Ofangreint sýnir hvað KR átti stóran hlut í Dóra.

En þó KR ætti stóran hlut í hjarta Dóra var þar einnig nóg pláss fyrir fjölskyldu og vini. Við vinir hans fylgdumst með því hvað hann var foreldrum sínum mikil hjálparhella í veikindum þeirra. Þar stóð hann sína plikt og gott betur.

Við færum Eddu Birnu, Magnúsi, Birni og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur um leið og við kveðjum kæran vin. Hvíl í friði kæri Dóri.

Ólafur og Laufey.

Halldór Kristjánsson Kjartansson fæddist 21. nóvember 1959 á Hringbraut 85 í Reykjavík. Það hús var þá í eigu afa míns Tryggva Ólafssonar og ömmu, Guðrúnar Magnúsdóttur. Afar okkar Dóra og ömmur voru miklir vinir og meðal annars byggðu þeir félagar Tryggvi og Halldór Kristjánsson sumarbústað í tvíbýli á Þingvöllum 1941 til að geta sent konur sínar og börn þangað ef stríðið kæmi til Íslands. Ég hélt á mínum æskuárum að fjölskylda Dóra væri náskyld mér því nöfn Teddy, Addýjar og barna þeirra voru alltaf í umræðunni heima hjá mér.

Þegar Dóri fæddist var afi minn að halda seint upp á sextugsafmæli sitt. Hinn hamingjusami faðir fór niður til Tryggva eftir fæðingu Dóra með vindla til að fagna fæðingu sonar síns, en kom ekki aftur upp til móður og sonar úr veislunni fyrr en í morgunsárið.

Ég kynntist ekki Dóra raunverulega fyrr en 1992 þegar ég var að byggja nýtt bátaskýli á Þingvöllum seint í ágúst. Teddy og Dóri komu akandi síðdegis og buðu mér að koma yfir til sín þegar ég væri búinn með dagsverkið. Ég fór yfir um kvöldið og sat með þeim feðgum fram á nótt við spjall og skemmtisögur. Um nóttina stóð ég upp og þakkaði fyrir mig og gekk heim. Málið er að það verður kolniðamyrkur í sveitinni og á leiðinni heim þá komst ég að því að ef ég varð blautur í fæturna þá var ég kominn út í Þingvallavatn og þurfti að beygja til vinstri og ef ég rakst í gaddavír þá þurfti ég að beygja til hægri. Þannig komst ég á hálftíma þessa 400 metra sem skilja bústaði okkar.

Dóri varð mér afar kær vinur og mannkostir hans og vinátta hafa reynst mér ómetanleg.

Fráfall hans er erfiðara en orð fá lýst. Dóri var afar fágaður í allri framkomu og heimsmaður mikill. Hann var trúnaðarvinur og hafði alltaf tíma til að hlusta og hjálpa við að leysa vandamál. Hann var best upplýsti einstaklingur sem ég hef kynnst, með fréttir og allar greiningar á heimsmálum, vísindum og efnahagsmálum á hraðbergi. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá Dóra. Við Dóri höfum brallað og hlegið mikið saman og ég gæti í margar klukkustundir sagt sögur af Dóra. Ég ætla hins vegar að segja hér frá einu því síðasta sem við lentum í saman.

