Borgarstjórnarfundurinn í gær er ekki sá fyrsti þar sem efnt er til mótmæla.

Borgarstjórnarfundurinn í gær er ekki sá fyrsti þar sem efnt er til mótmæla. Árið 1932, í Gúttóslagnum, brutust út allsherjarslagsmál milli verkamanna og lögreglu eftir að borgarstjórnarfundur þar sem lækkun launa í atvinnubótavinnu var til umræðu hafði leyst upp.

Árið 1988 fyllti fólk úr samtökunum Tjörnin lifi áhorfendapalla borgarstjórnar til að mótmæla byggingu ráðhúss við Tjörnina. Forseti þurfti oftar en einu sinni að hasta á áheyrendur vegna framíkalla. Mótmælendur gengu síðan út úr salnum á meðan Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri, flutti ræðu og sungu hástöfum „á sandi byggði heimskur maður hús“.

Síðast varð uppþot á áhorfendapöllum Ráðhússins árið 2003 þegar mótmælendur fylltu þá til að mótmæla aðkomu borgarinnar að framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun. Forseti borgarstjórnar hótaði þá að rýma pallana en það var ekki gert. Lögreglan þurfti þó að fjarlægja einn mann, sem hafði haft sig mikið í frammi. thordur@24stundir.is