SAMHLJÓMUR er með oddvitum allra flokka í bæjarstjórn varðandi hugmyndir um að nýr kirkjugarður verði í Naustaborgum: Allir eru hrifnir.

SAMHLJÓMUR er með oddvitum allra flokka í bæjarstjórn varðandi hugmyndir um að nýr kirkjugarður verði í Naustaborgum: Allir eru hrifnir. Eins og fram kom í blaðinu í gær hefur umhverfisnefnd bæjarins skipað vinnuhóp til að kanna málið en hugmyndir Smára Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Kirkjugarða Akureyrar, eru á þá lund að kirkjugarðurinn verði um leið útivistarsvæði, með ákveðnum formerkjum, m.a. með göngustígum og reiðleiðum.

„Á kynningu nýverið hjá Kirkjugörðum Akureyrar hreifst ég af þessari hugmynd og hvernig þeir hugsa garðinn sem hluta af almennu útivistarsvæði, þetta er ný hugsun sem ég held að sé rétt að mörgu leyti,“ sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri, við Morgunblaðið.

Sigrún telur hugmyndina vel þess virði að skoða nánar og hún gæti orðið að veruleika á 15 til 20 árum. „Engu að síður þarf að taka tillit til hennar núna strax við deiliskipulagsvinnu og heildarhugsun á svæðinu sem um ræðir,“ sagði bæjarstjóri.

Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs, tók í sama streng. „Þessi hugmynd er athyglisverð og full ástæða til þess að skoða hana betur. Röksemdirnar fyrir þessari staðsetningu eru góðar og þar vek ég sérstaklega athygli á þeirri staðreynd að við þurfum nú að taka tillit til fjölbreyttari þarfa á þessu sviði vegna þess að við lifum í fjölmenningarsamfélagi. Í mínum huga mælir ekkert á móti því að grafreitir og útivistarsvæði geti farið saman en ég veit að um það eru skiptar skoðanir,“ sagði Hermann Jón.

Baldvin H. Sigurðsson, VG, segist ofboðslega ánægður með hugmyndina. „Þetta er eins og talað úr mínum munni og ég heyri á mörgum bæjarbúum að þeir vilja einmitt hafa nýjan kirkjugarð í námunda við þann gamla,“ sagði Baldvin og bætti við að skynsamlegt væri að hafa sem styst á milli garðanna vegna þeirra tækja sem notuð væru til að hirða þá. Lítið vit væri í að keyra nokkra kílómetra „í gegnum umferðarbæinn Akureyri“ á milli kirkjugarða.

Jóhannes Bjarnason, Framsóknarflokki, nefndi einnig praktísku hliðina og þeir Baldvin lýstu báðir yfir hrifningu á að kirkjugarðurinn yrði hluti af útivistarsvæði bæjarbúa og það gerði einnig Oddur Helgi Halldórsson, oddviti L-lista fólksins.

Jóhannes vildi á sínum tíma að kirkjugarðurinn yrði stækkaður þar sem hann er í dag en varð undir með hugmyndir sínar, en líst afskaplega vel á hugmyndafræðina með Naustaborgir. „Ég held satt að segja að hugmynd Smára um garðinn í Naustaborgum sé frábær.“

Oddur Helgi sagðist ætla að eyða eilífðinni norðan Glerár, þar sem hann er fæddur og hefur alltaf verið búsettur, en hugmynd Smára væri frábær. „Mér líst mjög vel á þetta. Svæðið gæti orðið fallegt og mjög skemmtilegt útivistarsvæði.“