Ósk Hallsdóttir fæddist á Steindyrum á Látraströnd í Grýtubakkahreppi í S-Þing. 19. júní 1923. Hún andaðist á Landspítalanum Fossvogi 16. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Hallur Steingrímsson, útvegsbóndi á Látrum á Látraströnd, f. á Kaðalstöðum í Grýtubakkahreppi 2. maí 1898, d. 14. des. 1935, og Anna Kristrún Sveinsdóttir, f. á Hóli í Grýtubakkahreppi 23. nóv. 1901, d. í Hrísey 18. apríl 1976. Ósk átti eina systur, Hildi, f. 20. desember 1925, d. 6. ágúst 1971. Hún giftist Jóhannesi Jónssyni, f. 4. ágúst 1917, d. 28. mars 1974, þau eignuðust tvær dætur. Ósk ólst upp á Látrum á Látraströnd frá tveggja ára aldri til tólf ára er faðir hennar og föðurafi urðu úti á jólaföstu, fluttist þá móðir hennar til Hríseyjar með dætur sínar en foreldrar hennar bjuggu þar.

Ósk giftist 2. júní 1942 Garðari Sigurpálssyni, f. í Flatey á Skjálfanda, 2. júní 1921. Þau eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Hulda, f. 9. maí 1942, gift Erling Jóhannessyni, þau eiga fjögur börn og níu barnabörn. 2) Alma, f. 7. janúar 1946, gift Jóni Guðmundssyni, þau eiga fjögur börn, fimmtán barnabörn og eitt barnabarnabarn. 3) Sigurpáll Hallur, f. 16. ágúst 1954, kvæntist Guðrúnu Njálsdóttur, f. 18. nóv. 1950 d. 5. nóv. 2006, þau skildu, þau eignuðust þrjár dætur en Guðrún átti einn son fyrir og eru barnabörn þeirra fjögur.

Ósk var heimavinnandi húsmóðir, en var í síldarsöltun á sumrin. Hún réri ásamt eiginmanni sínum á bát þeirra Halli EA 260 síðustu 18-19 árin sem þau hjón bjuggu í Hrísey. Árið 1997 fluttu þau frá Hrísey og settust að í Hafnarfirði, þar sem þau hafa búið síðan.

Útför Óskar fer fram frá Víðistaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku besta mamma mín, eins sárt og það var að kveðja þig þá er ég svo þakklát fyrir að þú fékkst lausn frá veikindum þínum. Mér varð oft hugsað til þess þegar ég sat við rúmið þitt og hélt í höndina á þér hversu mild og góð móðurhöndin þín var, alltaf tilbúin að strjúka yfir lítinn koll og þerra tár af hvarmi. Þú vildir sem minnst þiggja, en varst ávallt tilbúin að gefa. Þú varst ein sú gestrisnasta manneskja sem ég hef kynnst í lífinu. Það var alveg sama þó að fólk kæmi að óvörum þú áttir alltaf lágmark níu sortir til að setja á borðið. Þjónustulundin þín og þolinmæðin var einstök. Þú varst alltaf jafnástfangin af honum pabba og vildir allt fyrir hann gera, börnin þín og barnabörnin fóru ekki varhluta af kærleika þínum þú breiddir þig yfir okkur öll og fyrir það erum við þakklát og elskum þig öll. Takk, mamma, fyrir lífið sem þú gafst mér.

Takk fyrir allar bænirnar, sem þú kenndir mér og seinna börnunum mínu.

Takk fyrir bænirnar þínar fyrir mér og mínum.

Takk fyrir að styðja okkur á erfiðum stundum í lífi fjölskyldunnar.

Takk fyrir að leggja á þig að koma ásamt pabba öll jól eftir að amma dó.

Takk fyrir allar góðu móttökurnar, bæði heima í Hrísey og á Tinnuberginu í Hafnarfirði, og síðast en ekki síst takk fyrir fóstrið á drengjunum mínum þegar þeir komu til ykkar pabba á sumrin og oftar.

