ÞINGMENN allra flokka hafa flutt þingsályktunartillögu þess efnis að forseta Alþingis verði falið að hefja undirbúning þess að útvarpa þingfundum beint um allt land á sérstakri útvarpsrás.

ÞINGMENN allra flokka hafa flutt þingsályktunartillögu þess efnis að forseta Alþingis verði falið að hefja undirbúning þess að útvarpa þingfundum beint um allt land á sérstakri útvarpsrás. Stefnt verði að því að útvarp frá Alþingi hefjist eigi síðar en þegar þing kemur saman haustið 2008.

Í greinargerð með tillögunni benda flutningsmenn á að beinar útvarpssendingar frá Alþingi séu í anda 57. gr. stjórnarskrárinnar um að fundir Alþingis skuli haldnir í heyranda hljóði. Bent er á að þó þingfundir séu sendir beint út á veraldarvefnum þá sé sú miðlun aðeins aðgengileg takmörkuðum hópi meðan beint útvarp frá þingfundum myndi gera stærstum hluta landsmanna kleift að fylgjast með fundum.