Þorsteinn Bjarnason fæddist í Syðri-Tungu á Tjörnesi 18. mars 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík 18. janúar síðastliðinn. Hann var elstur sjö systkina, sem voru, auk hans, Sigtryggur búsettur í Steindal á Tjörnesi, Ingvar og Ingibjörg sem bæði létust í bernsku, Jóhanna Björg látin, Elísabet Anna búsett á Mánárbakka á Tjörnesi og Árný búsett á Akureyri.

Kona Þorsteins var Ólöf Sigríður Friðriksdóttir, nú látin.

Þorsteinn óx upp í föðurgarði og stundaði nám við smíðadeild Héraðsskólans á Laugum í tvo vetur. Hann hélt ungur til vertíða í Vestmannaeyjum og var þar í 10 ár á vorvertíð bæði sem háseti og landmaður. Hann tók við búskap í Syðri-Tungu, fyrst með foreldrum sínum og svo með Ólöfu, uns þau brugðu búi sökum heilsubrests og fluttu til Húsavíkur. Meðfram búskapnum stundaði Þorsteinn grásleppuveiðar á vorin og reri ögn til fiskjar á sumrum auk þess að stunda ýmsa daglaunavinnu utan heimilis og vinnu við sláturhúsið á haustin. Síðustu árin var Þorsteinn heimilisfastur á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga.

Útför Þorsteins verður gerð frá Húsavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm

sólvermd í hlýjum garði;

áburð og ljós og aðra virkt

enginn til þeirra sparði;

mér var þó löngum meir í hug

melgrasskúfurinn harði,

runninn upp þar sem Kaldakvísl

kemur úr Vonarskarði.

(Jón Helgason.)

Að vaxa úr grasi í túnfætinum hjá þér, Steini minn, var sannarlega dýrmætt. Þó ekki væri alltaf kyrrlátt á Syðri-Tungu heimilinu og oft gustaði hressilega frá frænda þegar við systkinin fórum heldur mikinn í leikjum, tókum ýmislegt traustataki sem fremur var ætlað til vinnu en leikfanga þá er það nú samt svo að flestar minningar frá bernskunni eru heldur ánægjulegar og við fengum að gera ýmislegt sem nú myndi sennilega orka tvímælis að hollt væri ungum börnum Það sannaðist á þér, Steini minn, að ekki er sama menntun og skólaganga. Þín skólaganga var ekki löng en þú varst vel menntaður maður. Þú varst hafsjór af fróðleik og bar þar hæst þjóðlegan fróðleik, íslensku og ljóð. Þeir sem heyrðu þig fara með kvæðið Áfanga eftir Jón Helgason gleyma því seint. Ég sé þig fyrir mér sitja við eldhúsborðið í Tungu og fara með þetta magnaða kvæði með þvílíkum áherslum og rómstyrk að flutningurinn hefði sómt sér í hvaða menningarhúsi sem vera kann. Sjálfur ortir þú líka fallegar vísur og ljóð sem eru þér til sóma, og okkur til ánægju.

Ekki kom þér til hugar að leggja árar í bát þó heilsa og kraftar þrytu. Þá fannst þú þér ný verkefni sem þú gast leyst af hendi. Trúlega hefði það einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að Þorsteinn í Syðri-Tungu sæti við að sauma púðaborð og mála á fína dúka. En þú náðir tökum á þessari iðju og hafðir gaman af, já, alltaf tilbúinn að reyna eitthvað nýtt. Hrein snilld er myndin af ykkur Stebba þegar hann fór með þig niður í bæ í hjólastólnum þínum á Mærudögum og þið eruð að gæða ykkur á austurlenskum mat. Það reyndar minnir mig á þegar þú fórst eitt sinn suður og gast hvorki fengið skyr, kjötsúpu né hangikjöt í Staðarskála þá sagðir þú furðu lostinn með þrumuraust; hvað er þetta, er ekki hægt að fá hér almennilegan íslenskan mat? Í sömu ferð varð þér að orði þegar stoppað var á Kambabrún og þú horfðir yfir Suðurland; ja, ég vissi nú að það væri flatt en svona flatt datt mér ekki í hug að það gæti verið. Já, víst áttir þú mörg gullkornin, Steini minn.