Eftir fráfall foreldra sinna fékk Dóri forláta Cadillac Fleetwood Brougham-bifreið, árgerð 1988, ekin 13 þúsund kílómetra. Seint í nóvember síðastliðinn hringdi Dóri í mig og bað mig að sækja sig á Þingvelli því fíni bíllinn hafði bilað og var á verkstæði í Reykjavík. Ég dreif mig af stað og ók austur og sótti Dóra. Við stoppuðum á nokkrum stöðum og enduðum á verkstæðinu. Þar var Kadilakkinn glansandi í öllu sínu veldi. Dóri greiddi reikninginn, settist inn í bíl og ók hróðugur á brott og ég fór heim. Ég hafði tekið eftir því að það voru tveir gaskútar í afturætinu á bílnum. Rétt þegar ég kem heim hringir Dóri og biður mig að koma upp í Grafarvog, þar sem hann var þá staddur, því það var farið að sjóða á bílnum. Ég dreif mig af stað en stuttu síðar hringir hann og segir að það sé kviknað í bílnum. Hann var búinn að hringja á slökkviliðið en bíllinn var að eyðileggjast og var honum mjög brugðið. Ég bað hann í öllum bænum að taka gaskútana út úr bílnum og jánkaði hann því. Þetta var um fimmleytið á föstudegi og mér gekk illa að komast upp í Grafarvog. Þegar ég kom þangað var slökkviliðið komið, búið að slökkva í bílnum og ljóst að fíni bíllinn, sem hefði orðið fornbíll á þessu ári, var gjörónýtur. Hins vegar voru gaskútarnir ennþá inni í bíl, en tveir bjórkassar sem hann hafði keypt voru komnir í öruggt skjól langt frá bílnum.

Það er erfitt að kveðja jafn góðan vin og Dóri var. Hann er nú kominn til foreldra sinna og Helgu systurdóttur sinnar. Guð blessi þau öll.

Tryggvi Pétursson.

Það var skömmu fyrir jólahátíðina að ég hitti Dóra síðast. Við sáumst ekki oft, en ætíð var glatt á hjalla er við hittumst og spjölluðum saman. Sama var uppi á teningnum þennan dimma kalda föstudag á Grenimelnum. Spurningunum rigndi yfir mig og vildi hann allt um mig, og börnin mín vita. Hvað væri að frétta og hvernig okkur liði. Þannig maður var Dóri. Lét sig allt varða, og hlýjan og ástúðin geislaði frá honum. Þegar við kvöddumst, tók hann þétt utan um mig og kvaddi með þeim orðum „farðu vel með þig, Bettý mín, og sjáumst hress á nýju ári“.

Takk, Dóri minn, fyrir hlýjuna og væntumþykjuna sem ég veit að mun fylgja öllum þeim er þekktu þig um ókomna tíð.

Elsku Bjössi, Edda Birna, Áslaug og fjölskyldur, ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Berglind Þórðardóttir og börn.

Mig langar til þess að kveðja nafna minn og frænda með fáeinum orðum.

Ekki hefði mig grunað það að í byrjun árs þyrfti ég að setjast niður og skrifa minningargrein um Dóra frænda. Við áttum það báðir sameiginlegt að vera skírðir í höfuðið á afa okkar Halldóri Kjartanssyni og vorum alltaf mjög stoltir af því. Allir sem þekktu Dóra sögðu að þarna væri góður drengur með stórt hjarta. Ég var mjög stoltur þegar hann hringdi í mig og sagði að hann væri að fara að gifta sig og vildi að ég myndi keyra brúðarbílinn. Ég var ekki nema 17 ára gamall og fannst mér þetta bara „cool“. Hann Dóri reyndist mér alltaf vel og ef ég þurfti að leita til hans var aldrei neitt vandamál. Hann vildi allt fyrir mann gera. Þegar Addy mamma hans varð veik sá maður hversu frábær einstaklingur hann var. Hann hugsaði vel um hana, flutti inn á Einimelinn og bjó hjá henni þar til hún kvaddi þennan heim. Þegar mamma hringdi í mig þann 12 jan sl. og sagði við mig að nafni minn væri dáinn þá stoppaði allt. Það getur ekki verið. Loksins þegar hann ætlaði að fara að njóta lífsins. Hann sem var svo hress síðast þegar ég hitti hann í afmælinu hjá Elsu systir. Ég veit að þér líður vel núna en þín verður sárt saknað.

Guð blessi þig nafni og takk fyrir allt.

Halldór Kjartansson Björnsson.

Við kynni skilur sumt fólk meira eftir sig en aðrir, þú Dóri minn varst einn af þeim sem skilja mikið eftir í hjörtum okkar. Þitt glettna bros, stóra stolt og mikli húmor fyrir nánast öllu var það sem einkenndi þig.

