Ívar Páll Jónsson
Ívar Páll Jónsson
Ívar Páll Jónsson skrifar um skipan ráðherra í dómaraembætti og rifjar upp söguna: "Og eitt af fyrstu verkum hans sem dómsmálaráðherra er að skipa Pétur Kr. Hafstein sem hæstaréttardómara."

I

Árið er 2007. Þorsteinn, sonur Davíðs Oddssonar fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, er skipaður héraðsdómari. Áður hefur sérstök dómnefnd raðað öðrum umsækjendum ofar Þorsteini, en settur dómsmálaráðherra skipar Þorstein samt. Nefndin, undir formennsku Péturs Kr. Hafstein, sendir frá sér yfirlýsingu og mótmælir skipuninni. Almenningur hneykslast og telur að dómsmálaráðherra hafi farið á svig við álit óskeikuls og alls óháðs hóps manna. Við liggur að fólk telji nefndarálitið vera álit almættisins, svo óumdeilt er það. Dómsmálaráðherra er augljóslega að hygla syni áhrifamanns í stjórnmálaflokki þeirra þriggja.

II

Árið er 1983. Níu menn sækja um embætti sýslumanns Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeta á Ísafirði. Þeirra á meðal eru Freyr Ófeigsson, sem unnið hefur að dómstörfum við sýslumannsembættið á Akureyri í 17 ár, þar af sem sjálfstæður héraðsdómari í tíu ár. Líka Már Pétursson héraðsdómari, sem unnið hefur dómstörf við sýslumannsembættið í Hafnarfirði í 16 ár, þar af tíu ár sem héraðsdómari. Einnig Barði Þórhallsson bæjarfógeti, sem hefur starfað að dómstörfum í 13 ár, þar af sem skipaður héraðsdómari í níu ár.

Svona mætti áfram telja. Reynsluboltarnir sem sækja um embættið þetta herrans ár 1983 eru hver öðrum gjörvulegri. En enginn þeirra er ráðinn.

Hver er ráðinn? Jú, Pétur Kr. Hafstein, 34 ára lögfræðingur, sem að loknu embættisprófi var fulltrúi lögreglustjóra um eins og hálfs árs skeið, síðan við nám í þjóðarétti í eitt ár og eftir það fulltrúi í eigna- og málflutningsdeild fjármálaráðuneytisins í tæplega fimm ár.

Auðvitað verðum við að gera ráð fyrir að dómsmálaráðherra, sjálfstæðismaðurinn Friðjón Þórðarson, hafi ekki skipað Pétur Kr. Hafstein vegna þess að hann er sonur Jóhanns Hafstein, fyrrverandi forsætis- og dómsmálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Nei, það er af og frá.

III

Árið er 1991. Davíð Oddsson, ungur og efnilegur forystumaður innan Sjálfstæðisflokksins, sem á engar ættir að rekja til foringja flokksins, hyggst bjóða sig fram á móti sitjandi formanni, Þorsteini Pálssyni. Stuðningsmenn Þorsteins eru ekki hrifnir.

Þeirra á meðal er Pétur Kr. Hafstein. Hann skrifar grein í Morgunblaðið 28. febrúar 1991, undir fyrirsögninni „Freistingar“. Grípum niður í texta Péturs Kr. Hafstein, sonar Jóhanns Hafstein, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins:

„Nú fær Þorsteinn Pálsson að vita, að Davíð Oddsson kom ekki í stól varaformanns fyrir tveimur árum til þess að efla einingu Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst eða vera formanni sínum bakhjarl, eins og Ólafur Thors gat treyst um Bjarna Benediktsson og Bjarni um Jóhann Hafstein. Þannig gerast kaupin á eyrinni, þegar fallið er fyrir „þessum eilífa egóisma og afdrifaríka, en þó drepleiðinlega metnaði og sjálfsánægju“.“

Pétur vitnar þarna í grein Matthíasar Johannessen um Gunnar Thoroddsen frá árinu 1980.

Nei, Pétur Kr. Hafstein vandar Davíð Oddssyni ekki kveðjurnar þarna í aðdraganda landsfundarins 1991. Davíð vandar Þorsteini Pálssyni hins vegar kveðjurnar, eftir að hafa sigrað hann í kosningu til formanns Sjálfstæðisflokksins. Davíð verður forsætisráðherra og veitir Þorsteini það embætti innan ríkisstjórnar sem hann vill. Jú, Þorsteinn velur hvorki fleiri né færri en tvö; embætti sjávarútvegsráðherra og embætti dómsmálaráðherra.

Og eitt af fyrstu verkum hans sem dómsmálaráðherra er að skipa Pétur Kr. Hafstein sem hæstaréttardómara.

IV

Allt orkar tvímælis, þá gert er. Ráðherrar eru ekki óskeikulir og nefndir eru ekki óskeikular. Í stjórnmálum nútímans er ægivald hinna ýmsu nefnda og ráða á vegum hins opinbera mikið. Speki hinna svokölluðu „fagaðila“ er óumdeild.

Staðreyndin er hins vegar sú, að í nefndum þessum er fólk, sem gerir sín mistök eins og aðrir. Álit nefndar Péturs Kr. Hafstein hefur ekki birst opinberlega, en eftir því sem best verður séð voru á meðal umsækjenda um héraðsdómaraembættið þrír ungir og efnilegir lögfræðingar, allir með u.þ.b. átta til níu ára farsæla starfsreynslu úr margvíslegum geirum lögfræðinnar. Nefndin raðar einum þeirra, Þorsteini Davíðssyni, í þriðja flokk en hinum tveimur í þann fyrsta. Skrýtið.

Spurningin er sú, hvort við viljum að stjórnmálamenn – þeir sem komast til áhrifa í gegnum hið stjórnmálalega kerfi – eigi að veita stöður hjá hinu opinbera, eða nefndir og ráð – sem aldrei bera ábyrgð á neinum gjörðum sínum.

Stjórnmálamennirnir hafa þó hið takmarkaða aðhald sem felst í almennum kosningum á fjögurra ára fresti. Engar nefndir er hægt að kjósa burt.

Höfundur er blaðamaður.

Höf.: Ívar Páll Jónsson