Pabbi minn, missir þinn er mikill, það er erfitt að missa lífsförunaut sinn sem maður hefur haft við hlið sér í tæp sjötíu ár. Ég bið þess að okkur systkinunum auðnist að annast vel um þig og bið góðan Guð að senda þér og okkur öllum styrk í sorginni.

Elsku mamma mín, ég veit að þú áttir góða heimkomu, ég bið Guð að gæta þín og umvefja þig kærleiksljósi. Ég þakka þér fyrir allt, elsku mamma mín. Við munum hittast í fyllingu tímans. Ég elska þig, mamma.

Nú til hvíldar leggst ég lúin,

lát mig, Drottinn, sofa rótt;

hvílan faðminn breiðir búinn,

blessuð kom þú draumanótt.

Vef mig þínum ástararmi,

englar Guðs mér vaki hjá;

friðardagsins blíði bjarmi,

bráðum ljómar himni á.

(Guðmundur Finnbogi Helgason.)

Að lokum vil ég senda öllu starfsfólki á B2 taugadeild Landspítala í Fossvogi mínar bestu þakkir fyrir frábæra umönnun og hlýju sem þau sýndu mömmu og okkur öllum, Guð blessi ykkur og störf ykkar.

Alma.

Fyrir fjörutíu og þremur árum kom ég fyrst inn á heimili Óskar og Garðars, það var þegar ég var að gera hosur mínar grænar fyrir Ölmu dóttur þeirra, sem nú er konan mín. Það var alltaf jafngott að koma til þeirra, móttökurnar hlýjar og notalegar, og eitt er alveg á hreinu, að aldrei gekk nokkur maður svangur frá þeirra borðum.

Ósk var einstök móðir og amma og ekki var hún síðri tengdamóðir. Með einstakri alúð og umhyggju breiddi hún sig yfir ástvini sína og vildi allt fyrir þá gera. Mér eru ofarlega í huga heimsóknir fjölskyldunnar til Hríseyjar á sumrin, það var beðið í spenningi eftir að sjá Hrísey birtast af þjóðveginum fyrir utan Rauðavík og þá kölluðu allir Hríseyyyyy, svo undir tók í bílnum. Þá voru allir orðnir ferðalúnir og svangir og hlökkuðu til að koma heim í hangikjöt og kartöflustöppu sem beið alltaf á borðum. Ósk þótti einstaklega vænt um eyjuna sína, fjörðinn og æskustöðvarnar á Látrum og var gaman að hlusta á hana segja frá liðnum dögum. Ég dáðist að tengdamóður minni fyrir dugnað hennar og áhuga á sjómennskunni, því hún reri með Garðari á bátnum þeirra, Halli, í tæp tuttugu ár og voru þetta hennar bestu stundir því hún naut sjómennskunnar. Það er margs að minnast en ég læt hér staðar numið.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Garðar minn, Hulda, Alma og Palli, missir ykkar er mikill og bið ég Guð að senda ykkur og okkur öllum styrk í sorginni. Ég kveð tengdamóður mína með virðingu og þökk fyrir allt sem hún var mér.

Jón Guðmundsson.

