Salvör Kristrún Veturliðadóttir fæddist á Ísafirði 24. september 1914. Hún andaðist á Droplaugarstöðum 15. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Veturliði Guðbjartsson verkstjóri á Ísafirði, f. 1883, d. 1966, og Guðrún Halldórsdóttir húsmóðir, f. 1888, d. 1959. Salvör var fjórða í röð 19 systkina og komust 13 þeirra til fullorðinsára. Fimm eru enn á lífi, þau Guðmunda, Sveinbjörn, Margrét, Erla og Svala. Salvör ólst upp hjá foreldrum sínum til fimm ára aldurs en þá var hún tekin í fóstur af móðurömmu sinni, Sigurlínu, og Halldóri eiginmanni hennar. Fimmtán ára gömul flutti Salvör til Reykjavíkur og var þar í vist sem vinnukona.

Salvör giftist 6. apríl 1936 Ara Guðjónssyni rakarameistara, f. 7. apríl 1914, d. 16. ágúst 1996. Þau eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Sigrún, f. 12. mars 1937, d. 23. desember 2006, gift Sveini Árnasyni. Dætur þeirra eru: a) Brynhildur, f. 1961, börn hennar eru Eva Björg, f. 1983, Sigrún, f. 1990, Rebekka og Rakel, f. og d. 25. nóvember 1996, og Daði Sigursveinn, f. 1997. b) Íris, f. 1966, dætur hennar eru Natalie Kristín, f. 1993, og Helena, f. 1995. 2) Halldór Sverrir, f. 10. september 1938, kvæntur Ingibjörgu Magnúsdóttur. Börn þeirra eru: a) Ragnheiður, f. 1960, dætur hennar eru Sara, f. 1983, Ester, f. 1985, Elma, f. 1991, og Sunna, f. 1994. b) Magnús Emil, f. 1962, börn hans eru Arnþór Friðrik, f. 1995, Thomas Ari, f. 1997, og Liselotte Emelie, f. 1998. c) Ari, f. 1963. d) Hilmar Óðinn, f. 20. júlí 1966, d. 16. janúar 1967. e) Jóhann Reynir, f. 1968, börn hans eru Arnar Ingi, f. 1992, og Anna Rún, f. 1996. f) Kristinn Þórður, f. 1971, börn hans eru Halldór Björn, f. 2002, og Hringur Birgir, f. 2004. g) Helga, f. 1975, börn hennar eru Björt, f. 2004, og Úlfur, f. 2006. 3) Helgi, f. 13. janúar 1943, kvæntur Maj-Britt Krogsvold. Dóttir þeirra er Jórunn, f. 1994.

Salvör vann ýmis störf, meðal annars hjá Mjólkurstöðinni og Lyfjaverslun ríkisins.

Salvör verður jarðsungin frá Háteigskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Um daginn heyrði ég klukknahljóm og það minnti mig strax á ömmu og afa á Njálsgötunni. Ég fékk góða og notalega tilfinningu yfir mig. Ég á margar minningar með ömmu og afa.

Eina sögu var amma vön að segja mér alltaf af og til, en það var sagan um það þegar ég var skírður. Þá komu systkini mín hlaupandi til ömmu, en einhverra hluta vegna komst hún ekki í skírnina, og tilkynntu henni það að ég hafði fengið nafnið hennar. Hún var nú aldeilis ekki sátt við það enda hélt hún að ég hafði fengið Salvarar-nafnið, sem hún var víst ekki alveg nógu ánægð með. Þegar hún svo fékk að heyra að ég hafði fengið Kristins-nafnið var hún himinlifandi.

Amma var mjög hlý og góð kona og gott að koma til hennar.

Heima á Njálsgötunni var stiginn mjög spennandi og eftirsóknarverður leikstaður fyrir okkur. Amma sagði nú aldrei neitt við því en bað okkur þó um að fara varlega.

Afi var með rakarastofu í húsinu á Njálsgötunni. Þar fékk ég stundum að hjálpa honum og fékk ég það erfiða verkefni að sópa hárið á gólfinu. Það þurfti að gera það eftir kúnstarinnar reglum og ekki stóðst ég alltaf kröfurnar en fékk þó alltaf hrós fyrir.

Þegar ég fór síðan í Iðnskólann í Reykjavík fór ég alltaf í hádegismat til hennar. Oftast var á boðstólum skyr og egg og alltaf fannst mér það jafn gott enda var félagsskapurinn hinn besti.

Árið 1996 dó afi og nokkrum árum síðar fluttist amma af Njálsgötunni og á Droplaugarstaði. Ömmu líkaði mjög vel að vera þar og var ánægð bæði með herbergið sitt og starfsfólkið. Árið 2002 eignaðist ég mitt fyrsta barn, sem var strákur, og árið 2004 eignaðist ég síðan yngri strákinn minn. Ég fór stundum með þá í heimsókn til ömmu. Þeim bræðrum fannst mjög gaman að fara þangað og heilluðu fiskabúrin á ganginum þá. En þó ekki eins mikið og súkkulaðidroparnir sem amma lumaði á inní skáp og þeir bræður vissu um. Ömmu þótti alltaf gaman að fá þá til sín og var alltaf jafn hissa á því hve stórir þeir væru og hve hratt þeir stækkuðu.

Nú er amma farin til afa og líður mér eins og kafla í mínu lífi sé lokið en minningarnar sem ég á um ömmu og afa lifa áfram með mér.

Elsku amma, hvíl í friði.

Þinn

Kristinn.

Lítill drengur lófa strýkur

létt um vota móðurkinn,

– augun spyrja eins og myrkvuð

ótta og grun í fyrsta sinn:

Hvar er amma, hvar er amma,

hún sem gaf mér brosið sitt

yndislega og alltaf skildi

ófullkomna hjalið mitt?

Lítill sveinn á leyndardómum

lífs og dauða kann ei skil:

hann vill bara eins og áður

ömmu sinnar komast til,

hann vill fá að hjúfra sig að

hennar brjósti sætt og rótt.

Amma er dáin – amma finnur

augasteininn sinn í nótt.

Lítill drengur leggst á koddann

– lokar sinni þreyttu brá

uns í draumi er hann staddur

ömmu sinni góðu hjá.

Amma brosir – amma kyssir

undurblítt á kollinn hans.

breiðist ást af öðrum heimi

yfir beð hins litla manns.

(Jóhannes úr Kötlum)

Þinn ömmustrákur

Daði Sigursveinn.