Ríkharður Chan fæddist í Malasíu 3. september 1946. Hann lést á líknardeildinni í Kópavogi 16. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Bústaðakirkju 24. janúar.

Það er í dag sem hann elsku Ronnie verður jarðsettur.

Það var um verslunarmannahelgina síðustu sem móðir mín hringdi í mig og sagði mér þær fréttir að hann Ronnie hefði fengið þá greiningu að hann væri kominn með krabbamein. Það voru sorglegar fréttir og gerðum við lítið annað þá helgi en að hugsa til hans og Önnu Gretu og svo auðvitað til Sonju, Gunnars og Stefaníu. En lokagreiningin kom svo föstudaginn 17. ágúst sl. þegar halda átti ættarmót í fjölskyldunni. Það má segja að það hafi verið sérstakt ættarmót það árið. Auðvitað bjóst enginn við að þau færu að koma eftir að hafa fengið slíkar fréttir þann daginn. En þeir sem þekktu hann Ronnie vita að hann vildi bara drífa fjölskylduna á ættarmótið sjálft. Þau voru með okkur í eina nótt og er það bara yndislegt að hann hafi ákveðið að koma og mun sú minning lifa með okkur um ókomna tíma. En það er nú örugglega ekki oft sem fólk fær lokagreiningu um að það sé með krabbamein og lendir í því að vera tekið fyrir of hraðan akstur sama dag. En því lenti hann Ronnie í þegar hann var að keyra austur á ættarmótið. Sérstakt.

Það er bara hægt að lýsa honum Ronnie sem góðum manni sem ekki lét mikið á sér bera. Hann var alltaf brosandi en einnig var hann mjög svo hjálpsamur. Ekkert mál, er eitthvað sem fólk heyrði hann segja. Hann var góður vinnuveitandi og kom ég og starfaði hjá honum í nokkur ár og fyrir það er ég mjög þakklát. Það er gaman að rifja það upp að sumir kúnnar vildu bara láta hann afgreiða sig þar sem hann gerði alltaf svo vel við fólkið, og á þeim tíma sem ég starfaði hjá honum var ekki annað að sjá en að öllum líkaði mjög svo vel við hann. Kom það nú líka í ljós í 60 ára afmæli hans sem haldið var upp á og voru nokkrir starfsmenn Kringlunnar viðstaddir. En ekki má gleyma að hann Ronnie var mikill aðdáðandi Chelsea-liðsins í enska boltanum og fór hann á ófáa leikina með þeim. Hann var svo heppinn að ná því að verða afi, hún Helga litla hennar Sonju var svo mikil afastelpa að það verður nú skrýtið fyrir hana að hafa hann ekki hjá sér. Hann var svo stoltur af henni og bara af allri fjölskyldunni sinni. En lífsförunautur hans er hún Anna Greta frænka mín og er hún búin að standa sig eins og hetja.

Elsku Anna Greta mín, Sonja, Gunnar, Stefanía, Helga litla, Halli og Unnur, megi guð vera með ykkur og sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Missir ykkar er mikill.

Okkur þykir vænt um ykkur.

Þórdís, Guðmundur og synir.

Nú er elsku Ronnie okkar látinn og við sitjum eftir með harm í hjarta, allir sem þekktu Ronnie vissu og fundu hvað hann var mikið góðmenni, traustur, heiðarlegur og hjálpfús.

Ég hef þekkt Ronnie allt mitt líf þar sem hann er giftur systur mömmu, ég verð alltaf stolt af að hafa þekkt hann. Sem krakki montaði ég mig óspart af að ég ætti frænda sem væri frá Malasíu, mér fannst það svo spennandi og ekkert var eins æðislegt að koma heim til hans og Önnu Gretu og kynnast öllum framandi matnum; súpum með risasveppum, snakki sem límdist við tunguna o.fl., reyna svo að borða matinn með prjónum. Hann var alltaf svo góður við okkur systkinabörnin og allir jafnir í hans augum, enda sýndi hann það þegar hann bauð Þórdísi systur með sér á sjóinn. Þó svo að ég væri abbó þá hugsaði ég vá hvað hann er góður. Ég man alltaf eftir þegar hann kom heim af sjónum og gaf okkur heila fötu af fílakaramellum, vá þvílíkur fjársjóður.

