„MIÐSTJÓRN Alþýðusambands Íslands mótmælir því harðlega að ekki skuli farið að leikreglum við framkvæmd hópuppsagna 59 starfsmanna HB Granda hf.

„MIÐSTJÓRN Alþýðusambands Íslands mótmælir því harðlega að ekki skuli farið að leikreglum við framkvæmd hópuppsagna 59 starfsmanna HB Granda hf. á Akranesi en athygli ASÍ hefur verið vakin á því, að mjög alvarlega hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum laga um hópuppsagnir nr. 63/2000,“ segir í ályktun frá miðstjórninni, sem samþykkt var á fundi hennar á miðvikudaginn.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ASÍ hefur aflað sér hefur fyrirtækið ekki viðhaft lögbundið samráð eða látið trúnaðarmönnum starfsmanna í té skriflegar upplýsingar um fyrirhugaðar uppsagnir. Meðan svo er er óheimilt að tilkynna starfsmönnum um uppsagnir á ráðningarsamningum.

Miðstjórn ASÍ leggur áherslu á að lögbundinn réttur starfsmanna til upplýsinga og samráðs í tengslum við hópuppsagnir telst til mikilvægra réttinda launafólks og ASÍ lítur það alvarlegum augum þegar þau eru ekki virt. Miðstjórnin telur mikilvægt að samstaða náist í atvinnulífinu nú þegar mæta þarf erfiðleikum vegna niðurskurðar á aflaheimildum og þegar þeim erfiðleikum sé mætt verði í hvívetna farið að þeim samningum og lögum sem í gildi eru,“ segir í ályktuninni frá miðstjórn ASÍ.