Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is EKKI GÆTTI mikillar jákvæðni í garð olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum í svari Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingar, á Alþingi í gær.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

EKKI GÆTTI mikillar jákvæðni í garð olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum í svari Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingar, á Alþingi í gær. Helgi óskaði eftir afstöðu ráðherrans til hugmynda um að koma á fót slíkri starfsemi og vildi jafnframt fá upplýsingar um hættu af mengunarslysum. Þórunn sagði rekstur olíuhreinsunarstöðvar menga gríðarlega. „Það er mjög mikil losun gróðurhúsalofttegunda og einnig mjög mikil önnur mengun,“ sagði Þórunn og tók olíuleðju og svifryk sem dæmi.

Myndi auka losun um 30%

Ein olíuhreinsistöð myndi auka losun frá Íslandi um 30% en stefna ríkisstjórnarinnar væri hins vegar að draga saman losun um 50-70% á næstu fjörutíu árum. „Það er ekkert annað í spilunum en samdráttur í losunarheimildum,“ áréttaði Þórunn og sagði jafnframt hættu stafa af aukinni skipaumferð við landið, m.a. við fermingu og affermingu. Nú þegar væri skipaumferð gríðarleg og um 150 skip færu framhjá Íslandi árlega. „Þeim gæti auðveldlega fjölgað í fjögur til fimmhundruð næstu árin,“ sagði Þórunn.