Brynjólfur Þorvarðarson
Brynjólfur Þorvarðarson
Brynjólfur Þorvarðarson skrifar um trúmál: "Kristið siðgæði hefur enga merkingu í trúlitlu samfélagi en er um leið meingallað eins og sagan sýnir."

SÓKNARPRESTARNIR Gunnar Jóhannesson og Sighvatur Karlsson rita hvor sína greinina í Morgunblaðið nýlega og undirstrika báðir, hvor á sinn hátt, þann mikla siðferðisvanda sem kristnin á við að glíma. Hluti þessa vanda er nýr af nálinni en að stærstum hluta er um alvarlega vankanta á grundvallarforsendum kristilegs siðferðis að ræða.

Hinn gleymdi Guð

Forsenda kristilegs siðferðis hlýtur að vera Kristur – trúin á mannssoninn, á Guð föðurinn, á upprisuna og eilíft líf. Án trúar er enginn grundvöllur fyrir siðgæði trúar. Án guðdómsins er „kristið siðgæði“ bara 2000 ára gamlar hugvekjur, endurtekning á hugsunum fyrri heimspekinga og trúarleiðtoga. Sá sem ekki trúir á Krist sem frelsara hefur enga ástæðu til að fylgja siðaboðskap Jesú.

Enginn afsökunarmaður kirkju og kristni sem skrifað hefur í blöð undanfarin misseri hefur mér vitanlega bent á trúarlegar forsendur kristilegs siðaboðskapar, ekki heldur sérarnir tveir.

Séra Gunnar skrifar þann 22. janúar síðastliðinn um fyrirhugaðar breytingar á grunnskólalögum. Hann vill halda „kristilegu siðgæði“ í lögunum og notar hefðarrökin máli sínu til stuðnings, án þessarar klausu verði höggvið á viðjar kirkju og þjóðar. Þjóð, menning, hefðir eru hugtök sem Gunnari eru töm – en enginn Guð, enginn Jesú, engar trúarlegar forsendur.

Séra Sighvatur skrifar þann 15. janúar um nauðsyn þess fyrir siðferði mannsins að lúta vilja handboltaþjálfarans sem einkum birtist á jólum (!) og má leiða líkur að því að hér eigi hann við drottin Guð sinn. En ekki stígur hann skrefið til fulls, enginn er Jesú á vellinum og krossfesting og upprisa langt undan.

Afsakendur kirkju og kristni vita auðvitað sem er að þeir tala til þjóðar sem er ekki nema í besta falli að hálfu kristin. Gunnar veit þetta þótt hann slysist til að telja 90% þjóðarinnar kristin. Aðeins annar hver maður telur sig kristinn, mun færri taka kristnar kennisetningar trúanlegar samkvæmt skoðanakönnun sem Þjóðkirkjan hefur sjálf staðið að og Gunnari er vel kunnugt um.

Þegar stór (og vaxandi) hluti þjóðarinnar telur sig ekkert hafa með kristni að gera er „kristið siðgæði“ orðið marklaust í samfélagslegu samhengi. Án trúarinnar hefur siðgæði trúar ekkert gildi nema þar sem það fellur saman við algilt siðferði eins og það birtist í mannréttindasáttmálum, ritum heimspekinga, lögum og siðareglum hvers konar.

Maðurinn í öðru sæti

Siðferðisboðskapur kristninnar er ekki aðalboðskapur hennar. Guð er aðalboðskapurinn, allt annað lýtur í lægra haldi. Fyrstu sex af boðorðunum tíu snúast um Guð. Kærleiksboðskapurinn er að elska Guð umfram allt, af öllu hjarta, sálu og líkama. Síðan má elska náungann eins og sjálfan sig.

Hvort sem okkur hugnast Guð kristninnar eða ekki (honum hefur vonandi farið fram í mannúðarmálum á síðustu 3000 árum eða svo) þá er ljóst að siðaboðskapur kristninnar byggist á Guði – ekki manninum. Kennsluefni í kristnifræðikennslu, sem séra Sigurður Pálsson hefur skrifað, gerir þetta ljóst og sama gera þeir Gunnar og Sighvatur í greinum sínum.

Fylgifiskur kristilegs siðgæðis er að maðurinn sé á einhvern hátt lélegur, maðurinn hefur „beðið skipbrot“ segir séra Sighvatur og telur að hann þurfi að leita sér hjálpar. Séra Gunnar tekur ekki eins djúpt í árinni en þó kemur skýrt fram hjá honum sama mannfyrirlitning.

Kristið siðferði kennir að maðurinn sé ómerkilegur og að Guð hafi forgang. Skammt undan er sú hugsun að orð Guðs hafi forgang yfir manninn, að hagsmunir mannsins víki þegar Guð (eða embættismenn hans) eru annars vegar. Skýrt dæmi um þetta er ósiðleg innkoma kirkjunnar í leik- og grunnskóla landsins.

Eins og sagan sýnir

Kristileg siðgæðiskenning er ekki góð. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá sagði einhver og ef saga kristinna þjóða síðustu 2000 ára sýnir eitthvað þá er það vanmáttur kristilegs siðaboðskapar. Kristnar þjóðir hafa síst látið sitt eftir liggja í drápum og gripdeildum, grimmd og kúgun – gott ef þær hafa ekki slegið öllum öðrum þjóðum við í eyðileggingu manna jafnt sem menningarheima.

Siðaboðskapur kristninnar hefur ekki staðið í stykkinu og nú er tímabært að setja hann til hliðar. Skiptir þá engu þótt afsakendur kristninnar komi og bendi á þann árangur í mannúðar- og mannréttindamálum sem orðið hefur á síðustu öld og áratugum og reyni að halda því fram að allt sé þetta kristninni að þakka. Hvar var þá kristnin hinar 19 aldirnar?

Höfundur stundar nám við KHÍ.

Höf.: Brynjólfur Þorvarðarson