Skipulagði smyglið Einar Jökull Einarsson gengur í dómsal.
Skipulagði smyglið Einar Jökull Einarsson gengur í dómsal. — Árvakur/Kristinn
Eftir Frey Rögnvaldsson freyr@24stundir.is „Maður byrjaði bara að púsla þessu saman í hausnum,“ sagði Einar Jökull Einarsson sem ákærður er fyrir skipulagningu á fíkniefnainnflutningi í Pólstjörnumálinu.

Eftir Frey Rögnvaldsson

freyr@24stundir.is

„Maður byrjaði bara að púsla þessu saman í hausnum,“ sagði Einar Jökull Einarsson sem ákærður er fyrir skipulagningu á fíkniefnainnflutningi í Pólstjörnumálinu. Aðalmeðferð í málinu fór fram í gær og játuðu allir sakborningarnir sex aðild að málinu að hluta eða í heild.

Neitaði að nefna höfuðpaurinn

Einar Jökull greindi frá því að maður hefði komið að máli við sig í maí árið 2007 og beðið sig að skipuleggja innflutning á fíkniefnum frá Danmörku til Íslands. „Hann spurði mig hvort ég gæti ekki græjað þetta.“ Einar Jökull var rólegur í réttarsalnum, virtist jafnvel í léttu skapi og svaraði spurningum greiðlega. Hann kvaðst bera einn ábyrgð á skipulagningu á innflutningnum en neitaði að hafa fjármagnað hann. Þegar Einar Jökull var beðinn um að nafngreina þann sem bað hann um að flytja efnin til landsins neitaði hann því. Einar Jökull sagði að fljótlega hefði komið upp sú hugmynd að flytja efnin sjóleiðina til Íslands. „Ég átti skútu í Noregi. Ég hef siglt áður til Íslands og það var ekkert mál.“

Fór að líða illa

Bjarni Hrafnkelsson játaði að hafa pakkað hluta af efnunum í íbúð í Kaupmannahöfn. Hann neitaði því hins vegar að hafa átt aðra aðild að málinu. Bæði Bjarni og Einar Jökull báru að það hefði verið hálfgerð tilviljun að Bjarni hefði verið fenginn til verksins. Þeir hafi hist fyrir tilviljun og Einar Jökull beðið hann um verkið. Bjarni hafi samþykkt það fyrir kunningsskap við Einar Jökul. Hann hafi farið í íbúð í Kaupmannahöfn eftir bendingu Einars Jökuls þar sem efnin hafi verið. Þar hafi hann pakkað hluta af efnunum í viðurvist annars manns sem hann þekkti ekki. Hann hafi hins vegar ekki pakkað þeim öllum. „Mér fór bara að líða illa þarna og ýtti þessu yfir á þann sem var þarna.“

Játuðu allir aðild

Hinir sakborningarnir fjórir játuðu aðild sína að málinu. Guðbjarni Traustason og Alvar Óskarsson játuðu að hafa siglt skútunni til Íslands með fíkniefnin innanborðs. Marinó Einar Árnason játaði að hafa ætlað að taka við efnunum á Fáskrúðsfirði en hafnaði því að hafa ætlað að taka þátt í dreifingu efnanna. Arnar Gústafsson játaði að hafa ætlað að geyma efnin fyrir Einar Jökul en kvaðst að öðru leyti ekki hafa haft afskipti af málinu. Verjendur mannanna lögðu áherslu á að þeir hefðu ekki komið að skipulagningu smyglsins.
Í hnotskurn
Saksóknari krefst hámarksrefsingar yfir þremur af mönnunum í Pólstjörnumálinu, eða tólf ára fangelsisvistar. Jafnframt var krafist harðra refsinga yfir öllum sakborningum. Því mótmæltu verjendur. Bentu þeir bæði á að sakborningar hefðu átt mismikinn þátt í málinu og jafnframt að þeir hefðu játað brot sín greiðlega.