Ég fór svo að vinna hjá honum á Rikka Chan og var þar í nokkur ár. Ég hef aldrei og á ekki eftir að vinna með eins miklum dugnaðarforki og hann var. Á þessum tíma reyndist hann mér mjög vel og sýndi mér mikið traust, fyrir það verð ég honum alltaf þakklát.

Elsku Anna Greta, Sonja, Gunnar, Stefanía, Helga, Halli og Unnur, ég samhryggist ykkur innilega. Ég elska ykkur.

Knús og stútar

Aðalheiður Bjarnleifsdóttir, Kristján Reykdal.

Elsku Ronní, þú hefur verið hluti af lífi mínu frá því ég man fyrst eftir mér. Þið Anna Greta veittuð mér svo þann heiður að passa drenginn ykkar sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan. Það hlýtur að vera sárt fyrir þig að skilja við jafn góða fjölskyldu og þína. Fáir hafa tækifæri að eignast jafn góða fjölskyldu og þú áttir, Önnu Gretu frænku mína sem mér þykir svo óendanlega vænt um og hefur veitt mér ómetanlegan styrk frá barnæsku. Enda kennduð þið mér að dæma ekki aðra heldur vera það sem maður er og sjá það góða í öðrum. Að koma inn á heimili ykkar Önnu Gretu var engu líkt, það var svo góður andi hjá ykkur og margt sem minnti mann á uppruna þinn sem mér hefur alltaf þótt virðingarvert hjá ykkur enda hefur heimili ykkar alltaf borið af.

Elsku elsku Ronní minn, ég sakna þín svo sárt. Þú varst einstakur maður sem varst alltaf að hugsa um aðra og að fjölskyldu þinni liði sem best.

Þína yndislega eiginkonu og börn sem þú hefur alltaf hugsað vel um og elskar svo heitt og ég veit að þú saknar fjölskyldu þinnar jafnmikið og þau sakna þín. Það er einkennilegt að vita að þú sért farinn því í mínu hjarta ertu svo lifandi. En nú ertu kominn heim, þangað sem ég veit að við munum öll fara, ég veit að við munum hittast aftur. Ég gleymi aldrei hvernig þú horfðir í augun á Önnu Gretu og hélst í hönd hennar þegar ég kom í heimsókn. Ást þín og aðdáun á Önnu Gretu hefur aldrei leynt sér. Aðeins hugsunin um ykkur saman fær mig til að klökkna.

Ég veit að hlý ljósalda kom og engill tók þig og kenndi þér lögmál hins nýja lífs. Þú þarft ekki á líkama þínum að halda lengur en sál þín heldur áfram að vera sú sama og hafa sömu hugsanir, en þú ert komin hinumegin og hefur fengið heilsuna aftur, aldrei einn, ástríkur drottinn sér um þarfir þínir og varðveitir þig hinumegin líka. Ég veit að þú ert þegar búinn að koma jarðarmegin og veita fjölskyldu þinni styrk.

Dýrðarstund er það þegar sólin er að setjast eða koma upp, og maður fer út glaður og ánægður og geislar sólarinnar hafa steypt töfraskikkju sinni yfir útsýnið, ljós lífsins er kærleikur og minnumst þess að kærleikur er leyndardómur himnaríkis, þar er friður, líf, fegurð og ást. Ég veit að í himnaríki átt þú eftir að gera mikið gott eins og þú gerðir jarðarmegin.

Elsku Anna Greta mín, Sonja, Gunnar Davíð og Stefanía, missirinn er mikill jarðarmegin, mestur hjá ykkur. Megi Guð veita ykkur styrk til að takast á við þessa miklu sorg.

Íris Ívarsdóttir.