Það var árið 1989 og ég aðeins 19 ára þegar ég byrjaði að vinna fyrir þig og Kristínu við að koma nýrri snyrtivöru á markaðinn, með okkur þremur tókst vinskapur sem hefur haldist síðan. Þú kenndir mér svo ótal margt í lífinu sem ég bý að í dag. Þú kunnir svo sannarlega að koma á óvart og naust þess að vera herramaður, þetta vitum við og skiljum sem þekktum þig, þú vildir okkur öllum svo vel.

Það var mér ómetanlegt að hitta þig fyrir nokkrum mánuðum í Kringlunni og spjalla yfir Coca Cola, þú varst svo stoltur af mér þegar við ræddum um strákana mína þrjá og að ég hefði nýlega klárað háskólann, þú sagðir mér að þig langaði að fara aftur í skóla og læra meira, ég hvatti þig til þess og reyndar slógum við því upp í gríni að hittast í HR sl. haust, ég í verðbréfamiðlun og þú í lögfræðinni. Þú sagðir mér líka hvað þér þætti vænt um að fá jólasögukortin frá mér og þannig fylgjast með mér og mínum. Með þéttu faðmlagi, koss á kinn og bros á vör kvöddumst við og þannig ætla ég að muna þig.

Með söknuði kveð ég góðan og tryggan vin og bið góðan guð um styrk til okkar allra sem þótti svo vænt um yndislegan mann.

Helga Jónsdóttir.

Kæri Dóri minn, ekki bjóst ég við að missa þig svona fljótt og skyndilega. En fyrst svona fór veit ég að þú hefðir ekki viljað neina sorgarræðu eða volæði. Við áttum yndislegar stundir saman og upplifðum margt skemmtilegt bæði í okkar hjónabandi og áfram eftir skilnað okkar í formi vináttu sem entist til dagsins í dag.

Þú hafðir svo mikla útgeislun og heillaðir fólk hvar sem þú komst, enda varstu vinamargur. Þú hafðir fastar skoðanir á hlutunum en alltaf var húmorinn handan við hornið og aldrei get ég gleymt þessu „fílaminni“ eins og við grínuðumst með, það var sama um hvað var rætt, þú mundir eftir því og hafðir sérstaklega gaman af að henda fram réttum tíma og dagsetningum inn í umræðuna.

Það að þú skyldir fá að sofna í rólegheitum á Þingvöllum er mikil huggun þar sem bústaðurinn á Þingvöllum var þín paradís og heimili og þar leið þér allra best. Það var svo gaman að heyra þig tala um Þingvöll, þú lifnaðir allur við og hlakkaðir til að keyra austur. Ég var svo þakklát fyrir vináttu okkar og það hversu góður þú varst við móður mína, alltaf sendir þú kveðju og um hver jól fórst þú upp í kirkjugarð og settir krans hjá föður mínum sem þú hélst svo upp á.

Ég veit að ekkert annað en gott bíður þín hinum megin og þar átt þú eflaust eftir að hitta marga mektarmenn sem þú getur rökrætt við. Ég kveð þig Dóri minn og mun alltaf geyma þig í hjarta mínu.

Kristín Stefánsdóttir.

Ég hitti Halldór kátan og hressan milli jóla og nýárs í Melabúðinni og það urðu fagnaðarfundir. Hann brosti sínu einstaka brosi og sagði mér að hann væri búsettur á fallegasta stað á Íslandi, við Þingvallavatn, og hefði það mjög gott. Eftir skemmtilega upprifjun frá skólaárum okkar kvöddumst við með áformum um að hittast fljótlega aftur og gera okkur glaðan dag.

Við Halldór vorum bekkjarfélagar á skólaárum okkar í Fjölbrautaskólanum við Ármúla sem var ógleymanlegur tími og átti Halldór stóran þátt í því. Við stunduðum námið af kappi saman þann tíma sem próftíminn stóð yfir og þá helst heima hjá Dóra á Einimelnum þar sem við vorum vel studdir af foreldrum hans með kökum og kræsingum.

