R-Class Talsmenn Daimler Chrysler segja að Mercedes Benz R-Class hafi ekki staðið undir upphaflegum væntingum.
R-Class Talsmenn Daimler Chrysler segja að Mercedes Benz R-Class hafi ekki staðið undir upphaflegum væntingum.
Eftir Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Verið er að skoða breytingar á R–class-bílnum hjá Mercedes Benz þar sem sala hans er langt undir væntingum undanfarin tvö ár, að því er Dieter Zetsche, forstjóri Daimler, staðfestir.

Eftir Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Verið er að skoða breytingar á R–class-bílnum hjá Mercedes Benz þar sem sala hans er langt undir væntingum undanfarin tvö ár, að því er Dieter Zetsche, forstjóri Daimler, staðfestir.

„Hann hefur tvímælalaust ekki staðið undir upphaflegum væntingum og við erum í fyrsta áfanga hugmyndavinnu næsta bíls. Það gæti orðið næsta kynslóð R-bílsins eða allt annar bíll,“ sagði Zetsche í tilefni bílasýningarinnar í Detroit í Bandaríkjunum. Allt eins miklar líkur eru á að um alveg nýjan bíl verði að ræða frá grunni eins og að hann verði byggður upp úr grunni núverandi bíls.

Zetsche segir að þróun svonefndra crossover-bíla, sem um margt sameina þægindi og kosti fólksbíla og jeppa, hafi ekki verið jafnhröð og áætlanir Mercedes gerðu ráð fyrir. Fyrirtækið ráðgerði í öndverðu smíði um 50.000 R-bíla á ári og að þar af færu 25.000 á Bandaríkjamarkað. Hvorki framleiðsla né sala hefur komist nálægt þessum tölum.

Mercedes hefur reynt að örva sölu á bílnum í Bandaríkjunum með því að lækka verðið um 5.000 dollara og bjóða upp á sjö sæta útfærslu en allt kemur fyrir ekki. Á nýliðnu ári dróst sala R-bílsins saman um 28% frá árinu 2006, seldust aðeins 18.168 bílar í Bandaríkjunum sem er stærsti markaðurinn fyrir bílinn.

Sölustjóri Daimler, Klaus Maier, segir að mistök fyrirtækisins liggi í því að ganga út frá því við þróun bílsins að hann myndi höfða til breiðs hóps kaupenda. „Árangurinn hefur ekki verið í samræmi við væntingar okkar. Við höfum dregið lærdóm af því. Það er pláss fyrir nýjan bíl en hvað sem við gerum þá verður hann að vera gerlegur,“ sagði Maier.