„Fáðu þér meira, það er nóg til,“ þessi orð lýsa vel honum Ronnie, sem við kveðjum nú í dag. Hann var höfðingi heim að sækja og það eru ófá skiptin sem við höfum verið boðin til veislu hjá Ronnie og Önnu Gretu eiginkonu hans, síðast nú á nýársdag. Þótt hann væri orðinn mjög veikur kom ekki til mála að hætta við árlegt nýársboð. Hann hélt sínu striki eins lengi og hann gat, reisn sinni hélt hann allt til enda og æðruleysi hans var mikið. Ronnie var harðduglegur, ósérhlífinn og samviskusamur og hafði rekið fyrirtæki sitt með myndarbrag í 15 ár, nú átti aðeins að fara að slaka á en þá barði vágestur að dyrum og lagði hann að velli á nokkrum mánuðum.

Ronnie var einn af þeim sem tranaði sér ekki fram, en persónuleiki hans var sterkur, hann var glaðlyndur og hann hafði sínar skoðanir á hlutunum. Hann var einstakur veitandi og alltaf var hann boðinn og búinn til að aðstoða ef þörf var á, með dyggri aðstoð Önnu Gretu sem nú sér að baki ástkærum eiginmanni sínum.

Ronnie var einlægur stuðningsmaður Chelsea og var heiðursfélagi í stuðningsklúbbi félagsins á Íslandi. Hann var líka KR-ingur og fór á völlinn og studdi sína menn. Ronnie og Anna Greta höfðu gaman af að fara út á leiki með Chelsea og núna í september fór hópur úr fjölskyldunni saman til Manchester á leik. Leikurinn var í boði Ronnie og verður geymdur sem góð minning um einstakan mann.

Elsku Anna Greta, Sonja, Gunnar, Stefanía, Halli, Unnur og Helga, Guð blessi ykkur og gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímun. Minningin lifir.

Steinunn og Magnús.

Að morgni miðvikudagsins 16. janúar fékk ég símtalið sem ég var búin að kvíða fyrir, en vissi þó að var á leiðinni. Ronnie var dáinn. Það er ekkert sem getur undirbúið svona fréttir. Síðan þá hefur þetta verið frekar óraunverulegt.

Ég á margar minningar um Ronnie, bæði tengdar samveru fjölskyldunnar og þegar ég var að vinna hjá honum á Rikka Chan. Sú sem kemur oftast upp í hugann er af honum standandi inni í eldhúsi á Rikka Chan með kokkahúfuna sína og alveg á fullu að vinna. Einn af hans mörgu kostum var einmitt dugnaðurinn. Sama hvað var búið að vera mikið að gera; alltaf var hann á fullu. Við áttum mörg góð samtöl á morgnana áður en staðurinn var opnaður, töluðum um daginn og veginn. Ronnie var inni í mörgu og hafði áhuga á því sem var að gerast í kringum mann, en það var einmitt það sem fékk mann til að finnast maður skipta máli.

Ég veit að nú mun vanta mikið að sjá hann ekki eins og ég var vön, bæði á Rikka og í fjölskylduboðum.

Einnig man ég eftir því þegar ég ég var barn þá fannst mér hann alveg frábær, alltaf barngóður og leið börnum vel í návist hans. Heimili þeirra Önnu og Ronnies var líka opið og hlýlegt eins og þau sjálf. Það gerði það að verkum að manni leið bæði vel og fannst maður velkominn þegar maður kom til þeirra, en þegar ég var lítil var ég þar ófáar stundirnar að leika við Gunnar frænda.

Elsku Anna, Sonja, Gunnar og Stefanía, ykkar missir er mikill og megi Guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum. Þið eruð í bænum okkar.

Maríanna og fjölskylda.

Fallinn er frá góður og vænn drengur, Rikki Chan matreiðslumeistari. Ég vil skrifa nokkur orð um hann fyrir hönd okkar úr sítrónubekknum í Hótel- og veitingaskóla Íslands en við útskrifuðumst 1988.

Það er óhætt að segja að Rikki hafi fallið vel inn í hópinn, þrátt fyrir að vera nærri helmingi eldri en flestir í bekknum. Rikki var alltaf til í að koma með í billa og skjóta niður nokkrar kúlur, svona bara til að kynnast og vera með, því ekki voru menn að stressa sig þó að þeir enduðu með nokkur mínusstig eftir leikinn. Þeir sem kynntust Rikka vissu að þarna var duglegur og frábær fagmaður.