Þegar tími gafst til þess að sinna félags- og íþróttalífinu var Halldór mjög virkur. Hann stóð fyrir skólaböllum og við félagarnir tókum þátt í áformum hans og höfðum gaman af.

Halldór var mjög liðtækur í körfubolta og mikill fylgismaður KR og þar tókumst við oft skemmtilega á bæði í leik og með því að metast og kýtast um stöðu KR og Fram sem ég studdi.

Halldór var á margan hátt einstakur og alltaf var stutt í brosið og léttleikann. Hann bjó við meiri efni en flest okkar hinna en fór vel með það og það steig honum ekki til höfuðs. Í einu skólaferðalagi okkar til Akureyrar sem var skipulagt þannig að farið var í rútu og búið á farfuglaheimili fór Halldór ekki með okkur hinum heldur flaug norður, leigði sér jeppa og bjó á KEA. Þegar við renndum í hlað á Akureyri þá tók Dóri á móti okkur á jeppanum sínum og þar sem hann hafði gert samning við Kristján föður sinn um að snerta ekki áfengi fyrr en á tvítugsaldri þá nutum við þess að keyra um Akureyri með Dóra undir stýri og skemmtum okkur konunglega

Þegar mér bárust fréttir af fráfalli Halldórs þá var mér mjög brugðið og minningar um góðan dreng sem var mörgum góðum eiginleikum gæddur komu upp í hugann.

Fjölskyldu hans sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur um leið og ég kveð góðan vin.

Rafn Benedikt Rafnsson.

Kæri yndislegi Dóri.

Trúði því ekki þegar ég heyrði þær sorgarfréttir að þú værir fallinn frá. Ég kynntist þér fyrst þegar ég byrjaði að vinna fyrir No Name. Alltaf varstu með bros á vör og gefandi góð ráð um sölu. Þegar ég flutti til Arizona fóruð þið Kristín með mig út að borða á Grillið á Hótel Sögu, yndislegt kvöld og þið kvödduð mig vel. Seinna þegar ég flutti aftur heim að námu loknu og kynntist Óla Tryggva manni mínum, komst þú aftur inn í mitt líf. Ég og Óli vorum nýbyrjuð að hittast og hann fór með mig upp í bústað á Þingvöllum, fljótlega eftir matinn bankaðir þú uppá og þá urðu fagnaðarfundir með okkur.

Við gátum setið marga tíma og talað um sameiginleg áhugamál, Bandaríkin og sölu- og markaðsmál. Fróður og vel inní öllum hlutum, alltaf gaman að spjalla við þig. Þú varst höfðingi heim að sækja og ósjaldan gistum við Óli með börnin uppí bústað hjá þér. Þú og Óli að elda, enda báðir miklir matmenn, síðan var sest eftir matinn og spjallað fram eftir nóttinni. Dvölinni lauk alltaf með pönnukökum, eggjum og beikoni; yndislegur tími.

Þegar sonur okkar, hann Tryggvi, fæddist þá varst þú svo spenntur enda mikil barnakall, pantaðir frá Tiffany's silfurskeið með upphafsstöfum hans og gafst honum á skírnardaginn. Góðar stundir áttum við saman þegar þú komst nokkrum sinnum í mat til okkar og við elduðum chili, ég gerði alltaf grín að ykkur Tryggva, þið voruð svo miklir vinir að þið voruð að þræta eins og hjón, mikill missir hjá Tryggva. Mesta sorgin finnst mér, elsku Dóri, að þú hafir aldrei eignast börn sjálfur, þú hafðir svo mikið að gefa, svo mikla ást. Það verður skrítið að fara uppí bústað til Tryggva og þú ekki í þínum bústað, ég man ekki eftir að hafa farið til Þingvalla án þess að hitta þig, elsku Dóri.

Sendum samúðarkveðjur til Bjössa, Eddu Birnu og fjölskyldu, einnig til Kristínar.

Hvíldu í friði, elsku vinur.

Inga Reynis, Óli Tryggva

og börn.