Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon hvetur fólk til að huga að upphitun húsa sinna: "Reikna má með að notkun á heitu vatni verði allt að tvöföld meðalnotkun og þreföld sumarnotkun ef kuldaspáin gengur eftir."

MIKLU frosti er spáð í Reykjavík og nágrenni næstu daga, meira frosti en hér hefur mælst um árabil. Reikna má með að notkun á heitu vatni verði allt að tvöföld meðalnotkun og þreföld sumarnotkun ef kuldaspáin gengur eftir. Mun rennsli heita vatnsins hjá Orkuveitu Reykjavíkur þá verða svipað og vatnsrennsli Elliðaánna.

Við slíkar aðstæður getur verið gott að fólk hugi að upphitun húsa sinna og velti því fyrir sér hvernig unnt sé að tryggja fjölskyldunni hámarksþægindi með sem minnstum kostnaði. Þekkt er að dregið getur úr skilvirkni ofna vegna aldurs og viðhaldsleysis. Stundum geta þeir lokast að miklu eða öllu leyti og á þá kuldaboli greiða leið inn í húsið auk þeirrar sóunar sem verður þegar heita vatnið streymir beint í gegn. Þá er best að kalla til fagmann sem getur í mörgum tilvikum hresst ofnana við á skömmum tíma. Oft er hávaði í ofnlokum merki um að viðgerðar sé þörf. Stundum dugir þó ekkert annað en að skipta um ofn.

Að kljást við kuldabola

Meðfylgjandi eru nokkur góð hita- og sparnaðarráð í kuldatíðinni:

*Ekki byrgja ofna með húsgögnum, eða þykkum gluggatjöldum, hitastreymið frá þeim takmarkast við það.

*Ekki hafa opið út, allir innanstokksmunir geyma hita sem tapast við gegnumtrekk. Þurfir þú samt að lofta út, hafðu þá dyrnar að herberginu lokaðar. Betra er að hafa vel opið í skamma stund en rifu á gluggum í langan tíma.

*Hitanemar þurfa að vera vel staðsettir svo þeir nemi raunverulegt hitastig herbergisins.

*Gott er að setja upp herbergishitamæla þar sem skynjun manna á kulda er mismunandi.

*Ef fleiri en einn ofn er í herberginu er gott að hafa þá eins stillta. Í gegnum einn ofn getur farið meira ónotað vatn en um hina tvo til samans.

*Tappið lofti af ofnum ef þörf er á.

*Hitinn helst betur inni ef dregið er fyrir glugga.

*Ef ofnarnir ná samt ekki að halda kuldabola úti má hækka stillingu á þrýstijafnara um 0,7-1 á meðan á kuldakastinu stendur. Munið að lækka aftur þegar hlýnar í veðri.

Meiri fróðleik um heita vatnið og notkun þess er í sérstökum bæklingi Orkuveitu Reykjavíkur á heimasíðu Orkuveitunnar, or.is. Jafnframt má finna ýtarlegar upplýsingar í Hitaveitubókinni á heimasíðu Samorku, samorka.is.

Höfundur er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.