Hér sitjum við systurnar og hugsum til baka um allar þær góðu minningar sem við eigum um Ósk ömmu, þegar farið var til Hríseyjar einu sinni á sumri; spenningurinn þegar komið var yfir hæðina og hvert af okkur systkinunum væri fyrst að sjá eyjuna. Þegar út í eyju var komið þá var farið heim að húsinu með allt hafurtaskið í hjólbörum. Útidyrahurðin opnuð og var byrjað á því að anda að sér allri ömmulyktinni sem var svo góð. Það var mikið brallað úti í eyju og var sérstaklega gaman að leika í búinu niðri í kjallara sem amma og afi höfðu útbúið svo fallega fyrir okkur, allir gömlu hlutirnir sem amma hafði arfleitt okkur af og voru þeir gull í okkar augum. Ekki skemmdi að við vissum að alltaf væri til Fanta og Blokk-súkkulaðið sem bragðaðist bara vel hjá ömmu. Minning um það þegar við vorum sendar með matarafgangana til þess að gefa hænunum hennar Alvildu, og stóð okkur ekki alltaf á sama þegar sú ferð var farin. Okkur fannst við vera komin í annan heim þegar út í Hrísey var komið. En þetta voru ekki einu skiptin sem við hittum þau því jólin voru sá árstími sem allir biðu með tilhlökkun því ekki gátu jólin komið ef amma og afi komu ekki, en aldrei brást það. Og hvar þau ættu að vera hver jól, því þau skiptu sér á milli mömmu, Huldu frænku eða Palla frænda og fannst okkur það mjög sárt ef þau voru ekki hjá okkur, og alltaf þurfti mamma að útskýra röðina aftur og aftur.

Árið 1997 fluttu þau í Hafnarfjörðinn til þess að vera nærri börnunum sínum og var það okkur mikil gleði að geta farið til þeirra þegar við vildum. Aldrei komum við að tómum kofanum hjá ömmu, alltaf var uppdekkað borð með tertum og soðnu brauði og ekki hætti amma þessu þótt sjónin hennar væri lítil, því ef maður gerir sama hlutinn aftur og aftur þá hlýtur hann að lærast á endanum og var þetta svoleiðis hjá ömmu, allt gert eftir tilfinningunni. Við gætum haldið endalaust áfram með minningar um Ósk ömmu því þær eru margar og allar góðar, en hér látum við staðar numið og þökkum þér, elsku amma, hvað þú varst okkur blíð og góð.

Elsku afi, mamma, Hulda og Palli, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Hvíl í friði, elsku Ósk amma.

Þínar ömmustelpur,

Ósk og Herdís Jónsdætur.

Elsku elsku amma mín, við ferðalok þín hér meðal okkar á jörðinni er rétt að setja niður nokkur orð um þá blessun sem fylgdi því að mega hafa átt samvistir við þig þann tíma sem guð gaf.

Trú þín á guðdóminn og englana var eitt af aðalsmerkjum þínum, það ljómaði af þér þegar þú fórst með bænir því að baki hverju orði bjó kærleikur svo djúpur og markandi að lítill drengur býr að honum enn og vonandi um ókomna tíð. Þessi hreina barnatrú þín byggðist fyrst og fremst á vissu sem lagði grunn að lífi þínu og um leið annarra sem þú áttir samvistir við.

Í starfi mínu hef ég oft þurft að nýta mér þá auðlegð sem þú svo gjarnan gafst af, ég þakka þér af heilum hug fyrir að hafa markað mig með þinni trúfestu, ég þakka þér þó mest fyrir að hafa verið amma mín elsku vina.

Ég veit að nú nýtur þú þín með öllum þeim sem þú elskaðir svo heitt og höfðu lagt í ferðina áður. Dæda systir þín mun eflaust sýna þér fallega garðinn sem þú ræktaðir sjálf með lífi þínu og starfi, Hallur pabbi þinn er spenntur að sýna þér alla dýrðina í heimi andans og hún Anna mamma þín er tilbúin með uppábúið rúm í bjartasta herberginu í fallega húsinu við hafið, sem hún Gunna þín hefur skreytt með sínu fallega föndri, já amma mín þú átt marga að sem elska þig mikið.

Afi minn, enn og aftur átt þú mína aðdáun, þú stóðst við hlið ömmu og vékst ekki frá henni, kærleikurinn, ástin og virðingin sem þú hefur alltaf sýnt, hjálpaði henni síðustu skrefin inn í annan heim og mundu, kæri vinur, að ekkert fær aðskilið anda sem unnast.

