Athygli Nate Brown sækir að Damon Bailey og Hreggviður Magnússon er með Egil Jónasson í strangri gæslu.
Athygli Nate Brown sækir að Damon Bailey og Hreggviður Magnússon er með Egil Jónasson í strangri gæslu. — Árvakur/G.Rúnar
ÞAÐ voru sannarlega sviptingar þegar ÍR lagði Njarðvík í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. ÍR-ingar skutust með sigrinum upp fyrir Snæfell en bæði lið eru með 12 stig í 6. og 7. sæti deildarinnar.

ÞAÐ voru sannarlega sviptingar þegar ÍR lagði Njarðvík í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. ÍR-ingar skutust með sigrinum upp fyrir Snæfell en bæði lið eru með 12 stig í 6. og 7. sæti deildarinnar. Þrjú lið eru með 10 stig, Tindastóll, Þór og Stjarnan sem á leik til góða. Keflvíkingar halda uppteknum hætti og lögðu Þór á Akureyri og Skallagrímsmenn höfðu betur gegn Tindastóli.

Eftir Einar Sigtryggsson og Gylfa Árnason

Leikur ÍR og Njarðvíkur í Seljaskóla var kaflaskiptur svo vægt sé til orða tekið. Njarðvíkingar byrjuðu betur, voru 26:18 yfir eftir fyrsta leikhluta og 45:34 í leikhléi. En það er ekki nóg því leikurinn er fjórir hlutar og í þeim næsta tókst ÍR að laga stöðuna, vann þriðja leikhluta 28:17 og staðan 62:62 þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst. Í honum höfðu ÍR-ingar betur, 28:24 og fögnuðu mikilvægum sigri.

Nate Brown, Hreggviður Magnússon og Eiríkur Önundarson voru sterkir í liði ÍR sem og Sveinbjörn Claessen en hjá Njarðvík var Damon Bailey bestur og þeir Brenton Birmingham, Friðrik Stefánsson og Jóhann Ólafsson áttu ágætan leik.

Keflavík með enn einn sigurinn

Keflvíkingar lentu í kröppum dansi á Akureyri þegar þeir sóttu Þórsara heim. Leikurinn var jafn og hörkuspennandi allt þar til í lokaleikhlutanum en þá datt hittni heimamanna algjörlega niður og Keflvíkingar stungu af. Á endanum skildu sextán stig en Þórsarar leiddu eftir þriðja leikhlutann með einu stigi. Lokatölur 72:88.

Leikurinn var nokkuð skringilegur, jafn allan tímann en hvort lið tók sínar rispur þannig að forustan skipti um hendur hvað eftir annað. Luka Marolt leiddi Þórsara með frábærum fyrri hálfleik og skoraði þá 24 af 28 stigum sínum. Á meðan skoraði Cedric Isom ekki stig og Óðinn Ásgeirsson aðeins eitt en þeir tveir hafa verið atkvæðamestir Þórsara í vetur. Keflvíkingar náðu aldrei að hrista heimamenn af sér og voru greinilega orðnir dálítið pirraðir enda áttu þeir í miklu basli.

Staðan var 45:44 fyrir Þór í hálfleik og í þriðja leikhluta hélt barningurinn áfram. Cedric Isom skoraði 13 stig í röð fyrir heimamenn og Luka bætti við sínum síðustu stigum. Enn leiddi Þór en þegar í lokaleikhlutann kom var eins og lok hafði verið sett á körfu Keflvíkinga því Þór skoraði aðeins tíu stig á meðan Keflvíkingar léku á als oddi og röðuðu niður körfum í öllum regnbogans litum. Þeir náðu á augabragði tíu stiga forskoti og bættu svo við allt til loka.

Mikil barátta einkenndi leik heimamanna en Luka og Jón Orri Kristjánsson voru þeirra bestu menn. Cedric var svo drjúgur og Magnús Helgason hitti vel úr þriggja stiga skotunum. Gestirnir skörtuðu Bobby Walker og Tommy Johnson sem báðir spiluðu vel en Magnús Gunnarsson og Þröstur Jóhannsson stóðu einnig fyrir sínu.

Góður sigur Skallagríms

Skallagrímur vann góðan sigur á Tindastóli 90:81 í kaflaskiptum leik sem þó var hörkuspennandi fram á síðustu mínútu. Leikmenn Skallagríms sýndu afburða karakter í leiknum og unnu vel úr sínu þrátt fyrir mótlæti um tíma.

Það var strax á upphafsmínútum leiksins ljóst að Tindastólsmenn ætluðu að láta Skallagrímsmenn hafa fyrir hlutunum. Tindastóll hafði yfirleitt um tíu stiga forskot alveg þar til um miðjan þriðja leikhluta. „Við vorum miklu betri í 25 mínútur og það var aumingjaskapur að klára þetta ekki. Lið sem skorar ekki stig í 5 mínútur og fær á sig 56 stig í seinni hálfleik tapar leiknum, það er nokkuð ljóst,“ sagði Kristinn Friðriksson þjálfari Tindastóls eftir leikinn.

Þetta stemmdi við það sem Ken Webb þjálfari Skallagríms hafði um leikinn að segja. „Á þeirri stundu sem mínir menn ákváðu að einbeita sér að varnarleiknum þá fóru hlutirnir að gerast. Sóknarleikurinn sér um sig sjálfur þegar varnarleikurinn gengur vel.“

Vendipunkurinn í leiknum var í þriðja leikhluta þegar varnarleikur Skallagríms fór að skila árangri. Þá breyttu Skallagrímsmenn stöðunni úr 44:54 í 64:66 og voru komnir inn í leikinn.

Bestu menn Skallagríms voru Hafþór Gunnarsson og Darrel Flake. Hafþór missti aldrei dampinn, hvorki í vörn eða sókn og skoraði 22 stig. Darrel Flake fór rólega af en lét verulega finna fyrir sér í 3ja leikhluta þegar hann skoraði 18 stig á 10 mínútum. Alls skoraði hann 36 stig í leiknum. Allan Fall var öflugur og nýtur þess að gera ólíklegustu hluti bæði með sendingum sínum og gegnumbrotum.

Skallagrímsmenn virtust vera með unninn leik þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Þá misstu þeir þrjá lykilmenn útaf með 5 villur, fyrst Pétur Sigurðsson, þá Allan Fall og loks Darrel Flake. Staðan var 84:78 og allt gat gerst. Zokovic er hálfmeiddur svo þetta stóð nokkuð tæpt. Tindastólsmenn fóru að brjóta á Skallagrímsmönnum til að vinna tíma. Þessa prófraun stóðust eftirlifandi Skallagrímsmenn mjög vel. Reyndar býður leikmannahópur Skallagríms ekki upp á brottvísanir í svo miklum mæli.

Hjá Tindastól var nýi leikmaðurinn Joshua Buettner bestur. Þetta er stór og fjölhæfur leikmaður og skoraði 27 stig. Ísak Einarsson var skæður um tíma í þriggja stiga körfum en sást lítið í seinni hálfleiknum.

Niðurstaðan var enn einn verðskuldaður heimasigur Skallagrímsmanna.