Ragnhildur Steinunn Halldórsdóttir fæddist að Ytri-Tungu í Staðarsveit á Snæfellsnesi 26. júní 1935. Hún lést á heimili sínu, Reyrengi 31 í Reykjavík, 19. janúar síðastliðinn. Hún var dóttir hjónanna Láru Jóhannesdóttur, f. 18.9. 1904, d. 13.3. 1969 og Halldórs Ólasonar, f. 27.5. 1900, d. 20.4. 1967. Ragnhildur Steinunn (Stella) var næstyngst

af níu börnum þeirra hjóna. Systkini hennar eru Fjóla Unnur, f. 24.10. 1922, Reynir, f. 7.3. 1924, d. 1.12. 1977, Sóley, f. 17.6. 1927, d. 17.6. 1987, Hanna Sigurrós, f. 1.9. 1928, d. 2.7. 2001, stúlka, f. 19.2. 1930, dáin sama dag, Ragna, f. 8.1. 1931 og Guðbjörg, f. 30.8. 1945.

Þegar Ragnhildur Steinunn var á 6. ári fluttu foreldrar hennar til Akraness. Ung að árum byrjaði hún sem talsímakona hjá Landsíma Íslands á Akranesi. Ragnhildur Steinunn flutti til Reykjavíkur og vann þar einnig sem talsímakona. Einnig vann hún um árabil á Hótel Sögu og Sigtúni við þjónustustörf, þar til hún flytur til Gautaborgar 1978 og bjó þar með sambýlismanni sínum Sonny Andersson, f. 24.8. 1933. Börn Ragnhildar Steinunnar eru: 1) Vignir Sveinsson, f. 6.3. 1955, d. 14.5. 2001. Dóttir hans er Ragnhildur Lára, f. 29.9. 2000. 2) Sæmundur Steinar Sæmundsson, f. 4.5. 1960. 3) Halldóra Lára Svavarsdóttir, f. 4.8. 1963, gift Hjálmari Kristjánssyni, börn þeirra eru a) Elísabet Jenný, f. 20.2. 1982, sambýlismaður Sigurður Ingi Kristinsson, f. 9.8. 1978. Börn þeirra eru Viktoria Lind, f. 19.2. 2004 og Hinrik Már, f. 10.10. 2007. b) Kristján Vignir, f. 8.9. 1984. c) Jón Ragnar, f. 8.9. 1984. d) Hjálmar Þór, f. 11.10. 1988, unnusta Telma Waagfjörð, f. 28.07. 1988. e) Róbert Steinar, f. 24.8. 1992. 4) Jökull Svavarsson, f. 17.12. 1965, dætur hans eru Stefanía Fanney, f. 8.12. 1987, og Stella Hennrietta, f. 28.12. 1992.

Útför Ragnhildar Steinunnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Blott en dag, ett ögonblick i sänder,

vilken tröst vad än som kommer på!

Allt ju vilar i min Faders händer,

skulle jag, som barn, väl ängslas då?

Han som bär för mig en Faders hjärta,

giver ju åt varje nyfödd dag

dess beskärda del av fröjd och smärta,

möda, vila och behag.

(Karolina W. Sandell-Berg) Til minningar um ástkæru konuna mína Stellu. Takk fyrir öll árin sem við áttum saman. Þú munt alltaf lifa í hjarta mínu. Hvíldu í friði.

Sonny, ættingjar og

vinir frá Svíþjóð

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Elskulega móðir mín dó laugardaginn 19. janúar.

Mér er efst í huga, þegar ég læt hugann reika um skyndilegt og friðsælt andlát móður minnar, fyrst og fremst þakklæti og kærleikur. Þakklæti fyrir þann vinskap og hjálpsemi sem ávallt ég fann hjá þér. Í huga minn koma upp margar ljúfar minningar og mikil væntumþykja.

Deginum áður vorum við saman með okkar fjölmennu fjölskyldu við útför hennar Lilju, systur þinnar.

Einstakur kærleikur ríkti hjá ykkur systkinum frá Grafarholti, náðuð þið að kenna okkur og færa þann lærdóm áfram til okkar í lífinu. Engan grunaði að við jarðarför Lilju systur væri einnig kveðjustund þín og fjölskyldunnar þar sem yfir þér var aðeins mikil birta og gleði.

Hjá þér ríkti svo mikill einlægur kærleikur og hjálpsemi til barnanna þinna og barnabarna sem stóðu svo nálægt þér, erfitt verður að fylla það tómarúm. Hugur þinn var ávallt hjá okkur og við fundum það.

Þær voru ófáar samverustundirnar okkar bæði á björtum tímum og stundum erfiðum. Sú erfiðasta sem við áttu saman var þegar við kvöddum Vigni bróður sem dó 2001 í bílslysi. Góðu samverustundirnar hjá okkur tengjast mikið spjalli okkar og umræðum um allt milli himins og jarðar ásamt því að þú varst minn besti ferðavinur um heiminn. Ég gat ávallt talað við þig um allt og helst tvisvar til þrisvar á dag ef því var að skipta.

