AFLAHEIMILDIR eru ekki einkaeign manns að mati Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnað hefur kröfu viðkomandi manns þessa efnis, í tengslum við skilnaðarmál hans og fyrrverandi konu hans.

AFLAHEIMILDIR eru ekki einkaeign manns að mati Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnað hefur kröfu viðkomandi manns þessa efnis, í tengslum við skilnaðarmál hans og fyrrverandi konu hans. Þegar hjónin skildu eftir 13 ára hjónaband árið 2005 krafðist maðurinn þess m.a. að aflaheimildirnar ættu að falla utan skipta við búskipti þeirra. Konan krafðist þess m.a. aftur á móti að dómurinn hafnaði kröfu mannsins og fékk því framgengt.

Í niðurstöðu dómsins segir að samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða sé aflaheimildum úthlutað til skipa en ekki einstaklinga. Þannig var málum háttað í umræddu tilviki og var því verðmæti aflaheimildanna innifalið í verðmæti einkahlutafélags sem kom til skipta við fjárslitin.

Dómurinn hafnaði einnig þeirri kröfu mannsins að konan yrði svipt yfirráðum yfir bankareikningum þar sem krafan þótti ekki studd lagarökum eða gögnum að öðru leyti. Maðurinn hélt því fram að konan myndi eyða þeim fjármunum sem hún hefði vörslur á en dómurinn vísaði til skiptastjóra um að jafnvel þótt hún gerði það væru nægir fjármunir til í búinu til að tryggja að maðurinn fengi sinn hlut óskertan.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari dæmdi málið.