Fljótlega eftir útskrift var hann líka búinn að opna sinn fyrsta Rikka Chan-matreiðslustað í Kringlunni, en hann var opnaður fyrir 20 árum.

Á þessu ári eigum við í sítrónubekknum 20 ára útskriftarafmæli og ætluðum við því að hittast en þar verður Rikka sárt saknað. Við sem vorum með Rikka í Hótel- og veitingaskólanum sendum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Útskriftarnemar 1988

(sítrónubekkurinn).

Kveðja frá Chelsea-klúbbnum á Íslandi

Í dag kveðja félagar í Chelsea-klúbbnum á Íslandi einn sinn besta félaga og vin, Ríkharður Chan er allur.

Rikki eins og við kölluðum þennan sómapilt ávallt okkar í milli fæddist í Malasíu hinn 3. september 1946 en fluttist til Íslands 1973, settist hér að og undi hag sínum vel, gerðist íslenskur ríkisborgari og eignaðist hér yndislega fjölskyldu sem nú kveður ástkæran eiginmann, föður, tengdaföður, afa og vin, langt um aldur fram.

Rikki var mikill áhugamaður um knattspyrnu og þar var Chelsea hans lið, Rikki var True Blue eins og þeir gerast bestir.

Rikki gekk til liðs við Chelsea-klúbbinn á Íslandi fljótlega eftir að hann var stofnaður árið 1997 og reyndist hinn besti félagsmaður í hvívetna. Margar voru ferðirnar sem Rikki og Anna Gréta fóru til London og víðar til að sjá Chelsea í leik, voru þá ýmist í för með félögum sínum í Chelsea-klúbbnum, fjölskyldu, vinum og vandamönnum eða þá bara tvö, bæði blá í gegn.

Rikki kenndi sér meins sl. sumar er hann var á ferð norður í landi og eftir ferðalag til æskustöðvanna í Kuala Lumpur tóku við læknisrannsóknir hér heima er leiddu í ljós að Rikki var heltekinn af vágestinum hræðilega sem nú hefur lagt þennan ljúfling að velli.

Það kom fljótt í ljós við rannsóknir á veikindum Rikka að útlitið var dökkt, því var um að gera að drífa sig á Brúna og sjá Chelsea í leik á endasprettinum.

Í október 2007 hélt Rikki í sína hinstu för á leiki með Chelsea og voru Anna Gréta og dætur þeirra hjóna með í för og var gist á The Millennium & Copthorne Hotels at Stamford Bridge.

Chelsea hafði betur í viðureign sinni gegn FC Schalke, 2-0, í Meistaradeild Evrópu í fyrri leik ferðarinnar, á afmælisdegi Önnu Grétu hinn 24. október og það var svo vel við hæfi að Chelsea kvaddi Rikka með stórkostlegri flugeldasýningu í 6-0 sigri gegn Manchester City á Stamford Bridge laugardaginn 27. október 2007.

Sá er þessar línur ritar heimsótti Rikka á Þorláksmessu 2007 og var þá mjög af honum dregið, nýkominn þó úr skötuveislu í tilefni dagsins, slíkur Íslendingur var hann orðinn og matgæðingur.

Það var með miklu stolti sem þau hjón sýndu mér heiðursskjal það er Rikki hlaut á aðalfundi Chelsea-klúbbsins á Íslandi 8. september sl. til staðfestingar á tilnefningu Rikka sem heiðursfélaga Chelsea-klúbbsins á Íslandi, skjalið var á áberandi stað uppi á vegg við innganginn í einn af helgidómum heimilisins, nefnilega við eldhúsdyrnar.

Það var okkur félögum Rikka í Chelsea-klúbbnum bæði ljúft og skylt að tilnefna hann heiðursfélaga Chelsea-klúbbsins á Íslandi, hann var sannarlega vel að þeirri nafnbót kominn og þótti Rikka afar vænt um þann heiður sem honum var sýndur og sómi af.

En nú er komið að leiðarlokum, kæri vinur, far þú í friði, Guðs blessun fylgi þér, þín verður sárt saknað.

Elsku Anna Gréta, við sendum þér og fjölskyldu þinni, sem og öðrum vandamönnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Karl H. Hillers og félagar,

Chelsea-klúbbnum á Íslandi.