Ástþór Magnússon hélt blaðamannafund í gær sem var í raun eins konar myndlistargjörningur ef marka má fréttir Ríkissjónvarpsins í gær.

Ástþór Magnússon hélt blaðamannafund í gær sem var í raun eins konar myndlistargjörningur ef marka má fréttir Ríkissjónvarpsins í gær. Ástþór las upp tilkynningu um að hann væri reiðubúinn að greiða kostnað við forsetakosningarnar í vor um leið og öryggisverðir röðuðu fjörutíu milljónum í tvöþúsund króna seðlabúntum á borð við hlið hans. Þetta var nýstárleg notkun á þessum öfluga fréttamiðli í þágu listarinnar.

Um sama leyti, samkvæmt þessum fréttatíma, og Ástþór bauðst til þess að kaupa lýðræðið birtist fegurð þess með öðrum hætti í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Dagur B. Eggertsson fór frá, Ólafur F. Magnússon tók við og kórinn söng: Vér mótmælum öll!

Í sama fréttatíma sagði Björn Ingi Hrafnsson af sér vegna fatakaupa og enn og aftur kom Guðni Ágústsson honum til varnar en að þessu sinni með ritninguna að vopni: Sá yðar sem syndlaus er varpi fyrsta steininum! Hann kvaðst ekki vita betur en að stjórnmálamenn hefðu hingað til farið í litgreiningu og til ímyndarráðgjafa á kostnað flokkanna. Reyndar sagði hann ímyndunarráðgjafa en hver þarf á þeim að halda þegar lýðræðið skaffar skemmtiatriði á borð við þessi.

Þröstur Helgason

Höf.: Þröstur Helgason