Það var ekki auðvelt fyrir einstæða móður í kringum 1970 að ala upp 4 börn. Dugnaður þinn í mínum huga er hversu mikla þrautseigju og orku þú hafðir sem gast með tvö-þreföldum vinnutíma aflað tekna fyrir fjölskylduna. Þetta tímabil í uppeldi mínu man ég mjög vel og aldrei kvartaðir þú yfir álagi því heima fyrir var Vignir bróðir okkar sem passaði okkur vel á meðan þú aflaðir tekna fyrir okkar litlu fjölskyldu.

Eftir að fjölskyldan flutti til Svíþjóðar varð samband okkar nánara og þroskaðra. Þú kynnist fyrir tveimur áratugum Sonny Andersson og undir þú þínum hag vel í húsinu og garðinum ykkar í Gråbo. Þú varst góð amma og langamma. Þú fékkst tækifæri til að umgangast ömmubörnin þín náið og nýttir þú þér það til fulls þann tíma. Nærvera þín hjálpaði þeim og styrkti eins og hjá þínum eigin börnum. Elsku mamma, við öll syrgjum og söknum þín og fráfall þitt er okkur sárt. Við þökkum þér kærlega fyrir alla nærveru og hlýju, mamma mín, og vitum að vel verður tekið á móti þér fyrir handan.

Þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu.

Þinn einlægi sonur

Sæmundur Steinar.

Elsku mamma mín, ég kveð þig með þessu ljóði.

Ég hugsa um mynd þína, hjartkæra móðir,

og höndina mildu, sem tár strauk af kinn.

Það yljar á göngu um ófarnar slóðir

þó yfir sé harðþrungið rökkur um sinn.

Ljósið er slökknað á lífskerti þínu,

þú leiddir mig örugg á framtíðar braut.

Hlýja þín vakir í hjartanu mínu

frá hamingjudögum, er fyrrum ég naut.

Minningarljósið á lífsvegi mínum

lýsir upp sorghúmið, kyrrlátt og hljótt.

Höfði nú drúpi' ég hjá dánarbeð þínum.

Þú Drottni sért falin, ég býð góða nótt.

(Hörður Björgvinsson) Takk fyrir alla þína umhyggju og ást sem þú sýndir okkur öllum. Þú varst svo dugleg, sterk og alltaf svo hress. Söknuðurinn er mikill en minningin er í hjarta okkar allra.

Guð blessi þig og varðveiti, mamma mín.

Þín dóttir,

Halldóra Lára.

Nóttin er dimm og köld

nóttin er hljóðlát og dimm

nóttin er full af stjörnum

ég horfi til himins og brosi

stjörnurnar verða fleiri og fleiri

einhvers staðar þarna uppi

einhvers staðar langt í burtu

er mín eigin stjarna sem skín

stjarnan, sú fallegasta af öllum

mín eina fallega amma

mín eigin stjarna

því engin önnur stjarna

lýsir eins og þú

(Stella Jökulsdóttir)

Mig langar að minnast þín með þessu ljóði.

Þinn sonur

Jökull.

Elsku Stella.

Það er ekki raunverulegt að þú sért farin frá okkur svona óvænt. Þrátt fyrir erfið veikindi þín undanfarið þá átti enginn von á þessu. Við fórum jú saman í útför hennar Lilju systur þinnar á föstudaginn, þú í þínu fínasta skapi, glæsileg og óvenjuspræk. Síðan kveðjum við þig í erfidrykkjunni til að fara í sumarbústað yfir helgina. Daginn eftir ertu farin frá okkur. Mér finnst eins og þú vildir klára útförina hjá systur þinni áður en þú færir sjálf.

Við vorum ekki heima þegar þetta gerðist en erum samt ánægð að hafa getað kvatt þig á þínu nýja heimili þínu hjá okkur að Reyrengi þar sem þú áttir jú margar góðar stundir ásamt honum Sonny þínum.

Ég gleymi aldrei þegar ég kynntist þér. Við Halldóra vorum að byrja saman þegar hún bað mig að hjálpa mömmu sinni að laga bílinn hennar sem hafði ekki farið í gang svo vikum skipti. Taugaveiklaður að hitta þig í fyrsta skipti lét ég til leiðast og kippti gamla Saabinum þínum í lag, eftir þetta varð ekki aftur snúið, við tengdumst strax sterkum böndum. Þetta var fyrir tæplega 28 árum.

