Pétur Stefánsson ákvað að verja föstudagskvöldi í sjónvarpsgláp: Þó ég vilji víni í kvöld vel í tána skvetta, eru ráðin kvenna köld, – konan bannar þetta.

Pétur Stefánsson ákvað að verja föstudagskvöldi í sjónvarpsgláp:

Þó ég vilji víni í kvöld

vel í tána skvetta,

eru ráðin kvenna köld,

– konan bannar þetta.

Friðrik Steingrímsson svarar í léttum dúr:

Vínið stundum viltu smakka

virðist með því tímann stytta,

en konunn'áttu það að þakka

að þú ert ekki fyllibytta.

Pétur sér þegar að sér:

Henni er það helst að þakka

að heillasólin við mér skín,

enda mun ég aldrei smakka

upp frá þessu, brennivín.

Friðrik segir fulllangt gengið:

Vín þó konan við þig spari

varla er lífið svona strangt,

að þú gerist góðtemplari,

gengurðu ekki heldur langt?

Enn er Pétur sammála:

Ég enn á ný um skoðun skipti

og skilmálunum óðar rifti.

Glaður mun ég glasi lyfta

og geðdeyfð minni burtu svipta.

Annað hljóð er komið í strokkinn daginn eftir, en þá yrkir Pétur:

Ekki finnst mér lífið létt

að loknum nætur gleðskap,

ég get varla saman sett

sæmilegan kveðskap.

Friðrik svarar að bragði:

Sjaldan drykkju duflið þitt

dettur réttu megin,

geturðu aldrei greyið mitt

gengið meðalveginn.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir skerst í leikinn:

Örvænti um eigin hag

orðsnillinnar rekkur.

Pétur yrkir ekki í dag

og ekki heldur drekkur.

pebl@mbl.is