Mamma, Hulda og Palli, umhyggja fyrir foreldrum ykkar endurspeglaðist svo sannarlega þessa síðustu daga móður ykkar á jörðinni, að standa við rúmið, strjúkandi hendur og höfuð þegar amma kvaddi verður að dýrmætri minningu þegar ævinni hallar, amma var sæl því hún hafði hjá sér allt sem hún óskaði sér, eiginmann sinn og börnin sín þegar hún kvaddi.

Þar sem Gullblómið grær

ekkert illt þar að finna

þó að flestum finnist fjær

þá vil ég á það minna.

Kærleikans móðurmál

er guð í þinni sál.

Guðdómsins viskuskál

er hjartans innsta bál.

Guð og englar blessi þig, amma mín.

Þinn

Garðar.

Við kveðjum að sinni með söknuði elskulega ömmu okkar – ömmu í Hrísey – þakklát fyrir öll árin sem hennar naut við.

Hann er orðinn vænn sjóðurinn sem elsku amma var svo dugleg að leggja inn á. Sjóður góðra og skemmtilegra minninga sem munu ylja okkur um ókomin ár og gott er að rifja upp nú þegar komið er að kveðjustund.

Minningar um ömmu á bryggjunni í Hrísey að taka á móti okkur fagnandi með opinn faðminn. Sumardvöl hjá ömmu og afa í áhyggjuleysi, umvafin ást og umhyggju. Amma við miðstöðvarofninn í eldhúshorninu að troða „Half & Half“-tóbaki í pípuna sína. Amma að hengja upp drifhvítan þvott á útisnúru við Norðurveg 4 í Hrísey. Amma að koma úr Kaupfélaginu með heila belju af mjólk, tíu lítra, sem hún bar svo léttilega í neti.

Amma að baka, elda og reiða fram dýrindis veisluhlaðborð. Amma að banka mottur og mublur úti á stétt. Amma að senda okkur með hænsnadallinn til Alvildu á móti. Amma að hekla milliverk og prjóna. Amma að minna okkur á að börn ættu að hafa hægt um sig og halda sig innan dyra þegar jarðarför færi fram í Hrísey, það væri virðingarvottur við hinn látna og fjölskyldu hans. Amma að fara með og kenna okkur bænir á kvöldin. Amma tilbúin í sjógalla, vel nestuð á leið í róður með afa á Halli EA 230. Á sjónum naut amma sín, horfði yfir á Látraströndina og rifjaði upp ljúfsárar minningar æskuáranna en föður sinn og afa missti hún 12 ára gömul í ofsaveðri í desember 1935. Móður ömmu, Önnu Kristrúnu, bjuggu þau afi skjól og ljúf er minningin um langömmu í horninu sínu í eldhúsinu. Er árin liðu vöndu amma og afi komur sínar suður um jólin. Við krakkarnir vorum alveg að farast úr spenningi og eftirvæntingu þegar þau komu með rútunni rétt fyrir jólin með marga dunka af kleinum, soðbrauði, randalínum, smákökum og harðfiski. Gott var að skríða í faðm þeirra þegar þau komu loksins.

Fyrir réttum tíu árum kvöddu amma og afi eyjuna sína Hrísey og fluttu til Hafnarfjarðar. Gott var að fá tækifæri til að njóta oftar samvista við þau. Ávallt stóðu dyr þeirra opnar og enginn fór svangur frá Oddu ömmu. „Nú ætla ég að hita kaffi,“ sagði amma og ekki þýddi að mótmæla. Raspterta, súkkulaðiterta og endalaust góðgæti var borið á borð.

Afi var stoð og stytta ömmu og með hjálpsemi sinni gerði hann henni kleift að bjástra í eldhúsinu eins og hún var vön og vildi gera, þótt sjón hennar væri farin að daprast mjög.

