[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Suzuki hefur fært sig upp um flokk í hönnun og smíði jeppa.

Eftir Einar Elí Magnússon

einareli@24stundir.is

Hönnunardeild Suzuki hefur greinilega fundið þann áttavita sem aðrir leita að. Nýr Swift er algjört augnayndi og nýr Grand Vitara er líklega flottasti Suzuki jeppinn til þessa.

Til prófunar var Limited útgáfan, en til viðbótar við grunntýpuna, Sport, er hún meðal annars búin 17" álfelgum, alcantara sæta-

áklæði og topplúgu.

Aðgengi til fyrirmyndar

Fyrir utan útlitið er það fyrsta sem maður tekur eftir hversu gott aðgengi að bílnum er. Framhurðirnar eru stórar og opnast alveg niður í gólf, sem er flatt, og sætin eru í þeirri hæð að maður sest áreynslulaust inn í þau. Þetta er auðvitað gott fyrir alla notendur, en þeir sem sökum aldurs eða líkamlegs ástands eiga erfitt með að hreyfa sig ættu sérstaklega að kunna að meta þetta.

Pláss er annars mjög gott og hefur þau áhrif að manni finnst maður öruggur og óhultur í akstri. Aftursætið er einnig rúmt, auk þess sem hægt er að halla sætisbakinu, en þeir sem geyma búslóðina í bílnum gætu ef til vill þegið stærra skott.

Ískur og ófærur

Tveggja lítra bensínvélin rétt sleppur til að drífa bílinn áfram, þó hann sé undir 1,6 tonnum. Af öðru sem mér þótti ábótavant má nefna að á ójöfnum vegum ískraði og glamraði í klæðningunni í farangursrýminu, þó bíllinn hafi nánast verið ókeyrður þegar ég tók við honum. Þá taka aftursætin óhemju pláss þegar þau eru lögð fram, en heildarstærð farangursrýmis er 1.386 lítrar.

Á móti kemur að mjög auðvelt er að hafa stjórn á bílnum, jafnvel á snævi þöktum vegum, og vilji menn reyna fyrir sér á torfærum slóðum kemur lága drifið sér vel.

Að lokum er það svo verðið. Eftir að vera orðinn vanur því að Suzuki kosti minna en keppinautarnir kom fullvaxinn verðmiði á Grand Vitara Limited mér svolítið á óvart. Og þó ... bíllinn er líka fullvaxinn. Hefur fært sig upp um flokk.

Í hnotskurn
Ekki sá best búni og ekki sá ódýrarsti, en þægilegur bíll sem auðvelt er að lifa með og ljúft að keyra.