[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þær Björk og Ísabella eru efnilegir fatahönnuðir þrátt fyrir að vera aðeins 13 ára. Þessar bestu vinkonur báru sigur úr býtum í hönnunarkeppni tískukeðjunnar NTC

Eftir Halldóru Þorsteinsdóttur

halldora@24stundir.is

,,Það var rosalega skemmtilegt að taka þátt í svona hönnunarkeppni og gaman að fá verðlaun,“ segir Björk Magnúsdóttir, nemi í 8. bekk Garðaskóla, en hún hlaut hvatningarverðlaun í hönnunarkeppni sem fyrirtækið NTC efndi til í skólanum á haustmánuðum. Besta vinkona Bjarkar, Ísabella Erna Sævarsdóttir, vann fyrstu verðlaun í keppninni en báðar hlutu þær inneign í verslunum NTC að launum.

Hönnuðir framtíðarinnar

Yfirskrift keppninnar var Ferming 2008, en starfsfólk NTC aflaði sér innblásturs hjá keppendum með það fyrir augum að hanna fermingarlínu fyrir vorið. Þær vinkonur eru að vonum hæstánægðar með verðlaunin og segja ekki loku fyrir það skotið að frekara hönnunarnám sé á stefnuskránni í náinni framtíð. „Það er aldrei að vita. Það kemur vel til greina að fara í eitthvað tengt hönnun. Þetta er allavega rosa gaman,“ segja stelpurnar, sem báðar undirbjuggu sig afar vel fyrir keppnina.

,,Við erum búnar að vera svolítið mikið að hanna. Það er góð hönnunardeild í Garðaskóla og gaman að taka þátt í því. Þetta er uppáhaldið og skemmtilegast er að gera föt sem maður sjálfur notar.“

Að sögn Ingu Rósu Harðardóttur, rekstrarstjóra NTC, fengu stelpurnar um fjórar vikur til þess að sníða fötin áður en verslunarstjórar NTC völdu úr flottustu hugmyndunum.

„Þetta var alveg rosalega gaman að sjá hugmyndaflugið hjá stelpunum. Undirtektirnar voru rosalega góðar og hönnunardeildin í Garðaskóla greinilega mjög sterk. Stelpurnar létu ímyndunaraflið ráða og skiluðu inn bæði fínum fermingarfötum og öðrum hversdagsflíkum. Þetta er eitthvað sem við munum gera aftur,“ segir Inga og bætir við að fermingarlínan í ár verði byggð á hugmyndum stelpnanna auk þeirra tískustrauma sem tróna á toppnum um þessar mundir.