Elsku amma, við söknum þín mikið og varðveitum hjartkærar minningar um þig. Afi, þú hefur misst mest en við verðum að sleppa um stund þeim sem við elskum mest og njóta þeirra ævidaga sem okkur eru gefnir. Guð geymi þig elsku amma og veiti Garðari afa, mömmu, Ölmu, Palla og öðrum ástvinum styrk.

Við vitum að þú vakir yfir okkur elsku amma.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Ellý, Emil og börn,

Jóhannes Garðar, Dagný og börn, Lena, Þóroddur og börn,

Davíð Halldór.

Langamma var góð, ég vildi óska þess að hún væri hér enn.

Alltaf þegar við komum í heimsókn gáfu langamma og langafi okkur eitthvað gott að borða og dekruðu við okkur. Ég man hvað ég var glöð þegar ég fekk Barbie-teppið í jólagjöf sem hún heklaði sjálf. Svo missti langamma nærri því alla sjónina en samt var hún alltaf jafn dugleg og glöð.

En svo veiktist hún og þurfti að fara á sjúkrahúsið og þegar við komum þangað til að hitta hana þá var hún mjög veik og þegar ég horfði á hana fór ég næstum að gráta að sjá hana svona veika, henni leið svo illa.

Það var líka erfitt að kveðja hana.

En nú líður henni vonandi vel.

Lilja Bjarklind Garðarsdóttir.

Það er mér enn í fersku minni dagurinn sem ég hitti þau heiðurshjón Garðar og Ósk sem hér er minnst, í fyrsta sinn. Ég hafði nokkrum mánuðum árum kynnst dóttursyni þeirra, Garðari og nú var komið að því að kynna mig fyrir þeim. Daginn fyrir Þorláksmessu árið 1984 fórum við Garðar niður á Akraborgarbryggju til að taka á móti þeim hjónum sem voru að koma í heimsókn á Akranes yfir jólin. Þau gengu rösklega niður landganginn með töskur og pinkla, enda alvanir sjófarendur þar á ferð og vön minni fleytum en Akraborginni. Þegar fast land var undir fótum settu þau farangurinn niður og ég var föðmuð og kysst eins og þau hefðu alltaf þekkt mig. Ég þurfti því ekkert að kynna mig eða sanna mig og þannig hafa þau tekið öllum sem bæst hafa í fjölskylduna, með kærleika og hlýju.

Ósk hafði marga mannkosti, hún var hlý, kærleiksrík, þolinmóð og jafnlynd. Hún var einstaklega vandvirk og allt sem hún gerði, gerði hún af natni. Hún hafði samt sem áður sterkar skoðanir sem hún stóð fast á þegar sannfæring hennar bauð svo. Ósk fór ekki leynt með þá skoðun sína að hlutverk kvenna væri fyrst og fremst að sinna heimili og börnum, hvað sem yngri konur reyndu að sannfæra hana um annað. Samt sem áður var hún ákveðin brautryðjandi því það eru sennilega ekki margar konur á Íslandi sem hafa stundað sjómennsku af sama kappi og hún gerði.

Ósk hugsaði um fjölskylduna sína af mikilli alúð og væntumþykju fram á síðasta dag. Við þökkum henni elsku hennar og söknum hennar sárt. Elsku Garðari afa vil ég færa mína innilegustu samúð og bið góðan Guð að styrkja hann í sorginni. Þegar maður hefur átt mikið er mikils að sakna.

Í Korintubréfi er kærleikanum lýst á þennan veg:

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.

Kærleikurinn öfundar ekki.

Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.

Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,

hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.

Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.

Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Og þannig var Ósk Hallsdóttir.

Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Ósk langamma var alltaf svo blíð og góð og verður það alltaf.

Henni leið alltaf svo illa í líkamanum sínum, en var svo glöð að komast til guðs og englanna.

Elska þig amma mín

Stefán Kaprasíus Garðarsson.