Það þótti líka mörgum djarflegt þegar þú fjárfestir í fartölvu sem ég hef svo verið að hjálpa þér með að setja inn í myndir sem þú hefur tekið á lífsleiðinni. Það hefur verið skemmtilegt verkefni.

Síðast kom ég til þín á annan dag jóla og þá ræddum við um hve það væri gaman að nú væri aftur komin Guðný og Inga litla í fjölskylduna og þannig endurtæki tíminn sig. Þú sagðir það vera alveg dásamlegt, Guðný og Inga litla, það væru alltaf sínar uppáhaldsstúlkur. Elsku Steini minn, ég kveð þig með söknuði en gleðst þó einnig yfir því að þú skulir fá að hverfa til nýrra landvinninga í eilífðarlandinu, ég kveð þig með þakklæti fyrir allt það góða sem ég hef notið af nærveru þinni og bið góðan Guð að gæta þín í eilífðinni.

Ingibjörg Sigtryggsdóttir (Inga).

Það er margs að minnast og margt að þakka þegar ég kveð föðurbróður minn Þorstein Bjarnason eða Steina eins og hann var oftast kallaður.

Ég og systkini mín hlutum þau forréttindi að alast upp í túnfætinum hjá afa og ömmu í Syðri-Tungu þar sem Steini bjó flestöll ár ævi sinnar, fyrst með foreldrum sínum og síðar með Ólöfu konu sinni.

Þær eru því óteljandi ferðirnar sem ég fór upp í Tungu sem krakki til að heimsækja afa, ömmu og Steina.

Frændi virtist alltaf hafa tíma fyrir mann og reyndi í hvívetna að kenna manni og leiðbeina. Hann fór með vísur og gátur fyrir mann og var það oft hin besta skemmtun að ráða gáturnar, hann þreyttist aldrei á að þurfa að fara aftur og aftur með sömu vísuna eða gátuna þangað til maður kunni hana utan að.

Stundum var maður líka til gagns og hjálpaði til við búskapinn og fékk maður þá mikið hrós og þakklæti fyrir, stundum fékk maður líka suðusúkkulaði eða kamfóru í sykurmola en það síðarnefnda er nokkuð sem ég ávallt mun tengja við frænda minn. Með sínum stóru höndum tekur hann þessa litlu flösku, reynir að hella varlega nokkrum dropum í sykurmolann svo góðgætið verði ekki of sterkt fyrir mig en það tekst yfirleitt ekki því fínhreyfingar voru ekki frænda sterkasta hlið og varð því molinn gegndrepa af kamfóru en bragðið var gott, sinn skammt tók frændi með skeið og gretti sig mikið við athöfnina. Það eru þessi litlu atriði sem fá mann til að brosa þegar að kveðjustund er komið og víst er gott að geta kvatt einhvern og brosað yfir öllum þeim góðu stundum sem maður hefur átt með honum og víst eru þær margar og góðar stundirnar sem ég átti í Tungu.

Þegar Steini og Ólöf hættu búskap keyptu þau sér íbúð á Húsavík til að geta eytt þar síðustu árunum saman í rólegheitum og snúið sér að sínum áhugamálum. Það var mikil tilhlökkun hjá Steina að hafa tíma til að ferðast um landið sitt sem hann var svo fróður um og einnig voru áform um að fara til útlanda. Því miður hrakaði heilsu þeirra hjóna fljótt og ekki varð öllu komið í framkvæmd eins og áform voru um. Steini átti þó góðar stundir bæði með Ólöfu og fólkinu sínu en hann fylgdist alltaf vel með hvað afkomendurnir höfðu fyrir stafni.

Ég er svo þakklát fyrir allar þær stundir sem ég átti með Steina og nú síðast í desember áttum við systkinin með honum góða stund og drukkum með honum aðventukaffi. Ég gerði mér þó ekki grein fyrir því að ég væri að kveðja hann í síðasta sinn og er dauðinn ætíð sár þótt maður vissi að hverju stefndi.

