AÐEINS tvær tillögur verða lagðar fyrir þing Knattspyrnusambands Íslands sem haldið verður annan laugardag, 9. febrúar. Ljóst er að a.m.k. tvær breytingar verða á aðalstjórn sambandsins þar sem varaformaðurinn Halldór B. Jónsson og Ástráður Gunnarsson gefa ekki kost á sér.

Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

Halldór dró sig út úr stjórn KSÍ vegna veikinda en hann var kjörinn til tveggja ára á síðasta þingi. Lúðvík S. Georgsson hefur leyst hann af hólmi sem varaformaður undanfarna mánuði. Stjórn KSÍ samþykkti að kosið yrði um Halldór á þinginu og opið er fyrir framboð í það fram að kjöri. Þórarinn Gunnarsson, sem á sæti í varastjórn, hefur gefið kost á sér í stað Halldórs.

Tveir nýir gefa kost á sér í aðalstjórnina, Björn Guðbjörnsson og Rúnar V. Arnarson. Þau Lúðvík S. Georgsson, Jón Gunnlaugsson og Ingibjörg Hinriksdóttir, sem hafa setið í stjórn undanfarin ár, gefa kost á sér áfram, og þar eru því fimm í framboði um fjögur sæti.

Geir Þorsteinsson formaður, Guðrún Inga Sívertsen, Stefán Geir Þórisson og Vignir Már Þormóðsson voru kjörin til tveggja ára á síðasta þingi, auk Halldórs, og sitja því áfram í stjórn.

Aðalfulltrúar landsfjórðunga og varamenn í aðalstjórn gefa allir kost á sér á ný en það eru Björn Friðþjófsson, Einar Friðþjófsson, Guðmundur Ingvason og Jakob Skúlason, og eru því sjálfkjörnir áfram.

Varastjórnarmennirnir þrír, Jóhannes Ólafsson, Kjartan Daníelsson og Þórarinn Gunnarsson gefa allir kost á sér áfram og auk þess gefur Sigvaldi Einarsson kost á sér í varastjórn. Þórarinn er, eins og áður kom fram, einnig í framboði til sætis í aðalstjórninni. Taki hann sæti Halldórs þar, verða hinir þrír sjálfkjörnir í varastjórnina.

Ný lög á síðasta þingi

„Þingið verður væntanlega rólegra en oft áður en aðalástæðan fyrir því að svona fáar tillögur skuli koma fram er sú að ný lög með miklum breytingum voru samþykkt á síðasta ársþingi. Nú er það í höndum stjórnar KSÍ að gera breytingar á hinum ýmsu þáttum í starfinu, í stað þess að sú vinna fari fram á ársþinginu,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, við Morgunblaðið.

Stjórn KSÍ leggur fram tillögu að jafnréttisáætlun sambandsins, ásamt aðgerðaáætlun vegna jafnréttismála fyrir 2008-2009. Þar er m.a. gert ráð fyrir að skipaður verði sérstakur jafnréttisfulltrúi KSÍ, konum í stjórnum félaga verið fjölgað markvisst og átaksverkefni verði í að fjölga kvendómurum og -þjálfurum.

Þá leggja Vestfjarðafélögin BÍ frá Ísafirði og Höfrungur á Þingeyri fram tillögu um að heimilt verið að nota alla fimm varamennina í leikjum í forkeppni og 1. umferð bikarkeppni KSÍ, rétt eins og leyft er í 3. deild karla og 1. deild kvenna.