Skoðanakönnun sú sem Fréttablaðið birti í gær, um fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu, ætti að vera forystumönnum Sjálfstæðisflokksins mikið áhyggjuefni.

Skoðanakönnun sú sem Fréttablaðið birti í gær, um fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu, ætti að vera forystumönnum Sjálfstæðisflokksins mikið áhyggjuefni.

Samkvæmt þessari skoðanakönnun er Samfylkingin á góðri leið með að ná Sjálfstæðisflokknum í fylgi á landsvísu.

Hvað veldur?

Það er augljóst.

Sú ákvörðun forystumanna Sjálfstæðisflokksins að leiða Samfylkinguna inn í ríkisstjórn er nú að sækja þá heim með afdrifaríkum hætti.

Það blasir við að aðild Samfylkingar að ríkisstjórn eflir flokkinn, eins og við mátti búast. Sjálfstæðisflokkurinn hefur með þessu stjórnarsamstarfi skapað helzta keppinaut sínum í íslenzkum stjórnmálum mjög sterka vígstöðu og sóknarfæri.

Vafalaust valda svo ákveðnir þættir í myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur Sjálfstæðisflokknum erfiðleikum og draga úr fylgi við hann í þessari könnun.

Hvernig ætla forystumenn Sjálfstæðisflokksins að bregðast við?

Ætla þeir að láta sem ekkert sé og bíða eftir því að í næstu könnun komist Samfylkingin yfir Sjálfstæðisflokkinn í fylgi?

Hvað segir helzti talsmaður samstarfs við Samfylkinguna, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, um þessa stöðu?