Sveinn Kristjánsson fæddist að Langholtsparti í Hraungerðishreppi í Árn., 20. desember 1912. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 13. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Skálholtskirkju 19. janúar.

Vorkomunni fyrir hartnær 40 árum fylgdi mikil tilhlökkun að komast sem fyrst í sveitina, að Drumboddsstöðum til Sveins bónda og Magnhildar húsfreyju. Takmarkið var að ná í endann á sauðburði, fá að fylgja Sveini um hagana og taka á móti lömbum, marka og skrá.

Sveinn hafði gott lag á fólki, hélt okkur kaupamönnum vel að verki og sagði jafnan að meðan menn hefðu nóg fyrir stafni leiddist þeim ekki og fengju ekki heimþrá. Minningarbrot frá þessum árum eru enn ljóslifandi í huganum; fyrsti reiðtúrinn með Sveini, hann á Mugg sínum harðviljuga, ég á Glæsi gamla berbakt. Ekið um landareignina á Land Rovernum, sem notaður var jöfnum höndum fyrir menn og skepnur, orðið landbúnaðartæki hefur æ síðan ákveðna merkingu í mínum huga. Sveinn hafði ákveðið aksturslag sem ég gleymi seint. Hann hafði yndi af söng og söng þá gjarnan undir stýri eða á hestbaki. Upplifun að koma í réttir fyrsta haustið og hlusta á hann kyrja lög Tungnamanna í margrödduðum kór stórbænda sem flestir eru nú gengnir. Sveinn var fjár- og hestamaður – kenndi mér þannig á hest að ég bý að því að alla tíð síðan. Við feðgarnir fengum okkar fyrsta hest frá Sveini og það hefur verið sérlega ánægjulegt að endurnýja kynni við þessa fallegu sveit í hópi heimamanna hin síðari ári og þá ekki síður að fara ríðandi um ævintýralegan afrétt Tungnamanna. Sveinn var af þeirri kynslóð bænda sem af miklum dugnaði og elju breyttu smábúum sínum fyrir daga vélvæðingar í myndarbú sem nýttu sér nútímatækni við bústörfin. Drógu aldrei af sér.

Minningin um Svein Kristjánsson og dvölina að Drumboddsstöðum mun lifa með mér um ókomin ár.

Aðstandendum öllum færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnar Ingimundarson.