Árin liðu og við eignuðumst stóra fjölskyldu og ýmisleg vandamál fylgdu, en alltaf stóðst þú við hlið okkar tilbúin að hjálpa. Við fluttum síðan aftur til Íslands og hefur vegnað vel síðan og það ekki síst fyrir þína hjálp, Stella mín. Ef okkur datt í hug að fara í utanlandsferð eða gera eitthvað þá var alltaf hægt að fá þig hingað heim til að sjá um hlutina og fara áhyggjulaus í burtu. Þegar við komum heim aftur var greinilegt að allt var í góðu standi og jafnvel búið að taka allan garðinn í gegn, yndislegt.

Nágrannar okkar höfðu jafnvel á orði hvort ekki væri hægt að leigja þig til að sjá um þeirra garða. Hér á eftir fer eitt af því sem þú hefur kennt öllum börnum okkar svo vel. Söknuðurinn er mikill en minningin er sterkari og trúðu mér, Stella, að ég mun hugsa vel um hana Halldóru þína og öll barnabörnin það sem eftir er. Takk fyrir samveruna og þú munt alltaf vera í hjarta mínu og í minningum okkar allra.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höfundur ókunnur.)

Ég votta ykkur Sonny og systrunum, Fjólu, Rögnu, Guðbjörgu og fjölskyldunni allri samúð mína.

Guð blessi minningu þína, Stella.

Þinn tengdasonur,

Hjálmar.

Elsku amma mín.

Ég á svo margar góðar minningar um þig. Ég er svo þakklát fyrir að þú gast komið til okkar og verið með okkur í skírninni og um jólin. Þetta var yndislegur tími með þér.

Svíþjóðarferðirnar voru ófáar. Seinast fórum við Viktoría til þín og Sonny sl. sumar. Ég er hætt að geta talið ferðirnar út en þetta var þriðja ferðin hennar Viktoríu til þín. Og hún man sko alveg eftir gula húsinu. Seinast í gær spurði hún mig hvenær við færum aftur í gula húsið. Það er sárt að hugsa til þess að næst þegar að við förum þangað þá verður þú ekki þar.

Ekki bjóst ég við að þú færir svona fljótt frá okkur. Ég hélt að við mundum eiga meiri tíma saman, en ég veit að þér líður vel núna. Veit líka að það tók gott fólk á móti þér.

Mig langar að minnast þín með einni bæn sem þú kenndir mér þegar að ég var lítil. Þetta var uppáhalds bænin mín.

Augun mín og augun þín,

ó, þá fögru steina.

Mitt er þitt og þitt er mitt,

þú veist hvað ég meina.

(Vatnsenda-Rósa.) Elsku amma mín, ég á eftir að sakna þín rosalega mikið. Þú munt ávallt verða í huga mér.

Þín,

Elísabet Jenný.

Látin er mikil hefðarfrú, Ragnhildur Steinunn eða Stella eins og við öll kölluðum hana.

Mín fyrstu kynni af Stellu voru í gegnum elsta son hennar Vigni. Hann talaði ávallt um mömmu sína með mikilli virðingu og stolti, svo þegar ég kynntist Stellu skildi ég vel af hverju honum þótti hún merkilegasta mamma í heimi. Vignir lést langt fyrir aldur fram og skildi eftir sig djúp sár hjá fjölskyldu og vinahópi sínum.

Seinna kynntist ég öðrum börnum Stellu og í dag erum við öll miklir vinir. Stella var umhyggjusöm og lét sig það miklu varða að öllum liði vel, hún elskaði að eiga góðar stundir með sínu fólki. Þótt hún hafi búið erlendis í mörg ár fylgdist hún vel með okkur öllum úr fjarlægð. Börn hennar bera gæsku hennar og yfirbragð, því hún ól þau upp sem sterka einstaklinga með þá vissu að allt fólk væri mikilvægt og merkilegt á sinn hátt. Elsku Stella, það var mikill heiður að fá að kynnast þér. Votta ykkur öllum afkomendum og aðstandendum hennar mína dýpstu samúð.

Jóna Helga.

Amma

Nú farin ertu úr þessum heimi,

farin til frelsarans er náðaði þig.

Þú sofnaðir hljótt í hinn djúpa svefn,

en hjarta mitt syrgir þig amma mín.

Ég gleymi þér aldrei svo góð við mig,

ég sakna þín mjög og elska þig enn.

Tíminn líður og græðir öll sár,

og minning um þig er geymd hjá mér.

Nú ertu komin í himnaborg,

með afa minn þér við hlið.

Þó mikil sé mín hjartasorg,

þá fannstu þinn eilífa frið.

Þú vakir yfir svo mikið er víst,

og verður alltaf amma mín best.

(Höf. ók.)

Við kveðjum þig elsku amma Stella og geymum allar minningarnar um þig í hjarta okkar. Guð varðveiti þig elsku amma og takk fyrir allt.

Kristján Vignir, Jón Ragnar, Hjálmar Þór og Róbert Steinar.