Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is JOHN McCain virðist nú líklegur til að ná því takmarki sínu að verða forsetaefni repúblikana þrátt fyrir aldurinn, 71 ár, og fortíð sem uppreisnarmaður í flokknum.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

JOHN McCain virðist nú líklegur til að ná því takmarki sínu að verða forsetaefni repúblikana þrátt fyrir aldurinn, 71 ár, og fortíð sem uppreisnarmaður í flokknum. Rudy Giuliani lýsti í gær yfir stuðningi við hann, eins og búist hafði verið við, enda hefur lengi verið vinátta á milli þeirra. Yfirlýsingin styrkir stöðu McCains meðal miðjurepúblikana í norðausturríkjunum, hann þarf ekki lengur að keppa við Giuliani um stuðning þeirra í forkosningum.

McCain mætti keppinautum sínum í sjónvarpskappræðum í Kaliforníu í gær. Hann ítrekaði m.a. fyrri ásakanir um að Mitt Romney væri ekki nógu traustur í stuðningi við Íraksstríðið, hefði tekið undir tillögur demókrata um að setja fram tímasetta áætlun um brottflutning herliðsins. George W. Bush forseti og menn hans segja tímasetningu vera hreinræktaða gjöf til uppreisnarmanna sem geti þá miðað áætlanir sínar við væntanlega brottför.

McCain er örugglega að mistúlka ummæli Romneys sem voru óljós en sá fyrrnefndi náði markmiði sínu, Romney lét áhlaupið slá sig út af laginu. Sakaði hann þá McCain um að nota „óþverrabrögð“ í anda „hefðbundinna Washington-pólitíkusa“. McCain svaraði með því að minna á rándýrar sjónvarpsherferðir auðkýfingsins Romneys sem sumar hafa þótt hálfgert skítkast. „Neikvæðu auglýsingarnar þínar, vinur minn, hafa gefið tóninn í þessari baráttu,“ sagði McCain. Er Romney reyndi að klína stimpli vinstrisinna á keppinautinn með því að minna á að The New York Times hefði lýst stuðningi við hann svaraði McCain að tvö blöð í heimaborg Romneys, Boston, styddu sig „og þau þekkja þig best af öllum“.

Fleiri vilja fá demókrata í Hvíta húsið en...

Kannanir vestra sýna að mun fleiri vilja fá demókrata en repúblikana í Hvíta húsið en í nóvember mun fólk kjósa raunverulegan einstakling, ekki einhvern ímyndaðan staðaldemókrata. Persónan getur skipt meira máli en flokksliturinn.

Grjótharðir flokkshestar repúblikana segja margir að McCain sé ekki trúverðugur, hann sé ekki eingöngu fylgjandi slökun gagnvart ólöglegum innflytjendum heldur hafi líka á sínum tíma greitt atkvæði gegn skattalækkunum Bush og sé á öndverðri skoðun við kjarna Repúblikanaflokksins varðandi baráttuna gegn gróðurhúsaáhrifum. McCain vill að Bandaríkin taki forystuna í þeim efnum. Hann rökstuddi andstöðu sína við skattalækkanirnar á sínum tíma með því að segja að hann vildi sjá jafnhliða niðurskurð á útgjöldum. Og gríðarlegur fjárlagahallinn bendir til þess að hann hafi haft mikið til síns máls.

Jonathan Freedland segir í breska blaðinu The Guardian í gær að umkvörtunarefni hægrimanna séu einmitt þess eðlis að þau geri McCain meira aðlaðandi en ella meðal fjölmargra hófsamra Bandaríkjamanna.

„Það er rétt að hann er mikill haukur í utanríkismálum, hvikar hvergi í stuðningi sínum við Íraksstríðið, en hann er enginn Dick Cheney – ekki hataður eins og hann og því mun hann ekki hræða demókrata til að gera hvað sem er til að stöðva hann. Hvað snertir afstöðu hans til loftslagsmála þá hitti ég græningja í Flórída sem kaus Al Gore en styður nú McCain,“ segir Freedland.

Í hnotskurn
» Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, lýsti í gær yfir stuðningi við McCain í forkosningum repúblikana.
» Skoðanakönnun á landsvísu sýndi nýlega að McCain myndi sigra bæði Hillary Clinton og Barack Obama í haust.