Elsku frændi, ég kveð þig með þökkum fyrir allt og allt.

Þín bróðurdóttir

Fjóla Sigrún.

Elsku frændi. Mig langaði til að kveðja þig með nokkrum orðum og þakka þér fyrir margar góðar og lærdómsríkar samverustundir í gegnum árin.

Fyrsta eina og hálfa árið í lífi mínu bjuggum við mamma hjá afa, ömmu og þér í Syðritungu, en fluttum svo fram í Reykjadal. Árin liðu og þær urðu ófáar ferðirnar sem ég kom í heimsókn, fyrst með mömmu og síðan ein með mjólkurbílnum. Það var alltaf jafnmikið tilhlökkunarefni að koma til ykkar í heimsókn og fá að sofa í símastofunni, vakna svo á hverjum morgni við það að afi kom inn í herbergi, rölti upp í miðjan stiga, lyfti lofthleranum og kallaði: „Steini, Steini minn, ert þú vaknaður?“ Seinna um morguninn er ég svo að hjálpa ömmu, búa um og laga til. Ég enda alltaf á loftinu þar sem Steini frændi sefur. Þar mætir mér ilmandi kamfórulykt og enn í dag minnir hún mig á þig. Það tók mig oft dágóðan tíma að taka saman og raða öllum bréfum og blaðsnifsum sem lágu hingað og þangað. Það var hitt og annað skrifað á þessi blöð og fljótlega fór ég að stelast til að lesa þau og sá þá að mest voru það vísur og vísupartar sem þú varst að búa til, nokkuð sem þú hélst svo áfram alla ævi að gera. Það var nú ekki alltaf auðvelt að geta sér til um hvað stæði á miðunum og ég man að mamma sagði stundum þegar ég var lítil að ég skrifaði álíka illa og frændi í Tungu.

Þú varst líka óþreytandi að fræða okkur krakkana, hvort sem það voru vísur, Íslendingasögurnar, landafræði, gamla tímatalið eða bara hvernig ætti að sópa gólf. Þú treystir okkur líka til að geta gert ýmsa hluti sem öðrum fullorðnum hefði varla dottið í hug eins og þegar við Fjóla vorum að „ráðskast“ fyrir ykkur afa.

Ég met það nú eflaust betur í dag, allt sem ég lærði hjá ykkur þremur, en ég gerði þá og oft koma þessir gömlu góðu dagar upp í hugann. Seinna þegar afi var dáinn og amma farin á sjúkrahús varst þú ýmist einn eða með ráðskonu og stóðst þig ekki síður vel þegar þú varst einn. Svo kom Ólöf til þín og þið áttuð saman mörg góð ár. Þegar ég og strákarnir mínir komum í heimsókn varst þú enn tilbúinn að fræða okkur á ýmsum hlutum, andlegum sem veraldlegum. Einhvern veginn var ég alltaf svolítið stolt og leið vel í sálinni þegar ég gat svarað því sem þú baunaðir á mig.

Seinna þegar líkaminn fór að gefa sig fannst mér þú samt ótrúlega duglegur að fara út og gleðjast með öðrum og sjá eitthvað gleðilegt eða fróðlegt.

Þrátt fyrir bilaðan líkama var hugurinn í fullu fjöri. Ég minnist ættarmótsins í Steindal fyrir nokkrum árum þar sem þú varst með okkur, þaðan á ég mynd af þeim elsta og yngsta, þér og Einari Bjarna mínum. Í brúðkaupsafmæli ykkar Ólafar áttum við einnig góða stund saman og þegar við sungum textann þinn um Erluna við lag Einars runnu tár. Það var yndislegt að geta glatt þig og með því þakkað þér fyrir svo margt.

Elsku Steini. Nú veit ég að þú ert kominn til Ólafar þinnar, afa og ömmu og líður vel, ert orðinn heill á ný.

Sofðu vel góði frændi minn og takk fyrir allt og allt.

Eva Björg.