María Karólína Gunnþórsdóttir fæddist á Skálateigi á Norðfirði 20. janúar 1937 en ólst upp á Borgarfirði eystra. Hún lést 10. janúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Heydalakirkju 18. janúar.

Heimili Maju og Garðars er bakgrunnur margra minna bernskuminninga sem koma nú, við fráfall Maju, upp í hugann eins og litlar stuttmyndir frá þessum tíma.

Ég er á svipuðum aldri og þeirra elstu börn, Odda og Hilmar, þau bjuggu niðri á Selnesi og ég uppi, og við lékum okkur meira og minna saman á bernskuárunum. Á heimili þeirra var ég því heimagangur allt fram á unglingsár.

Barnahópur Maju og Garðars stækkaði ört og í minningunni er alltaf nýtt barn í barnarúminu. Þau voru öll innilega velkomin og Maja hafði alltaf gaman af börnum bæði sínum eigin og annarra. Hún var ótrúlega jafnlynd í öllum þeim ys og þys sem fylgdi svo stóru heimili og var ekki að velta sér upp úr smámunum. Mér finnst litla forstofan alltaf hafa verið þakin skóm og barnableyjur og síðar fótboltagallar fyllt snúrur. En Maja kvartaði ekki yfir löngum vinnudegi, síður en svo, og naut þess að vera húsmóðir á sínu stóra heimili.

Ég kom og fór eins og mér hentaði, var alltaf jafn vel tekið, og minnist aldrei skamma eða aðfinnslna frá Maju til okkar krakkanna þó stundum hljóti að hafa verið tilefni til.

Maja var listasaumakona og gat saumað allt sem henni datt í hug á örskömmum tíma og hafði endalaust vinnuþrek að því er manni fannst. Við Odda nutum góðs af saumadóti Maju og fengum að nota að vild, tókum upp snið og saumuðum á okkur föt. Maja leiðbeindi okkur eins og henni fannst þurfa en að mestu fengum við að hafa okkar hentisemi og vorum sælar með.

Á seinni árum eftir að ég eignaðist sjálf börn (henni fannst við nútímakonur vera ,,liðléttingar“ á því sviði!) spurði hún frétta af þeim og sagði af sínu fólki og hafði lifandi áhuga á að fylgjast með.

Maja var alltaf hrein og bein í skoðunum sínum, en um tilfinningar sínar dul, hefur sennilega ekki fundist gagn í því að bera þær á torg. En Maja varð sannarlega fyrir þungum áföllum, missti þrjú börn og síðar barnabarn.

Að sumu leyti fannst manni Maja og Garðar ólík hjón, en þó alltaf ákaflega samrýnd og ánægð saman.

Maja var sterkur karakter og miðpunktur sinnar fjölskyldu og tómarúmið því eflaust stórt hjá Garðari, Hildu og öllum afkomendunum sem hún var ávallt stoð og stytta.

Mínar bestu samúðarkveðjur til þeirra og Maju þakka ég samfylgdina.

Vilborg.