Eftir Ægi Þór Eysteinsson aegir@24stundir.is Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra eru tuttugu og níu ökutæki, þar með taldir tjaldvagnar og felli- og hjólhýsi, enn eftirlýst eftir að hafa verið tilkynnt stolin eða horfin til lögreglu árið 2007.

Eftir Ægi Þór Eysteinsson

aegir@24stundir.is

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra eru tuttugu og níu ökutæki, þar með taldir tjaldvagnar og felli- og hjólhýsi, enn eftirlýst eftir að hafa verið tilkynnt stolin eða horfin til lögreglu árið 2007.

Þeirra á meðal eru fimmtán bifreiðar, allt frá Toyota-smábílum upp í dýra jeppa á borð við Cadillac Escalade.

Sjö ökutækja saknað frá 2005

Á heimasíðu lögreglunnar, sem er uppfærð daglega, er að finna lista yfir eftirlýst ökutæki. Samkvæmt honum hafa sex bifreiðar horfið sporlaust á höfuðborgarsvæðinu frá áramótum, sú fyrsta var grá Toyota Corolla sem var tilkynnt horfin til lögreglu 10. janúar.

Sjö ökutækja er enn saknað frá því árið 2005 samkvæmt heimasíðunni og tólf ökutæki sem tilkynnt voru til lögreglunnar sem stolin eða horfin árið 2006 hafa enn ekki komið í leitirnar.

Mörg dæmi eru um að ökutæki sem hverfa hér á landi finnist aldrei. „Það er alltaf einhver hluti ökutækjanna sem aldrei finnst, en sú tala hefur ekki verið tekin saman,“ segir Þorvaldur Sigmarsson, varðstjóri á almennri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Það virðist þó vera stígandi í þessu ár frá ári, enda fjölgar fólki hér ört og ökutækjunum sömuleiðis.“

Mest stolið af Nissan-bílum

Athygli vekur að þriðjungur þeirra bíla sem horfið hafa á árunum 2005 til 2007 er af gerðinni Nissan. „Nissan-bílar eru búnir að vera ansi áberandi. Þetta virðist fara eftir gæðum á kveikjulásunum í bílunum hverju sinni, það virðist vera auðveldara að stela Nissan-bílum en öðrum og við höfum tekið eftir því,“ segir Þorvaldur.
Í hnotskurn
15 bifreiðar hurfu sporlaust á síðasta ári. Sömu sögu er að segja af 6 bifhjólum og 4 fjórhjólum. 2 tjaldvagnar og 1 fellihýsi hafa ekki komið í leitirnar, ekki heldur einn vélsleði.